Atvinnuleysistryggingar

63. fundur
Fimmtudaginn 26. nóvember 1992, kl. 13:03:51 (2724)


     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. jákvæða umfjöllun um þetta frv. og treysti því að það geti orðið til þess að frv. nái afgreiðslu á þeim skamma tíma sem eftir er af störfum Alþingis fyrir áramót því að það er nauðsynlegt að geta hafist handa mjög fljótlega eftir áramót til þess að ráða bót á atvinnuvanda að svo miklu leyti sem það frv. sem hér er flutt getur megnað að ráða þar bót á.
    Ég ætla ekki að tala um önnur atriði en þau sem lúta að efni þessa frv. en þó kemst ég ekki hjá því að benda hv. 9. þm. Reykv. á það að afnám aðstöðugjalds var tekið upp í tillögu ríkisstjórnarinnar úr tillögum aðila vinnumarkaðarins. Eins og þeir settu þær tillögur fram var gert ráð fyrir því að fella niður aðstöðugjald á fyrirtækjum en afla á móti jafnhárra tekna með skattlagningu á einstaklinga, þ.e. eins og þeir lögðu málið upp með hækkun á útsvarsprósentu um 1 prósentustig og hækkun á bifreiðasköttum. Það var gert ráð fyrir því að jafna aðstöðugjaldslækkunina út með nýrri skattheimtu þannig að engin breyting væri á heildarskatttekjum hins opinbera. Ríkisstjórnin framkvæmdi málið nákvæmlega þannig. Að vísu ekki með hækkun á útsvari um 1% og hækkun á bifreiðagjaldi heldur með hækkun á tekjuskattshlutfalli sem vinnur nákvæmlega eins og hækkun á útsvari. Með þessu móti var því eingöngu verið að flytja til skatta í þjóðfélaginu frá einum aðila, þ.e. fyrirtækjunum, og yfir á annan, þ.e. einstaklinga. Þeirri breytingu fylgir engin breyting á skatttekjum hins opinbera í heild þannig að hér er ekki um skattahækkanir að ræða.
    Hins vegar er það álitamál hvort það sé rétt eins og aðilar vinnumarkaðarins gerðu ráð fyrir í sínum tillögum að lækkun aðstöðugjaldisns kæmi alfarið fram sem verðlækkun á þjónustu og vörum. Þeir voru þeirrar skoðunar að þó svo það væru fyrirtækin sem að nafninu til greiddu aðstöðugjaldið, þá kæmi það fram í verðlagningu þeirra á vöru og þjónustu. Og samkeppnin væri það mikil á milli seljenda vöru og þjónustu á Íslandi að afnám aðstöðugjalds kæmi fram sem lækkun á vöruverði og lækkun á þjónustu þannig að þessi skattatilfærsla mundi ekki hafa í för með sér kaupmáttarskerðingu fyrir einstaklinga. Þetta var álit aðila vinnumarkaðarins þá þegar þessi tillaga var gerð og er sjálfsagt enn.
    Spurningin er aðeins sú eins og formaður Neytendasamtakanna tók fram í sjónvarpi að hve miklu leyti gengisbreytingarnar hefðu þau áhrif að vinna gegn því að afnám aðstöðugjaldsins kæmi alfarið fram

í lækkun á vöruverði og þjónustu. Ég er alveg sammála því að menn geta um það deilt, en í þessu er ekki fólgin nein hækkun á skatttekjum hins opinbera í heild eins og hv. þm. lét að liggja.
