Stjórnarskipunarlög

67. fundur
Mánudaginn 30. nóvember 1992, kl. 14:33:20 (2836)


     Frsm. minni hluta stjórnarskrárnefndar (Ragnar Arnalds) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er út af fyrir sig ekki mörgu að svara en þó er rétt vegna ummæla hv. þm. um þáltill. að láta það koma fram að um leið og þáltill. eru tilmæli, fyrirskipanir eða ákvarðanir Alþingis, því þingsályktunartillögur þurfa ekki eingöngu að vera tilmæli til ríkisstjórnar, geta þær líka falið í sér ákvarðanir. Alþingi ályktar að þetta eða hitt skuli gert og þær eru auðvitað yfirleitt mjög stefnumótandi. Þær mikilvægustu geta verið stefnumótandi í einstökum málum. Það getur verið fullkomlega eðlilegt ef um mjög mikilvæg mál er að ræða að þjóðin fái að fella sinn dóm.
    Hér kemur hver þingmaðurinn á fætur öðrum og reynir að gefa það í skyn að þjóðaratkvæðagreiðslur mundu vera sérstakt brot á okkar stjórnskipunarrétti og venjum og gætu á engan hátt passað inn í okkar lýðræðislega kerfi. Ég vil í lokin á þessari umræðu vekja athygli á því að prófessorinn í stjórnskipunarrétti við Háskóla Íslands, Ólafur Jóhannesson fyrrum forsrh., flutti á Alþingi tillögur um að undirbúið yrði frv. um þjóðaratkvæðagreiðslur. Hann taldi að slík skipan ætti mjög vel heima í okkar þingræðislega fyrirkomulagi. Það var sem sagt sá maður sem á þeim tíma var fróðastur um stjórnskipunarrétt.