Stjórnarskipunarlög

66. fundur
Fimmtudaginn 26. nóvember 1992, kl. 19:01:06 (2790)

     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Í þessu svari hæstv. heilbrrh. sem hann veitir fyrir hönd utanrrh. hafa gerst ekkert lítil tíðindi sem ég tel ástæðu til að menn taki eftir. Það er verið að gera því skóna af utanrrh. Íslands, sem, ég hygg tvívegis, hefur verið formaður EFTA-ráðsins á þeim tíma þar sem þessir samningar hafa verið til meðferðar á undirbúnings- og viðræðustigi, að til lausnar málinu geti það verið þarflegt að eitt EFTA-ríkið víki úr Fríverslunarsamtökum Evrópu. Það er beinlínis kominn hér upp beinn og formlegur þrýstingur af hálfu eins EFTA-ríkis að til þess að bjarga þessu máli fyrir horn, sem er til umræðu í þinginu og hefur verið staðfest af nokkrum EFTA-ríkjunum, verði tekinn upp þrýstingur á Sviss, eitt EFTA-ríkið, að það hypji sig úr samtökunum. Þetta eru kveðjurnar sem samstarfsaðilinn fær viku áður en gengið er til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið í Sviss. Ég held að það sé gagnlegt fyrir svissnesku þjóðina að átta sig á þessari stöðu sem upp er komin a.m.k. hjá einu EFTA-ríki og mér kæmi ekki á óvart þó að samráð hefði verið haft við fleiri.
    Síðan er því við að bæta að það er kannski ekki ástæða fyrir Íslendinga að flýta sér að staðfesta þennan samning á Alþingi óháð því hvað gerist í þjóðaratkvæðagreiðslu í Sviss þegar það liggur fyrir að 10 ríki Evrópubandalagsins hafa ekki haft fyrir því að staðfesta þennan samning enn. Í Hollandi er óvissa um það vegna formsatriða hvort það verður hægt fyrir áramót og í Frakklandi þarf að leita sérstakra afbrigða ef það á að gerast fyrir áramót og fullkomin óvissa um það enn hvort þau verða veitt.