    Ef við víkjum að stöðu Atvinnuleysistryggingasjóðs þá er staða sjóðsins miklu veikari nú en hún þyrfti að vera. Hvers vegna? Vegna þess að lengi vel hafði Alþingi þann sið að standa ekki við lögmælt fjárframlög ríkisins til Atvinnuleysistryggingasjóðs. Á ári hverju fluttu þær ríkisstjórnir, sem þá sátu við völd, sem í hafa verið allir flokkar þingsins nema Kvennalistinn sem aldrei hefur átt sæti í ríkisstjórn, í frv. til lánsfjárlaga ákvæði um að þrátt fyrir ákvæði laga um skylduframlög ríkissjóðs til Atvinnuleysistryggingasjóðs skyldi ekki greitt til sjóðsins nema brot af þeirri fjárhæð. Þetta gerðu allar ríkisstjórnir í mörg ár. Þetta er orsökin fyrir erfiðleikum Atvinnuleysistryggingasjóðs nú. Ég hef beðið um að fá það reiknað út fyrir mig hver væri staða Atvinnuleysistryggingasjóðs í dag ef hann hefði á umliðnum árum ávallt fengið það framlag úr ríkissjóði sem hann átti kröfu á samkvæmt landslögum og það hefði ekki verið skert af öllum ríkisstjórnum sem setið hafa að völdum á undanförnum árum og af öllum þingmeirihlutum. Ég hef ekki enn fengið niðurstöðu þeirrar athugunar þannig að ég get ekki skýrt frá því hér í krónum og aurum, en það skiptir milljörðum þegar menn taka tillit til þeirra ávöxtunarmöguleika sem stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs hefði getað haft ef hún hefði haft það fé. Þannig að þó að ég viti ekki hve háar fjárhæðir þetta eru þá skiptir þetta örugglega milljörðum og skiptir sköpum um stöðu Atvinnuleysistryggingasjóðs nú.
    Í þriðja lagi er það alveg rétt að í fjárlögum yfirstandandi árs var gert ráð fyrir því að breyta lögum um Atvinnuleysistryggingasjóð og draga saman réttindi fólks til atvinnuleysistrygginga þannig að það spöruðust 300 millj. kr. úr greiðslum Atvinnuleysistryggingasjóðs á yfirstandandi ári. Það var hins vegar eitt af samkomulagsatriðunum sem ríkisstjórnin gerði við aðila vinnumarkaðarins í kringum kjarasamningana að þetta yrði ekki gert og frá því var horfið. Þess vegna m.a. vantar verulega fjármuni á yfirstandandi ári í Atvinnuleysistryggingasjóð en einnig vegna þess að atvinnuleysi á yfirstandandi ári var því miður mun meira en gert var ráð fyrir.
    Það var spurt hvort það væri gert ráð fyrir breytingum á lögum um Atvinnuleysistryggingasjóð vegna þeirra 100 millj. kr. sem rætt var um í fjárlagafrv. og greinargerð þess, að draga úr greiðslum ríkissjóðs vegna sjóðsins, eða réttara sagt draga úr útstreymi úr sjóðnum á árinu 1993.
    Ég vil fúslega upplýsa það að sú athugun, sem hefur verið framkvæmd í heilbrrn. um aðild ýmissa aðila utan ráðuneytisins á þeim málum, leiðir í ljós að ef ekki er verið að tala um hærri fjárhæð en sem nemur 100 millj. kr. lækkun á þeim útgjöldum sem sjóðurinn ella þyrfti, þá þarf ekki breytingar á lögum um Atvinnuleysistryggingasjóð til þess að ná því markmiði fram. Það nægir einfaldlega að samræma þær vinnureglur sem úthlutunarnefndir atvinnuleysisbóta starfa eftir sem eru mjög mismunandi, svo og að stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs skýrir nánar ýmis framkvæmdaratriði sem er bæði misbrestur á og er mjög misjöfn framkvæmd eftir svæðum, það eitt nægir til þess að draga úr greiðslum sjóðsins um 100 millj. kr. eða þar um bil. En spurningin í þessum málum, eins og svo mörgum öðrum, er að sjálfsögðu: Kortér yfir hvað? Þ.e. hvað eru menn að tala um þegar menn eru að tala um 100 millj. kr. lækkun á útgjöldum sjóðsins? Þá er ég að sjálfsögðu að tala um 100 millj. kr. lækkun á útgjöldum sjóðsins umfram það sem gildandi lög gera ráð fyrir að úr sjóðnum gengi og miðað við áætlað atvinnuleysi á næsta ári. Ef menn væru aðeins að greiða nokkur hundruð millj. kr. út úr Atvinnuleysistryggingasjóði, ef ástandið væri það gott, þá væri að sjálfsögðu ekki hægt að draga úr útgjöldum sjóðsins upp á 100 millj. kr. nema með því að breyta lögum og það allverulega. Ef menn eru hins vegar að tala um útgreiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði á bilinu 2 milljarðar og þaðan af meira, þá er unnt án lagabreytinga, án réttindaskerðinga með samræmingum á greiðslureglum að draga úr útgjöldum um 100 millj. kr. án lagabreytinga. Svo mikill mismunur er á þeim reglum sem fylgt er á hinum ýmsu svæðum.
