Stjórnarskipunarlög

66. fundur
Fimmtudaginn 26. nóvember 1992, kl. 19:03:53 (2791)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Í orðum mínum áðan felst enginn þrýstingur af einu eða neinu tagi í eina eða neina átt á Svisslendinga eða aðra samstarfsaðila okkar innan EFTA. Ekkert frekar en í því felst þrýstingur á svissnesku þjóðina og afstöðu hennar í þjóðaratkvæðagreiðslu þegar menn á Alþingi Íslendinga eru að gera því skóna að niðurstaða atkvæðagreiðslunnar verði sú að samningurinn verði felldur. Ég lít ekki svo á að með slíku séu menn á Alþingi Íslendinga að reyna að hafa áhrif á afstöðu svissnesku þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu.
    Það er því engin merkileg yfirlýsing af Íslands hálfu fólgin í þeim orðum sem ég lét falla áðan. Ég var eingöngu að reyna að svara þeim spurningum sem hv. þm. Ragnar Arnalds beindi til mín, þ.e. hvað hugsanlega gæti gerst ef svo færi að samningurinn yrði ekki samþykktur í þjóðaratkvæðagreiðslu í Sviss sem utanrrn. telur ekki líklegt að gert verði. Utanrrn. telur ekki líklegt að samningurinn verði ekki staðfestur. Ég var aðeins að velta upp hugsanlegum möguleikum án þess að í þeim orðum fælist ein eða nein ábending til svissneskra stjórnvalda eða annarra um það hvernig þeim bæri að hegða sér í þessu máli. Ég vildi leiðrétta þetta.