Stjórnarskipunarlög

66. fundur
Fimmtudaginn 26. nóvember 1992, kl. 22:53:30 (2818)

     Björn Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessar umræður mjög mikið. Ég þakka hv. síðasta ræðumanni, 15. þm. Reykv. fyrir ræðu hennar og skýringar. Ég hef saknað þess undanfarnar klukkustundir að enginn annar af flm. frv. skuli heiðra okkur með nærveru sinni til þess að þeir geti þá útskýrt málið og komið inn í þessar umræður og skýrt og svarað þeim mörgu spurningum sem vakna þegar þetta mál er skoðað. En ég þakka hv. 15. þm. Reykv., einum af flm., fyrir að vera þó í þingsalnum þegar þetta mál er til umræðu en ég vek athygli á því að það eru fjórir flm. að þessu máli og þeir láta ekki sjá sig í þingsalnum þegar þetta mál er til umræðu. Hvað sem líður návist ráðherra, þá skiptir hún ekki máli í þessu sambandi því að hér er um að ræða frv. sem flutt er af þingmönnum. Það minnsta sem þeir geta gert er að

sjálfsögðu að vera viðstaddir þegar þeirra eigið mál jafnmikilvægt og þetta, eins og fram hefur komið hjá hv. síðasta ræðumanni, frv. til breytinga á sjálfri stjórnarskránni, er til umræðu, En þá láta flm. sjálfir ekki svo lítið við okkur þingmenn að vera viðstaddir þegar slík mál eru á dagskrá.
    Þessar umræður hafa snúist mjög um lögfræðileg efni. Formaður Framsfl. og formaður þingflokks Framsfl. eru flm. að þessu máli þótt hvorugur þeirra sé viðstaddur í kvöld og þess vegna ekki hægt að beina máli sérstaklega til þeirra sem þó var ætlan mín og hef ég beðið með þessa ræðu, virðulegi forseti, fram undir lok umræðunnar í von um að fá tækifæri til að ávarpa þá en það hefur ekki gefist. Ég mun engu að síður lesa upp mönnum til glöggvunar hvaða viðhorf geta verið uppi þegar rætt er um þetta mál og spurninguna um hvort menn eigi að skjóta sér á bak við lögfræðileg atriði eins og þetta í afstöðunni til EES-málsins, hvort það sé réttmætt að skjóta sér á bak við lögfræðileg atriði þegar tekin er afstaða til máls eins og þessa og hvort það á að ráða alfarið afstöðu manna til EES-samningsins t.d. að lögfræðingar hafi mismunandi skoðanir á því máli. Það hefur verið höfuðefni í ræðum talsmanna þessa frv. í dag að það eigi að líta til þess sem hinir lögfróðu sérfræðingar segja, skoða það og taka afstöðu til málsins á þeim forsendum.
    Það koma margar bækur út núna um þessar mundir sem snerta Framsfl. og afstöðu hans til stjórnmála, bæði í nútíð og fortíð. Ein þessara bóka er ritgerðasafn eftir Þórarin Þórarinsson, fyrrv. ritstjóra Tímans, og var gefin út honum til heiðurs. Í bókina ritar formála Ingvar Gíslason, fyrrv. ritstjóri Tímans, fyrrv. ráðherra og fyrrv. alþm. Mig langar til þess að lesa upp úr þessum formála það sem Ingvar hefur að segja varðandi spurninguna um þátttökuna í Evrópska efnahagssvæðinu. Ég tel að það eigi vel við í þessum umræðum um stjórnarskrána og lögfræðileg álit varðandi þátttökuna í Evrópska efnahagssvæðinu. Með leyfi virðulegs forseta les ég upp úr formála þessarar bókar sem er gefin út til heiðurs Þórarni Þórarinssyni:
    ,,Þær hættur vofa nú yfir íslenskum stjórnmálamönnum að freistast til málamiðlana (sem fá þó ekki staðist), þegar rétt er að láta skerast í odda. Þórarinn Þórarinsson gerir sér fulla grein fyrir þessu. Hann varar skelegglega við því að þjóðin ánetjist þeim áróðri sem er eins konar tískustefna að ,,nauðsynlegt`` sé að Ísland gerist aðili að stjórnskipunarheildum sem verið er að stofna til í Evrópu og gildir þá einu hvort um er að ræða Evrópubandalagið (EB) eða Evrópskt efnahagssvæði (EES). Þórarinn er í hópi þeirra stjórnmálaskýrenda sem átta sig á því að eðlismunur þessara ríkjabandalaga er enginn, þar ræður aðeins stigsmunur. Efnahagskerfi beggja er reist á sömu rétttrúarkenningum og valdaskipulagið er bandaríkjakyns (federal). EES krefst að vísu ekki jafnvíðtæks afsals fullveldis eins og sjálft EB, en eðli fullveldisafsala er í sjálfu sér alltaf eins. Þaðan af síður breytir það neinu að dulbúa valdaafsöl með því að kalla þau ,,framsöl`` valds. Slík orðanotkun er hártogun og blekkingaleikur.
    Þórarinn hefur með skrifum sínum undanfarin missiri sýnt fram á að það fái ekki samrýmst grundvallarstefnu Framsfl. að ljá samningi utanrrh. um aðild að EES þingstuðning. Við Þórarinn höfum haft fulla samstöðu um þessa afstöðu til samningsins, enda sá boðskapur sem Tíminn flutti afdráttarlaust meðan ég réð stjórnmálaskrifum blaðsins, óháð því hvað einstakir forustumenn Framsfl. gerðu sér í hugarlund um mátt málamiðlunarstefnu í því sambandi. Evrópustefna nýkapítalismans er að fullu múruð inn í hugmyndagrundvöll og valdaskipulag samningsins um EES.
    Samningurinn felur ekki í sér neinn möguleika til málamiðlunar. Sú hugmynd sem skotið hefur upp kollinum að alþingismenn láti afstöðu sína til samningsins velta á túlkun stjórnskipaðrar lögfræðinganefndar um áhrif hans á ákvæði stjórnarskrár er í meira lagi hæpin. Lögfræðingar standa í þessu tilfelli ekki betur að vígi að skera úr um pólitískar afleiðingar slíks samnings en hver stjórnmálamaður með heilbrigða dómgreind. Þótt lögfræði sé stjórnmálamönnum gagnleg er raunar eins gott að menn þekki takmörk hennar og skynji takmarkanir hennar, ekki síst þegar fjallað er um hrein pólitísk efni eins og valdskiptingu í þjóðfélaginu og flest önnur stjórnarskrármálefni. Stjórnmálamenn láta ekki lögfræðiskrifstofur úti í bæ skera úr um málefni af því tagi, jafnvel þótt það væri sjálf Lagastofnun Háskóla Íslands sem tæki slíkt að sér fyrir hæfilega þóknun. Eða hvað hefði orðið úr sjálfstæðisbaráttu Íslendinga ef íslenskir stjórnmálamenn hefðu skolfið fyrir þjóðréttar- og stjórnarskrárskilningi J.E. Larsens og síðar Knuds Berlins og annarra fremstu lagamanna Danaveldis á þeirri tíð?
    Þórarinn Þórarinsson er öflugur liðsmaður þeirrar sveitar sem varar við þeirri villu að ,,afpólitísera`` Evrópupólitíkina, fjarlægja hana almennum stjórnmálaumræðum (stjórnmálarökum), gera hana að vélrænu viðfangsefni sérfræðinga, jafnvel á þeim sviðum þar sem ,,sérfræðingar`` ættu að hafa vit á að finna til vanmáttar síns, viðurkenna að þeir vita ekki meira en aðrir.``
    Ég vildi lesa þetta upp hér og vekja athygli á þessu. (Gripið fram í.) Ég hætti vegna fyrirspurnar hv. þm. því nú er farið að fjalla um stílbrögð Þórarins Þórarinssonar og ritstörf hans en horfið frá þessum djúpu umþenkingum um störf stjórnmálamanna og hlut stjórnmálamanna andspænis sérfræðingum. Ég tel að þessi tilvitnun í formála að bókinni sem var eftir Ingvar Gíslason eigi fullt erindi inn í þessar umræður og ætti að vera þingmönnum til umhugsunar. Það er alveg rétt sem hann segir að það á ekki að láta þetta velta á því hvað lögfræðiskrifstofur og lögfræðingar úti í bæ segja. Það er gott að hafa þeirra ráð. Mér virðist eins og ég les og skynja þær umræður sem eiga sér stað innan Framsfl. um þetta mál og ummæli hv. flm., formanns flokksins Steingríms Hermannssonar, um framgang mála á flokksþingi framsóknarmanna sem hefst á morgun, að framsóknarmenn séu að búa sig undir að skjóta sér á bak við lögfræðilegt mat varðandi stjórnarskrárþátt málsins og láta málið ráðast af því, afpólitísera málið, komast undan því að taka