    Hins vegar eru önnur atriði sem koma þarna til álita sem menn verða að gera upp við sig og flytja breytingar á lögum Atvinnuleysistryggingasjóðs um og þar á ég við þá aðila í þjóðfélaginu í dag sem ekki hafa samkvæmt gildandi lögum rétt til að fá bætur greiddar úr Atvinnuleysistryggingasjóði þrátt fyrir atvinnubrest. Þeir aðilar eru ýmsir, t.d. bændur og fleiri. Það eru greidd iðgjöld eða iðgjaldaígildi af vinnu þessara aðila í Atvinnuleysistryggingasjóð án þess að þeir njóti réttinda eins og aðrir.
    Eitt af því sem samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði skuldbindur okkur Íslendinga að gera er að gera alla aðila, bæði launþega og sjálfstæða atvinnurekendur, jafna fyrir lögum. Þessir aðilar hafa ekki verið jafnir fyrir lögum hvað varðar atvinnuleysistryggingabætur og möguleika á þeim. Þetta mál verðum við að skoða og gera þær ráðstafanir sem við þurfum að gera til þess að allir Íslendingar séu jafnsettir fyrir lögum. Það kallar á breytingu á lögum um Atvinnuleysistryggingasjóð en ekki þau áform ríkisstjórnarinnar sem ég lýsti áður að draga úr greiðslum miðað við núverandi greiðsluumfang Atvinnuleysistryggingasjóðs um 100 millj. kr. Það næst án þess að lögum sé breytt, án þess að réttindi séu skert frá því sem lögin gera ráð fyrir.
    Þá er það auðvitað alveg laukrétt að við 3. umr. fjárlaga og afgreiðslu fjárlaga verða menn í áætlunum um Atvinnuleysistryggingasjóð og greiðslur hans á árinu 1993 að taka mið af líklegu atvinnuleysi á árinu 1993. Það er líka rétt hjá hv. þm. sem hér hafa talað að frá því að fjárlagafrv. var lagt fram og þar til nú hafa áætlanir breyst um líklegt atvinnuleysi á næsta ári til hækkunar. Í fjárlagafrv. er stuðst við áætlanir um atvinnuleysi á árinu 1993, eins og þá var áætlað í þjóðhagsáætlun, þannig að þegar frv. var lagt fram var stuðst við þær traustustu tölur um þessar áætlanir um atvinnuleysi á næsta ári sem þá voru þekktar. Síðan hafa aðilar, þar á meðal Þjóðhagsstofnun, breytt sínum spám þannig að líklegt er að atvinnuleysi verði meira. Menn verða að sjálfsögðu að taka tillit til þess þegar fjárlög eru afgreidd, ekki þegar þetta frv. er afgreitt, heldur þegar fjárlög eru afgreidd, því það eru fjárlög sem að sjálfsögðu segja til um hvaða áætlanir hið opinbera hefur um þessi efni.

