Sjávarútvegssamningur Íslands og EB

63. fundur
Fimmtudaginn 26. nóvember 1992, kl. 11:53:43 (2712)

     Eyjólfur Konráð Jónsson :
    Hæstv. forseti. Það er í sjálfu sér óþarft að taka það fram, hygg ég, að Alþingi ræður enn þá yfir sínum fiskimiðum og að þetta mál hljóti að verða útkljáð á Alþingi í Reykjavík en ekki í Brussel. Ég vona að við séum ekki svo langt leiddir að það geti verið og ég orða það ekki frekar svo augljóst sem það er.
    Ég nota þetta tækifæri enn einu sinni til þess að lýsa því yfir að þingmenn og landsmenn allir ættu að vita það að við eigum 350 mílur á Reykjaneshrygg. Það eigum við Íslendingar og eigum einir. Það á að fara að verja hann og gæta okkar réttinda þar. Við eigum 600 mílur suður í höf og allan Hatton-bankann ef rétt er á málum haldið og getum þar að auki náð samningum við Breta hvenær sem er um það að hafa samnýtingu á Hatton-Rockall svæðinu. Við eigum hafsgrunnsréttindi alveg norður á pól ef rétt er á málum haldið og það er alltaf verið að þvæla um smámuni. Það eru kannski ekki smámunir að rifta samningum frá 1976 eða ákvörðun frá 1976 og byrja að leyfa útlendingum veiðar. Það er þó smátt að því leyti til að þetta eru þó ekki nema þessi 3 þús. tonn sem hér er um rætt. En það getur ekki gengið öllu lengur að menn sem sitja á Alþingi og eru kjörnir af þjóðinni til að gæta réttar hennar haldi áfram að þverskallast við að skilja þá einföldu hluti að við eigum stærri hlut af yfirborði jarðar en öll Suður- og Mið-Evrópa er og við eigum þetta hafsvæði og engir aðrir að réttum reglum 76. gr. hafréttarsáttmálans. Við börðumst í 10 ár fyrir þessum réttindum en nú á að glutra þeim niður. Þetta hefði verið saga til næsta bæjar þegar við vorum að vinna þessa stórsigra. Ég ætlast til þess að ráðherrarnir fari a.m.k. að kanna málin og kynna sér aðstæður og landsins lög og reyndar þjóðarétt. Þetta er allt í hendi og við þurfum að gefa okkur tíma til þess að staldra augnablik við og snúa bökum saman til að tryggja þessi réttindi sem við Íslendingar eigum. Þeir sem ekki gera það ættu að segja af sér þingmennsku.