Sjávarútvegssamningur Íslands og EB

63. fundur
Fimmtudaginn 26. nóvember 1992, kl. 11:59:47 (2714)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegi forseti. Í allri umræðu um EES-samninginn hefur það verið ítrekað aftur og aftur að mikilvægur þáttur í samningnum sé gagnkvæmnin, að það þurfi að vera jafnvægi eins og það er orðað, m.a. í inngangi að samningnum held ég, milli réttinda og skyldna. Það er auðvitað sanngjarnt og eðlilegt í samningaviðræðum að menn taki og láti líka af hendi en það þarf að vera svo á báða bóga, ég undirstrika það. Menn hafa rætt um það hér hvort í fiskveiðisamningnum eða gagnkvæmum skiptum á veiðiheimildum eigi fiskur að koma fyrir fisk eða veiðiheimildir fyrir veiðiheimildir. Það verður því miður að segjast eins og er að samkvæmt orðanna hljóðan í öllum þeim nótum sem við höfum undir höndum er verið að tala um fiskveiðiheimildir, ,,fishing possibilities`` eins og það heitir í þessum ensku textum. Þetta er m.a. það sem undirritað var í Óportó í maí og má kannski bara segja að menn hafi einfaldlega samið af sér þegar þeir undirrituðu slíkar nótur. Hins vegar er ástæða til þess að ítreka að það er ekkert jafnræði í því hvernig með á að fara ef umsaminn afli næst ekki þó við séum að tala um ,,fishing possibilities`` eða veiðiheimildir vegna þess að ef karfi næst ekki á þeim tilteknu svæðum sem Íslendingar hafa sett inn í nótuna, þá á að reyna að ná samkomulagi um að breyta mörkum svæðanna, þ.e. tilnefna þá væntanlega önnur svæði. Ef loðna næst hins vegar ekki og Íslendingar ná henni ekki verða þeir bara að bera skaðann. EB býður ekki neitt til vara. Það er auðvitað það sem við eigum að krefjast núna, að þeir bjóði eitthvað fyrir loðnuna náist hún ekki, eins og ráð er fyrir gert, vegna þess að við bjóðum önnur svæði náist karfinn ekki á tilteknum svæðum.
    Það hefur komið fram í umræðum fyrr að EB virðist núna ætla að beita bókun 9 sem einhvers konar þumalskrúfu á Íslendinga, þ.e. náist fiskveiðisamningar ekki núna taki bókun 9 ekki gildi. Með því móti eru þeir í rauninni að reyna að einangra fiskveiðiþjóðirnar, Íslendinga og Norðmenn, innan EFTA-hópsins. Ég vil segja það að við verðum þá bara að beita þeirri skrúfu á móti að ganga ekki frá EES-samningnum fyrr en fiskveiðisamningurinn liggur fyrir og láta EFTA-ríkin róa með okkur á þessum sameiginlega báti allt til enda.