Sjávarútvegssamningur Íslands og EB

63. fundur
Fimmtudaginn 26. nóvember 1992, kl. 12:07:00 (2717)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Ástæðan fyrir því að rammasamningurinn frá 1981 var ekki staðfestur var ekki ágreiningsefni um hann sem slíkan heldur einfaldlega vegna þess að menn náðu ekki samningum um skiptingu á sameiginlegum stofnum, þar á meðal við Grænlendinga.
    Því var haldið fram að með því að kveða á um það í erindaskiptunum að skipti skyldu vera skipti á gagnkvæmum veiðiheimildum hafi Íslendingar samið af sér og það væri vont til þess að vita að þeir hafi gert það á undan Norðmönnum. Þetta er alger misskilningur. Frá upphafi vega hefur verið rætt um skipti á gagnkvæmum veiðiheimildum. Norðmenn hafa slíka samninga frá fyrri tíð við Evrópubandalagið sem allir eru byggðir á gagnkvæmum veiðiheimildum. Það er misskilningur hjá hv. 8. þm. Reykn. að Evrópubandalagið hafi gefið upp samningsumboð sitt vegna þess að það liggur fyrir í erindaskiptunum undirskrifuðum, í Óportó 2. maí, að þar eru báðir aðilar að semja um skipti á gagnkvæmum veiðiheimildum. Það sem verið er að semja um á morgun er útfærslan á framkvæmd þeirra samninga. Það er ekki spurning um það að skipti á gagnkvæmum veiðiheimildum feli í sér að Evrópubandalagið sé að sýna á höndina í samningunum á morgun.
    Það er rétt sem fram kom hjá hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur að það er ekki jafnræði í samningnum að einu leyti, þ.e. það er viðurkennt að verðmæti loðnunnar sem Íslendingar fá í sinn hlut er umtalsvert meira en þeirra 3 þús. tonna karfaígilda sem þeir fá í sinn hlut.
    Að lokum að því er varðar spurninguna um gagnkvæmni í samningnum er engin spurning um það að þetta er byggt á skiptum á gagnkvæmum veiðiheimildum. Það er alveg ljóst að úthlutun á loðnukvótum, sem fer að mestu leyti eftir ráðgjöf íslenskra vísindamanna og er í höndum íslenskra stjórnmálamanna, stjórnvalda, þá er um það það eitt að segja að ef þessar loðnuheimildir verða ekki nægilegar til þess að Grænlendingar fái í sinn hlut þær veiðiheimildir sem Evrópubandalagið hefur af þeim keypt, þá er gagnkvæmnin í því fólgin að þá fær Evrópubandalagið náttúrlega ekki í sinn hlut þennan karfa sem um er samið. Í því er gagnkvæmnin fólgin. Síðan geta komið upp álitamál um breytileg tilvik sem þarf að semja um nákvæmlega. Þeir samningar eru frá ári til árs og það er það sem fram fer á morgun. Hitt liggur að mestu leyti fyrir.