Stjórnarskipunarlög

66. fundur
Fimmtudaginn 26. nóvember 1992, kl. 23:06:15 (2820)

     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég geri mér fulla grein fyrir þeirri ábyrgð sem ég ber á atkvæði mínu, um það hvort þetta mál eða önnur sem koma til afgreiðslu standist stjórnarskrána eða ekki. Það á jafnt við um alþjóðasamninga eins og þennan eða hvert annað lagafrv. sem hér er samþykkt að þingmenn þurfa að gera þau upp við sig og eiga að gera það á eigin forsendum, miðað við þeirra eigin þekkingu og eigin mat. Ástæðulaust er annað en njóta góðra ráða og nýta sér ráð, lögfræðileg eins og önnur. En lokaákvörðunin er að sjálfsögðu hjá þingmönnum sjálfum. Það sem ég vitnaði til var áminning til þingmanna um að skýla sér ekki á bak við lögfræðiskrifstofur úti í bæ, eins og komist er að orði í hinum tilvitnuðu orðum, heldur taka afstöðu um stjórnmál á pólitískum forsendum.