Stjórnarskipunarlög

66. fundur
Fimmtudaginn 26. nóvember 1992, kl. 22:32:22 (2814)

     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að ýmsir þingmenn Sjálfstfl., eins og ég rakti, voru þeirrar skoðunar að samningurinn samrýmdist varla stjórnarskrá og sumir fullyrtu að samningurinn væri reyndar brot á stjórnarskránni. Því hlýtur það að tengjast þessu máli sem er lagt fram m.a. til þess að koma í veg fyrir stjórnarfarslegt slys.
    Hitt er alveg rétt hjá hv. 5. þm. Norðurl. e. að hann hefur ekki fullyrðingar um það í sinni blaðagrein. Hins vegar hefur hann fullyrðingar uppi sem gefa manni þá niðurstöðu að hann muni greiða atkvæði gegn samningnum um Evrópska efnahagssvæðið þar sem hann lítur þannig út, bæði hvað varðar fiskimiðin og landið, að hann uppfyllir ekki þau skilyrði sem þingmaðurinn gaf út sem grundvallaratriði af sinni hálfu fyrir kosningar. Það er auðvitað fagnaðarefni ef þingmaðurinn er tilbúinn að lýsa því yfir að hann hyggist standa við orð sín frá því fyrir kosningar og mættu fleiri taka hann sér til fyrirmyndar, t.d. hv. 3. þm. Reykv. sem hefur kúvent í þeim efnum.
    Hvað varðar afstöðu hæstv. fyrrv. landbrh. þá verð ég að hryggja hv. þm. Tómas Inga Olrich með því að ég var ekki í kosningabaráttunni þannig að ég var ekki á vettvangi til að fylgjast með því hvernig umræður fóru fram. En ég þykist vita nokkuð glöggt um afstöðu hv. 4. þm. Norðurl. e. að honum hafi verið ljóst fyrir kosningar eins og fleirum að hér væru menn eða hæstv. utanrrh., sem var umboðslaus eins og menn muna, kominn með í hendurnar efni sem ekki var hægt með nokkrum hætti að samþykkja.