Stjórnarskipunarlög

66. fundur
Fimmtudaginn 26. nóvember 1992, kl. 18:40:06 (2779)

     Ragnar Arnalds (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er dálítið erfitt að útskýra þetta mál fyrir hv. þm. En tökum bara sem dæmi að gerður væri samningur um það að vald Hæstaréttar væri flutt til Danmerkur eða einhvers annars ríkis. Þá væri um hvort tveggja að ræða: Það væri verið að framselja vald og það væri verið að brjóta tilteknar greinar í stjórnarskránni. Í slíku tilviki yrði að gera tvennt. Það yrði að samþykkja málið með 3 / 4 hlutum atkvæða en það yrði líka að breyta stjórnarskránni með formlegum hætti og samþykkja tvisvar á Alþingi með kosningum á milli o.s.frv. Þetta er ákveðið tilvik.
    Hitt er svo aftur allt annað tilvik eins og við stöndum núna frammi fyrir að ef opnað væri fyrir stjórnarskrárbreytingu af þessu tagi væri hægt að samþykkja samninginn vegna þess að ekki væri þörf á því að breyta neinu sérstöku ákvæði stjórnarskrárinnar að öðru leyti.