    Þá ræddi hv. þm. Svavar Gestsson einnig um líklega áætlun til að draga úr atvinnuleysi á Íslandi með þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir, þ.e. með 2.000 millj. kr. framlagi til sérstakrar atvinnusköpunar. Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. það er áætlað að þessar 2.000 millj. kr. muni, ef vel tekst til, geta skapað ný störf og létt sem svarar 300 millj. kr. greiðslum af Atvinnuleysistryggingasjóði. En ég man ekki betur en að í þeim tillögum sem Alþb. kynnti fyrir nokkru síðan um aðgerðir til atvinnusköpunar, hafi menn verið nokkuð bjartsýnni um áhrifin af þessum fjármálaráðstöfunum, því að í þeim tillögum hafi menn áætlað að áhrif þeirra aðgerða, 2.000 millj. kr. til aukinnar atvinnusköpunar, væru metin til 600 millj. kr. lækkunar á greiðslum bóta úr Atvinnuleysistryggingasjóði, sem er u.þ.b. tvöföld á við það sem ríkisstjórnin áætlar í sínum áformum. Ef áform ríkisstjórnarinnar í þessum efnum standa á veikum fótum, sem ég skal ekkert um segja, því allar áætlanir eru veikar þangað til að reynslan gengur úr skugga um hversu réttmætar þær eru, en ef áætlanir ríkisstjórnarinnar standa veikum fótum hvað þetta varðar, á hve miklu veikari fótum standa þá ekki áætlanir þeirra hv. alþýðubandalagsmanna?
    Hv. þm. Finnur Ingólfsson spurði sérstaklega um nokkur framkvæmdaratriði. Hann spurði m.a. um að ef svo færi að Reykjavíkurborg fengi úthlutaðar 200 millj. kr. til atvinnuskapandi aðgerða sem yrði til þess að fækkaði samsvarandi á lista yfir atvinnulausa í Reykjavík, en síðan síðar á árinu bættust hópar atvinnulausra við á þann lista, hvað það þýddi. Hvort atvinnuleysisbætur til þeirra yrðu þá skertar. Svo er ekki. Það eru ekki lagaheimildir fyrir því í gildandi lögum og það er ekki tilgangur að afla slíkra lagaheimilda. Það sem menn ætla hins vegar að ganga úr skugga um og er fullt samkomulag við stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga um er að menn breyti ekki hefðbundnum verkefnum sveitarstjórna yfir í verkefni sem studd yrðu með þessum hætti úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Svo maður orði það á einföldu máli: Að menn breyttu ekki bæjarvinnunni yfir í svona styrkhæf verkefni. Það sem allir aðilar eru sammála um er það að sinna þeim einu umsóknum í þessum efnum þar sem menn eru raunverulega, annaðhvort sveitarfélagið sjálft eða aðilar sem sveitarfélagið er reiðubúið að bera ábyrgð á, að skapa verkefni sem ella hefðu ekki verið sköpuð fyrir fólk sem er á atvinnuleysisbótum og fær vinnu með þessum verkefnum. Það er ekki gert ráð fyrir að Atvinnuleysistryggingasjóður greiði nema sem samsvarar atvinnuleysisbótagreiðslum til þessara einstaklinga á meðan verkið stendur. Sveitarfélagið þyrfti þá að greiða á móti það sem upp á vantar að atvinnuleysisbæturnar dygðu fyrir fullum launum og fyrir aðföngum. Þannig að þau yrðu a.m.k. mjög fá ef nokkur verkefnin þar sem sveitarfélagið sem mundi beita sér fyrir umsókn um atvinnuskapandi verkefni þyrfti ekki að leggja fé á móti því sem kæmi úr Atvinnuleysistryggingasjóði.
