Vaxtalög

64. fundur
Fimmtudaginn 26. nóvember 1992, kl. 14:12:54 (2734)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Hér er á ferðinni frv. sem lætur ekki mikið yfir sér. Það tengist þó stærra máli þar sem eru vaxtamál og gæfi vissulega tilefni til þess að fara yfir þá stöðu sem þar er. Þetta litla frv. er með tilteknum hætti tengt ákvörðunum hæstv. ríkisstjórnar um ráðstafanir í efnahagsmálum og er eitt af því fáa sem flestir, hygg ég, hafa tekið heldur jákvætt í af því sem þar er á ferðinni. Þess er því að vænta að samstaða geti tekist um að greiða götu frv. í gegnum þingið. Ég mun verða í þeim hópi sem leggur því lið og að það

verði gert að lögum með eins skjótum hætti og viðráðanlegt er, ef það megi verða til þess að Seðlabankinn endurskoði ákvörðun sína frá því í byrjun þessarar viku um dráttarvaxtastig í desembermánuði. Ég hygg hins vegar að ákvörðun um að dráttarvextir skipti einhverjum umtalsverðum sköpum varðandi vaxtamál eða efnahagsástand að öðru leyti hafi verið gefið allt of mikið vægi í umræðunni. Þegar rýnt er í tölurnar sem á bak við liggja er satt best að segja harla broslegt að því skuli vera slegið upp af hæstv. ríkisstjórn sem einhverju meiri háttar atriði hvert álagið varðandi dráttarvaxtatökuna er.
    Staðreyndin er sú að það er í raun og veru ekki álagið ofan á vextina sem er allt of hátt heldur vextirnir sjálfir. Ég fullyrði að ef vaxtastigið á Íslandi væri með eðlilegum hætti, ef hér væru hóflegir raunvextir, mundi enginn sem einhverja dómgreind hefur gagnvart vaxtamálum telja að það álag sem dráttarvextirnir reikna ofan á venjulega vexti væri umtalsvert vandamál hjá okkur. Það er hins vegar þannig að þegar vaxtaálagið er reiknað ofan á nær 13% raunvexti á almennum útlánum verður það tilfinnanlegt og í þeim skilningi eru dráttarvextirnir allt of háir.
    Þegar það er haft í huga að fram að þessum mánaðamótum hefur Seðlabankinn ekki nýtt sér það svigrúm sem hann hefur haft til fulls til þess að lækka dráttarvexti vekur það náttúrlega spurningar. Ef slíkar aðstæður hafa þegar skapast, eins og ætla mátti af ræðu hæstv. viðskrh., hlýtur maður að spyrja hvers vegna hlutfallið hefur verið um 5,5% eða 5,25% allt fram að næstkomandi mánaðamótum, þó svo að lágmarkið sé 5%. Og hvað veldur því að Seðlabankinn eða hæstv. ríkisstjórn, sem virðist vera farin að stjórna vaxtamálunum þrátt fyrir allar ræðurnar, að nokkru leyti með handafli samanber þetta, skuli ekki hafa nýtt sér þetta svigrúm fyrr til lækkunar vaxta.
    Í greinargerð ríkisstjórnarinnar um efnahagsmál segir að með hliðsjón af því að verðbólga sé lítil séu núgildandi dráttarvextir allt of háir. Það er ánægjulegt þó seint sé að hæstv. ríkisstjórn átti sig á þessu. En nú mun verðbólga fara vaxandi á nýjan leik sem er atriði sem hæstv. ríkisstjórn hefur lítið rætt í tengslum við óljós fyrirheit um að vaxtastigið kunni að nást niður á næstu mánuðum. Reynsla okkar af bankakerfinu og vaxtaákvörðunum er gjarnan sú að vextir hækka umsvifalaust, jafnvel út á óljósa spá um verðbólguvöxt á komandi mánuðum og síðan tekur það mánuði eða missiri að ná þeim niður aftur eftir að verðbólga hefur lækkað. Ef menn fara yfir það frá undanförnum árum hygg ég að þetta sé reynslan á því hvernig vaxtaákvarðanir hafa tengst verðbólgustigi og lækkun eða hækkun þess.
    Það verður líka að horfast í augu við að dráttarvaxtataka er ákveðinn tekjustofn í bankakerfinu og fjármálakerfinu. Þó ég sé ekki að mæla með því að með óhóflegum hætti sé reiknað endurgjald fyrir vanskil sem myndast við slíkar aðstæður, má segja að þegar horft er til rekstrarafkomu bankakerfisins og þess óheyrilega kostnaðar sem þjóðin virðist bera af fjármálastofnunum sínum, ef horft er til vaxtamunarins, gildir sjálfsagt einu hvernig tekjurnar eru merktar í þeim skilningi að bankarnir virðast þurfa sitt. Og ef tekjur þeirra lækka vegna dráttarvaxta munu þeir ekki reyna að ná sér í auknar tekjur í öðru formi og þá í gegnum aukinn vaxtamun eða hækkuð þjónustugjöld? Þess vegna held ég að það sé, að svo miklu leyti sem þetta mál hefur áhrif stærðar sinnar vegna, óhjákvæmilegt að skoða það í samhengi við vaxtastigið og vaxtamuninn í heild sinni.
    Vegna þess að í umræðum um efnahagsmál hefur dráttarvaxtatakan jafnvel verið tengd aðgerðum til aðstoðar sjávarútveginum sem eitthvert meiri háttar mál, er rétt að greina frá því að samkvæmt upplýsingum sem við fengum frá Seðlabankanum í hádeginu, ef reiknað er mjög gróft og er þá örugglega um hæstu hugsanleg mörk að ræða, gætu brúttóskuldir sjávarútvegsins í innlendum lánum verið um 32 milljarðar. Ef reiknað væri með að 10% af því væru í vanskilum mundi hvert prósentustig í dráttarvöxtum þýða 30 millj. eða þar um bil og 2% lækkun gæti þá að hámarki skilað 50--60 millj. kr. í þessum skilningi á ársgrundvelli. Reynslan er hins vegar önnur, staðreyndin er sú að þegar vanskil eru orðin umtalsverð, stærri lánssamningar stærri viðskiptavina eru komnir í vanskil þá er upphæð dráttarvaxtanna í langflestum tilvikum samningsatriði milli viðkomandi lántakanda og hans lánastofnunar þegar um aðgerðir, skuldbreytingar eða aðrar aðgerðir er að

