Vaxtalög

65. fundur
Fimmtudaginn 26. nóvember 1992, kl. 16:56:40 (2763)


     Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. efh.- og viðskn. sem hefur af miklum röskleika fjallað um þetta mál. Nefndin hittist fyrst í hádeginu og svo eftir 1. umr. Ég þakka nefndarmönnum mínum fyrir góða samvinnu um að afgreiða málið.
    Nefndin fékk á sinn fund Eirík Guðnason, aðstoðarbankastjóra Seðlabanka Íslands.
     Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins en væntir þess jafnframt að Seðlabanki Íslands taki í kjölfarið nýja ákvörðun um lækkun dráttarvaxta sem taki gildi 1. des. nk. Þá tekur nefndin fram að hún telur mikilvægt að vextir lækki almennt og telur að samþykkt frv. sé alla vega skref í þá átt.
    Það hefur borist bréf til nefndarinnar frá aðstoðarbankastjóra Seðlabankans, Eiríki Guðnasyni, þar sem fram kemur að Seðlabankinn muni endurskoða fyrri ákvörðun um dráttarvexti og að þeir verði ákveðnir á bilinu 16--16,5% í stað 18,25% eftir fyrri ákvörðun.
    Allir nefndarmenn standa að álitinu en Halldór Ásgrímsson var fjarstaddur afgreiðslu málsins.