    Þá spurði hv. þm. um hvað hægt væri að segja um hvernig atvinnuleysið skiptist niður á milli einstakra hópa. Ég vil í því sambandi vekja athygli á könnun sem Hagstofan hefur nýlega gert um raunverulegt atvinnuleysi, þ.e. um atvinnuleysi eins og það líklega er án tillits til þess hvernig það kann að vera skráð, því menn vita auðvitað að atvinnuleysisskráningin hefur ýmsa galla. Hún tekur ekki tillit til ýmissa hópa sem eru atvinnulausir, t.d. námsmanna, en hún hefur líka galla í hina áttina og það er auðvitað vitað að sérstaklega þar sem atvinnuleysisskráning er allhá, þá slæðast inn á atvinnuleysisskrá ýmsir einstaklingar sem raunverulega eru ekki reiðubúnir til þess að taka atvinnu ef hún býðst.
    Niðurstaða Hagstofunnar liggur nú fyrir og hennar niðurstaða er sú að líklegt sé að atvinnuleysi á Íslandi sé u.þ.b. 1% meira en það er skráð í skráningu vinnumiðlananna. Þannig að þegar vinnumiðlanir tala um 3,5% þá er líklegt að atvinnuleysið sé 4,5%, þ.e. hið raunverulega atvinnuleysi ef allir eru taldir inn sem ekki eru teknir með í skrána og reynt er að sigta þá út sem falla með eða eru teknir með á skrá um atvinnuleysi þó svo það kunni að vera að þeir sem þar eru skráðir sumir hverjir séu ekki reiðubúnir til að taka atvinnu ef hún býðst.
    Um skiptingu á milli starfshópa fer mjög eftir því á hvaða svæði borið er niður. Það er auðvitað alveg ljóst að á þessum lista yfir þá sem atvinnulausir eru eru miklu fleiri konur heldur en karlar og það er einnig ljóst, sem er kannski öðruvísi heldur en gerist og gengur í nágrannalöndunum, að hlutfallslega flestir atvinnulausir eru á bilinu 25--60 ára. Öfugt við það sem er í mörgum nágrannalöndum okkar þar sem mjög margir eða allflestir sem atvinnulausir eru skráðir, eru 25 ára og þaðan af yngri. Það er líka mjög athyglisvert ef maður fer yfir þessar skýrslur að það eru mjög fáir 25 ára og yngri sem eru atvinnulausir mjög lengi. Ég held að ég muni það rétt, þó ég sé ekki með skrána fyrir framan mig eða hér í sæti mínu, að 25 ára og yngri sem hafa verið skráðir atvinnulausir lengur en 52 vikur séu aðeins níu talsins. Þetta segi ég að sjálfsögðu með öllum fyrirvara um galla og kosti þessarar skráningar. Þetta er að sjálfsögðu allt öðruvísi atvinnuleysismunstur heldur en í nálægum löndum. Allt öðruvísi og er það út af fyrir sig mjög ánægjulegt því þar er atvinnuleysið komið til að vera, að því er virðist, en við vonum það öll að svo sé ekki hér.
    Þá spurði hv. þm. hvort ekki væri hægt að nýta peninga Atvinnuleysistryggingasjóðs t.d. til þess að bæta atvinnuástandið með því að í staðinn fyrir að nota peningana til að greiða atvinnuleysisbætur væru þeir notaðir til þess að greiða laun, t.d. til að auka eftirlit með skattframtölum með einhverjum hætti. Þetta er ekki hægt að gera á grundvelli óbreyttra laga, vegna þess að lögin gera ráð fyrir því að aðeins megi greiða styrki af fé Atvinnuleysistryggingasjóðs til verkefna á vegum sveitarfélaga og hámark þeirra styrkja sem þannig megi greiða miðist við nettóvaxtatekjur Atvinnuleysistryggingasjóðs eða eitthvert hlutfall af því. Ég man ekki nákvæmlega hvort það er eitthvert hlutfall af því eða hvort það eru nettóvaxtatekjurnar, en mig minnir að miðað við það fé sem Atvinnuleysistryggingasjóður hefur til ráðstöfunar þá séu þetta í kringum 40 millj. að hámarki. Þannig að upphæðin er ekki mikil.