til þessa máls pólitíska afstöðu, velta því fyrir sér sem stjórnmálamenn og láta lögfræðinga og sérfræðinga veita sér þann skjöld sem dugar til þess að ráða afstöðu sinni.
    Það er þetta sem ég vildi koma á framfæri í umræðunni í tilefni af þeim tillögum sem við erum að ræða og í tilefni af þeim ræðum sem menn hafa flutt um það mál að við ættum að hafa sérfræðingana og lögfræðingana sem leiðarljós í þessu. Menn hafa lesið í löngu máli upp úr ummælum dr. Gunnars G. Schrams prófessors, og ekki dreg ég í efa þekkingu hans og hæfileika, og lagt það til grundvallar í öllum sínum ræðum að þar sé maður sem vert sé að taka mið af og meta hans orð og leggja út af þeim eins og gert hefur verið í þessum umræðum. Þetta er skoðun og þetta er álit. En við sem alþingismenn og stjórnmálamenn eigum auðvitað að hafa þrek til þess að meta málið með víðari hagsmuni í huga, með þjóðarhagsmuni í huga, með pólitísk viðhorf í huga og komast að niðurstöðu á þeim grundvelli og á þeim forsendum. Þess vegna taldi ég rétt að lesa kafla úr þessum formála um þetta atriði ef það mætti verða einhverjum hv. þm. og sérstaklega úr Framsfl. veganesti inn á þeirra flokksþing þegar þeir þurfa að taka afstöðu til þessa mikla máls.