Stjórnarskipunarlög

66. fundur
Fimmtudaginn 26. nóvember 1992, kl. 18:47:15 (2784)

     Eyjólfur Konráð Jónsson (andsvar) :
    Herra forseti. Mig langar ekki að andmæla hv. þm. Ragnari Arnalds, a.m.k. ekki beint, heldur þvert á móti að undirstrika að hann fór rétt með það sem hann sagði í einu og öllu. Ég get metið það, og rakti raunar allítarlega hvernig málum væri gersamlega snúið við þegar væri verið að reyna að segja að einhverjir sérstakir lögfræðingar segðu að ekkert væri að marka í því sem við höfum haldið fram. Auðvitað hafa fjölmargir lögfræðingar sagt að þarna væri um stjórnarskrárbrot að ræða. Það er alveg augljóst. Ég er bara lítill hæstaréttarlögmaður en það er alveg augljóst að það er bullandi stjórnarskrárbrot og vísvitandi, verð ég að segja, því miður, ef EES-samningar verða samþykktir. Ég veit að íslenskir alþingismenn hugsa sitt mál vel og rækilega áður en þeir ganga til þess verknaðar. Við skulum vona að svo verði.
    Ég vil sérstaklega þakka Kristínu Einarsdóttur fyrir það að vekja athygli á þessu viðtali Gunnars G. Schrams 8. jan. 1991. ( Forseti: Má forseti benda hv. ræðumanni á að hann er hér í andsvari við ræðu hv. 3. þm. Norðurl. v. en ekki að ræða ræðu hv. 15. þm. Reykv.) Ég ætla að endurtaka að ég þakka hv. þm. fyrir það að vekja hér máls á þessu erindi Gunnars G. Schrams sem ég var satt að segja búinn að gleyma. Ef það er skoðað að síðan hann sagði þessi orð eru nærri því liðin tvö ár er enn merkilegra að

rifja þau upp.