Stjórnarskipunarlög

66. fundur
Fimmtudaginn 26. nóvember 1992, kl. 18:34:03 (2776)

     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég er algerlega ósammála hv. 3. þm. Norðurl. v. um að við eigum að framselja vald í þessu máli til Svisslendinga. Auðvitað eigum við að taka okkar ákvarðanir um það hvaða afstöðu við tökum til EES-málsins en við eigum ekki að framselja mál til Svisslendinga eins og hv. ræðumaður lagði til að gert yrði í þessu máli.
    Ég tel að hv. ræðumaður hafi einnig farið með rangt mál þegar hann taldi að við höfum verið að falsa niðurstöður sérfræðinganefndar utanrrh. Hvernig í ósköpunum getur ræðumaður haldið slíku fram? Við höfum bent á þær niðurstöður en menn þurfa ekki að vera sammála þeim. Menn geta verið þeirrar skoðunar, eins og hann benti einnig á, að ekki sé verið að framselja vald með þessum samningi eða framselja vald, eins og þeir telja, sem brjóti ekki í bága við stjórnarskrána. Mér finnst því að ræðumaður seilist heldur langt þegar hann ásakar ráðherra, mig og aðra um að vera að falsa niðurstöður þessara sérfræðinga. Við höfum aldrei gert það og þau orð hans fá ekki staðist.
    Þá finnst mér einnig mjög sérkennilegt að heyra að að hv. ræðumaður gaf til kynna í ræðu sinni að það væri í lagi að þrír fjórðu hlutar þingmanna brytu stjórnarskrána, að það ætti að sætta sig við það samkvæmt þessu frv. að þrír fjórðu hlutar þingmanna brytu stjórnarskrána. Það væri unnt að sætta sig við það og þeir gætu með því samþykkt aðild Íslands að alþjóðasamningum og síðan yrðu menn kannski að skoða það eftir á hvort breyta þyrfti að stjórnarskránni. Það væri mál sem menn yrðu að taka til athugunar eftir á og væntanlega þá 2. gr. stjórnarskrárinnar. Ég veit ekki hvaða greinar hann átti við. En mér þótti mjög sérkennilegt að heyra ræðumanninn gefa það til kynna að frv. gengi út á að heimila þremur fjórðu hlutum þingmanna að brjóta stjórnarskrána með valdaframsali.
    Mér finnst því að þingmaðurinn þurfi að skýra þetta nánar því að þetta er ein af brotalömunum í þessum tillöguflutningi öllum sem mikið var rædd í stjórnarskrárnefnd.