    Það er því ekki hægt að ráðstafa fjármununum eins og hv. þm. spurðist fyrir um, enda ef um er að ræða verkefni á vegum ríkisvaldsins, t.d. skatteftirlit, þá er auðvitað miklu eðlilegra að ríkissjóður veiti fé beint til þess að ráða starfsmenn, t.d. við skatteftirlit heldur en að þeim fjármunum sé rennt í gegnum Atvinnuleysistryggingasjóð. Ég skal aðeins taka fram til upprifjunar að í frv. til fjárlaga er gert ráð fyrir

því að veita verulega meiri fjármunum heldur en gert hefur verið til launagreiðslna við skatteftirlit, bæði hjá skattstjórum og hjá ríkisskattstjóra, þannig að þar er gengið til móts við þessi sjónarmið hv. þm.
    Hv. 2. þm. Vestf. kom með ýmsar athyglisverðar spurningar sem ég vil leitast við að svara. Ég sat í sumar fund tryggingamálaráðherra Evrópuríkja þar sem aðalumræðuefnið var einmitt það sem hann spurði um: Atvinnuleysi og viðbrögð við því. Þar reyndi ég, eins og hann lagði til, að ganga í smiðju þeirra sem hafa lengri reynslu og lakari heldur en við Íslendingar af þessum efnum. Ég verð að segja eins og er að mér fundust umræðurnar þar mótast um of af því að menn væru búnir að sætta sig við það að allverulegt atvinnuleysi væri eðlilegur hluti í efnahagsumhverfi þessara þjóða, þannig að menn voru um of að ræða um aðgerðir sem grípa ætti til til þess að sætta þá sem án atvinnu væru við þau örlög sín og jafnvel til að sætta þá unga borgara sem hefðu litla sem enga von um atvinnu, kannski mest allt sitt lífsskeið við þau örlög sín. Það var allt of mikið af umræðum af því tagi á þessum fundi fremur en okkar lífsviðhorf er að leita leiða til þess að þeim sem ekki hafa atvinnu sé fengin slík atvinna. Eitt af þessum úrræðum sem gerð eru m.a. í nálægum löndum, sem hann ræddi um, var að afla fjármuna til að veita til starfsþjálfunar af ýmsu tagi fyrir fólk. Því miður er það svo að þetta er gert í tvíþættum tilgangi:
    Í fyrsta lagi til þess að láta líta út fyrir að atvinnuleysið sé minna heldur en það er vegna þess að þeir sem eru í starfsþjálfun af þessu tagi eru ekki skráðir atvinnulausir.
    Í öðru lagi skapar þetta þau miklu vandamál að þeir sem fara í starfsþjálfun af einhverju tagi og fá vonir í gegnum þá starfsþjálfun til að fá einhver störf af starfsþjálfuninni lokinni, standa gjarnan uppi að starfsþjálfun lokinni engu nær, vegna þess að það sem vantar í mörgum tilvikum er ekki meiri menntun eða starfskunnátta heldur verkefni.
    Ég get sagt hv. þm. til fróðleiks og skemmtunar að þegar menn stóðu upp og lýstu því yfir hvað þeir ætluðu sér að gera til þess að byggja upp atvinnuna í heimalöndum sínum í stað þess að sætta fólk við atvinnuleysið, þá stóðu upp tveir tryggingaráðherrar, annar frá Finnlandi og hinn frá Svíþjóð. Og það sem þeir sögðu var þetta: Okkar lausn er sú að við sækjum um aðild að Evrópubandalaginu. Það er okkar leið út úr atvinnuvandanum, umsókn um aðild að EB. Ég veit ekki hvort hv. þm. vill að við tökum þessi fordæmi okkur til fyrirmyndar en þetta var sú leið sem bæði finnski tryggingaráðherrann og sænski tryggingaráðherrann lýstu yfir á þessum fundi að væri þeirra aðferð til þess að draga úr atvinnuleysinu og vinna bug á því. Þannig að menn geta sótt sér tillögurnar og fyrirmyndirnar til annarra landa, en það er ekki þar með sagt endilega víst að menn séu reiðubúnir til að fara eftir þeim.
