Vaxtalög

64. fundur
Fimmtudaginn 26. nóvember 1992, kl. 15:00:38 (2740)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Fyrst um gengisbreytinguna. Það var alveg rétt hjá hv. þm. að ég kallaði hana núllstillingu. En það var núllstilling með borð fyrir báru. Eins og fram kom í greinargerð ríkisstjórnarinnar um áhrif hennar er það mat okkar sérfræðinga að hún muni sem slík bæta afkomu sjávarútvegsins um 3% en aðgerðirnar í heild um tæplega 5%. Þessar tölur tala skýrt sínu máli eins og fram hefur komið í þeim gögnum sem fyrir þingið hafa verið lögð.
    Ég er sammála hv. þm. um að það er mjög mikilvægt að víðtæk sátt takist um allar þær efnahagsaðgerðir sem nú er verið að hrinda í framkvæmd. Og ég leyfi mér að binda vonir við að það takist um síðir m.a. vegna þess sem fram kom hjá hv. þm. að nú hafi

tekið við forustu í Alþýðusambandinu maður sem hefur ríkan skilning á lánamarkaðnum og mikilvægi vaxtaákvarðana og lífeyrissjóðanna á því sviði. Ég treysti því að góðar sættir geti náðst um þau vandasömu mál sem við höfum rætt hér í dag.
    Ég tek það skýrt fram að ég er tilbúinn til að ræða við hv. efh.- og viðskn. um framgang bankafrumvarpanna og hvort þar sé hægt að finna farsælan veg til að koma þeim í lög.