ræða til að koma þeim lánum í skil. Í þeim skilningi óttast ég að menn ofmeti mjög áhrifin af þessari aðgerð þó sjálfsögð sé svo langt sem hún nær.
    Ég vil að lokum, hæstv. forseti, leggja áherslu á það að mér er til efs að fyrir því verði færð sterk eða traust efnahagsleg eða fagleg rök að það álag sem lagt hefur verið á dráttarvexti miðað við almennt vaxtastig sé óeðlilegt hér á landi. Það má gjarnan vera lægra mín vegna ef það telst skynsamlegt eða óhætt en það er stutt í þá hættu að það fari að verða ódýrari fyrir fyrirtæki að greiða dráttarvexti af vanskilum innan viðráðanlegra marka en að fjármagna starfsemi sína með öðrum dýrustu ráðstöfunum, t.d. viðskiptavíxlum eða öðrum affallapappírum sem í boði eru og fyrirtæki nýta sér í þó nokkrum mæli til fjármögnunar, þeir eru á mun verri kjörum en jafnvel lán í bankakerfinu þótt greiddir séu af þeim vanskilavextir, innan þeirra marka að sjálfsögðu sem fyrirtækin fá umlíðan til að gera slíkt. Það væri að sjálfsögðu ekki skynsamlegt fyrirkomulag að hafa álagið svo lágt að það gæti jafnvel verið hagstæðara fyrir fyrirtækin að taka sér lán, ef svo má að orði komast, með þeim hætti. Allt ber því að sama brunni. Það er vaxtastigið sjálft, raunvaxtastigið í landinu sem er vandamálið fyrst og fremst. Það er blekking og misskilningur og í raun verið að drepa umræðu um vaxtaokrið á dreif með því að horfa eingöngu á það álag sem síðan er reiknað á lán í vanskilum og kallast dráttarvextir.
    Hæstv. forseti. Ég ætla tímans vegna ekki að hafa um þetta fleiri orð. Ég vil fyrir mitt leyti greiða götu þessa máls og ætla því að afsala mér þeim rétti sem ella hefði verið freistandi að nota tímann og tækifærið til ítarlegrar umræðu um vaxtamál. Það er staðreynd að hæstv. ríkisstjórn er jafngrútmáttlaus og raun ber vitni og lengi hefur verið átakanlegt. Greinargerð hæstv. ríkisstjórnar með efnahagsráðstöfunum sínum, sem ég er reyndar búinn að vitna til varðandi vaxtamálin, er einhver sá allra loppnasti texti sem lengi hefur sést á Íslandi og hefur þó ekki verið sérlega kalt í veðri undanfarið. Þar segir neðst á bls. 6 til upprifjunar, með leyfi forseta:
    ,,Með þessum aðgerðum er stefnt að því að raunvextir geti lækkað en afar erfitt er að spá fyrir um hversu mikið og hvenær það muni gerast.``
    Þetta er mikil þoka, eins og stundum vill verða þegar hæstv. viðskrh. fer að tala um vaxtamál og hefur það lengi loðað við hans tök á þeim efnum.
    Enn fremur segir: ,,Einnig þarf að hafa í huga að þróun í vaxtamálum ræðst einnig af efnahagsskilyrðum almennt og ekki síst af ytri skilyrðum þjóðarbúsins.``
    Þessa latínu þekkjum við vel sem setið höfum með hæstv. viðskrh. í ríkisstjórn. Þetta er svo þokukenndur texti að jafnvel Austfjarðaþokan fræga verður eins og glaðasta sólskin borið saman við það þegar hæstv. viðskrh. fjallar um það í textum hvort vextir gætu lækkað. Það er sjálfsagt að greiða götu þessa litla frv. um dráttarvaxtabilið en það mun litlu breyta um vandann sjálfan sem eru okurvextirnir sem hæstv. ríkisstjórn virðist nú sem endranær ætla að slá öflugri skjaldborg um.