Stjórnarskipunarlög

64. fundur
Fimmtudaginn 26. nóvember 1992, kl. 16:05:17 (2752)

     Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar) :
    Herra forseti. Það er úr af fyrir sig í fullu samræmi við þá ræðu sem hér var flutt að mál þetta fari til stjórnarskrárnefndar. Það er rökrétt miðað við ræðuna. En það er gjörsamlega út í hött miðað við ræðuna að leggja til að málið fari til ríkisstjórnarinnar. Þurfi málið að fara til stjórnarskrárnefndar gerist það að sjálfsögðu sjálfkrafa. Vegna þess einfaldlega að stjórnarskrárnefndin er að störfum, getur tekið upp hvaða mál sem er og hægt er að senda þetta mál til hennar hvort heldur er á faxi eða í pósti og þarf enga millilendingu í ríkisstjórninni. Það sem vekur þess vegna ærna umhugsun er hvernig hægt er að flytja þessa ræðu og leggja svo til að málið sé sent til ríkisstjórnarinnar. Ég tel ríkisstjórnina hafa ærið að vinna og ekki útlit fyrir að það batni nokkuð ástandið þó hún fari nú að taka tíma í þetta. Þetta gæti meira að segja orðið deiluefni innan ríkisstjórnarinnar. Ég sé að sumir í salnum teldu að það væri ekki til bóta. En mér er þess vegna óskiljanlegt hvers vegna nefndina hefur brostið þrek til að segja það hreint út: Við leggjum til að þetta verði fellt. Það er miklu hreinni afstaða en hitt tiltækið.
    Hins vegar verð ég nú að segja eins og er að ég kem af fjöllum, hæstv. forseti, ef farið er að túlka stjórnarskrána á þann veg og friðhelgi heimilanna að það sé heimilt að setja upp hlerunartæki á hvers manns heimili á þeirri forsendu að tæknin sem leyfi þetta sé til í dag en hafi ekki verið til þegar stjórnarskráin var samþykkt.