Stjórnarskipunarlög

66. fundur
Fimmtudaginn 26. nóvember 1992, kl. 22:07:32 (2810)

     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Herra forseti. Ég veit ekki hvort hv. síðasti ræðumaður, 2. þm. Vestf., hefur verið viðstaddur allar umræðurnar í dag. Þessari spurningu var svarað strax í upphafi umræðnanna, þ.e. að niðurstaða meiri hluta nefndarinnar var sú að það væri rétt að skoða þetta mál betur. Leiðin til þess er sú að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar með tilmælum um að það fari síðan í stjórnarskrárnefnd sem nú er starfandi og málið verði skoðað betur. Að þessu frv. stendur formaður Framsfl., formaður þingflokks Framsfl., formaður þingflokks Alþb. og forustumaður úr Kvennalistanum og mér sýnist vera fullt tillit til þessara aðila að leggja til að þetta mál verði athugað betur. En þar sem það snertir ekkert spurninguna um aðild Íslands að EES þá liggur ekkert á að afgreiða það. Sjálfsagt er að skoða þetta og velta þessu fyrir sér og skoða þær tillögur sem þarna koma fram og enginn vettvangur er betri til þess en stjórnarskrárnefnd sú sem starfandi er með fulltrúum allra flokka.
    Ég vil aðeins nefna, af því að hv. síðasti ræðumaður slóst í hóp þeirra sem vitnuðu í samtal við dr. Gunnar G. Schram frá því í janúar 1991, að það er alveg ljóst að það sem prófessorinn er að tala um þá er sú staða sem uppi var þá í þessum samningu og miðaði að því að Evrópudómstóllinn hefði vald til þess að fella forúrskurði varðandi álitamál sem kæmu upp vegna þessa samnings. Það er hins vegar fallið á brott úr þessum samningum, það atriði er ekki lengur á dagskrá. Mér finnst því mjög ósanngjarnt eins og ég hef raunar sagt áður að líta þannig á eins og ekkert hafi breyst frá því að þessar yfirlýsingar voru gefnar þar sem prófessorinn fjallaði aðallega um Evrópudómstólinn í Lúxemborg og hlut hans í þessu máli, en sá hlutur hefur gjörbreyst frá því að þetta viðtal var tekið og það viðtal birtist sem margoft hefur verið vitnað til.