    Síðan spurði hv. þm. hverjir eigi að gera ráðstafanir, hvort leitað verði til Byggðasjóðs eða starfsmanna Byggðasjóðs til þess að fá sérfræðilegar álitsgerðir um þau verkefni sem um væri sótt. Því er til að svara að gert er ráð fyrir því að það séu sveitarfélögin sjálf sem undirbúi tillögugerðirnar, þ.e. heimaaðilar, og þau leggi fram umsóknir um þær framkvæmdir einar sem sveitarfélögin séu reiðubúin til að taka ábyrgð á. Þeir sem fjalla síðan um umsóknir sveitarstjórnarmannanna er stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs sem skipuð er m.a. fulltrúum kjörnum af Alþingi og fulltrúum tilnefndum af aðilum vinnumarkaðarins. Inn í þá stjórn við ákvörðun umsókna eiga síðan að koma tveir fulltrúar Sambands ísl. sveitarfélaga þannig að þarna er mikil þekking saman komin. Þarna eru ekki embættismenn heldur í fyrsta lagi sveitarstjórnarmennirnir, mennirnir heima á vettvangi sem meta tillögur og hugmyndir, og í öðru lagi aðilar sem sjálfir eru tilnefndir í stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs af aðilum vinnumarkaðarins og Sambands ísl. sveitarfélaga. Sjálfsagt er mögulegt að leita annarrar ráðgjafar. Það kom auðvitað til greina að þessir fjármunir færu t.d. um hendur Byggðasjóðs en það voru sveitarfélagamennirnir sjálfir, stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga sem óskaði eftir því að þessi leið um Atvinnuleysistryggingasjóð yrði farin.
    Þá er einnig rétt að taka það fram að það kom fram sú hugmynd sem hv. þm. ræddi um að þessar greiðslur eða innheimta gengi í gegnum Jöfnunarsjóðinn því að það er alveg rétt hjá honum að sveitarfélögin eru auðvitað missterk til þess að reiða slíka fjármuni af hendi og svona flöt aðgerð eins og hér er gert ráð fyrir kemur auðvitað misjafnlega vel eða misjafnlega illa við hin ýmsu sveitarfélög. En þeirri hugmynd, sem kom frá þeim sem hér stendur, að þessu fé yrði rennt í gegnum Jöfnunarsjóðinn, þ.e. yrði innheimt í gegnum Jöfnunarsjóð, var hafnað af stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga og þar voru menn allir sammála um að hafna henni en fara heldur þá leið að innheimta með mánaðarlegum greiðslum samkvæmt reikningi frá fjmrh. Hins vegar mun Jöfnunarsjóður að sjálfsögðu, það er hans hlutverk, taka tillit til fjárhags einstakra sveitarsjóða þannig að það er líklegt að þarna séu menn að greiða til ríkisins með þessari innheimtu og fái síðan fé óbeint frá ríkinu aftur í gegnum Jöfnunarsjóð.
    Ég þakka hv. 2. þm. Vesturl. fyrir stuðning við þetta mál. Ég vil aðeins geta þess að hæstv. utanrrh. hefur aldrei sagt að sveitarfélögin bæru engar byrðar af aðgerðum sem ríkisstjórnin grípur til í fjárlögum og víðar. Það sem hæstv. ráðherra sagði var að í þeim aðgerðum sem kynntar voru hér á Alþingi sl. mánudag, þeim sérstöku aðgerðum sem eru ætlaðar til eflingar atvinnulífs á Íslandi, þá er ekki gert ráð fyrir því í þeim aðgerðum að sveitarfélögin beri neinar sérstakar byrðar.