Stjórnarskipunarlög

67. fundur
Mánudaginn 30. nóvember 1992, kl. 14:47:37 (2840)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Mér hafa orðið þær efnislegu umræður, sem farið hafa fram um þetta mál, veruleg vonbrigði. Annars vegar virðist svo sem stjórnarsinnar treysti illa íslensku þjóðinni til þess að taka afstöðu til mála og í annan stað að þeir líti svo á að hér séum við að brjóta hefðir og leikreglur og það sé svo alvarlegt mál sem menn eru að leggja til að nánast sé verið að leggja niður þingræðið í landinu. Ég verð að segja eins og er að ég þoli það dálítið illa þegar menn halda því fram að íslenska þjóðin sé síður fær en sú danska um að stjórna sér. Ég þoli það dálítið illa. Ég held að þeir ræðumenn sem vilja túlka það að frelsi í íslensku stjórnarskránni handa almenningi, hliðstætt og handa Dönum, þýði háska hér á landi, ættu að fara með veggjum. Mér finnst slíkur málflutningur gersamlega út í hött. Ég vil fá það skýrt hvað það er sem gerir íslenska þjóð óhæfa til þess að hafa hliðstæð ákvæði í íslensku stjórnarskránni og Danir hafa. Hvað er það? Er það eitthvað í karakter Íslendinga? Er það eitthvað í þeirra gáfnafari eða er það eitthvað í þeirra þjóðareðli? Það er rétt að þeir sem þannig tala gefi boltann alveg upp.
    Hitt er svo allt annað mál og á því hef ég mikinn skilning að það eru virkileg vandkvæði á því að fara að breyta stjórnarskránni eins og núna háttar á miðju kjörtímabili. Það vita allir að því fylgja virkileg vandkvæði vegna þess að slíkt þýðir kosningar. Og ég hef fullan skilning á því að núverandi stjórnarflokkar vilji ekki kosningar. Ég býst við því að ef ég væri í þeirra sporum hefði ég ekki áhuga á því heldur. Þeim er fullkomlega ljóst að stjórnarflokkarnir hafa verið að tapa fylgi og það miklu fylgi að undanförnu. Þess vegna er það út af fyrir sig skiljanlegt og þegar hv. 6. þm. Reykv. segir að það sé dálítið annað að leggja fram tillögu að stjórnarskrárbreytingu eða að koma með breytinguna þar sem allir vita hvernig með slík mál þarf að fara, þá finnst mér heiðarlegur málflutningur að lýsa slíku yfir. Það finnst mér heiðarlegur málflutningur vegna þess að þá er verið að segja, sem flestum er ljóst, að veruleg vandkvæði eru á því að breyta stjórnarskránni á miðju kjörtímabili. Skynsamlegast er að sjálfsögðu að standa þannig að verki að breyta stjórnarskránni í tengslum við almennar alþingiskosningar í landinu. En þá þurfa menn heldur ekki að tala eins og himinn og jörð séu að farast ef við rýmkum um þau ákvæði hjá okkur hvenær skuli vera hægt að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu og hvenær ekki. Við erum með það ákvæði í kosningalögum okkar til forseta að forsetinn þarf ekki að hafa meiri hluta þjóðarinnar á bak við sig. Ef t.d. að fimm eða sex byðu sig fram í forsetakosningum þá gæti farið svo að sá sem næði kjöri væri aðeins með um 25% þjóðarinnar á bak við sig. Vitað er um dæmi þar sem menn hafa verið forsetar með um 30--40% á bak við sig. Hér eru hugmyndir um að einn þriðji hluti þingmanna geti krafist þess að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla. Þá munu þeir þó vera með á bak við sig um 33% af þjóðinni.
    Það sem fyrst og fremst kallar á að sett séu ákvæði inn í stjórnarskrána um þjóðaratkvæðagreiðslu er sú staðreynd að í þessu landi eru listakosningar. Og það er ekki víst að efsti maður listans sé á sama máli og annar maður listans eða sá þriðji. ( Gripið fram í: Og alls ekki sá fjórði.) Eða þá sá fjórði á lista eins og komið hefur fram athugasemd um. Hvernig á fólk að ráða með sínu atkvæði hvaða ákvarðanir eru teknar á þjóðþinginu þegar ástandið er slíkt? Ég verð bara að segja eins og er að almenningur er í gersamlega vonlausri stöðu við alþingiskosningar oft og tíðum að taka á því máli með sínu atkvæði hvernig hann vill að eitthvert sérstakt mál fái afgreiðslu á Alþingi Íslendinga. Þetta eru staðreyndir. Þetta veit hver einasti maður hér inni og þetta veit íslenska þjóðin. Spurningin er hvort þingið sé svo hrokafullt að það telji það fráleitan hlut að skila þjóðinni aftur hluta af því valdi sem hún fékk þinginu. Um það snýst það mál, hvort íslenska þingið, þetta þing sem við segjum að sé elst í heimi, er reiðubúið að skila þjóðinni aftur hluta af því valdi sem þjóðin fékk þinginu með samþykkt á stjórnarskránni. Ég segi fyrir mig að mér sýnist að það sé margt sem mælir með því að það sé gert. Og varðandi fyrri hluta þess máls sem hér er til umræðu, þ.e. 2. málsl. 21. gr., þá tel ég það sjálfgefið að þingið skili þjóðinni því aftur.
    Um hitt sem þar kemur varðandi þjóðaratkvæði er í sjálfu sér miklu meira vafaatriði. Ég hallast þó mjög að því sem flm. þessa máls. hv. 3. þm. Norðurl. v., Ragnar Arnalds, sagði að ekki væri útlit fyrir það að þetta ákvæði yrði misnotað. Vissulega er þó hugsanlegt að slíkt ætti sér stað. Þess vegna gæti það verið skynsamlegt að taka smærri skref í svona máli, binda þetta annars vegar við frv. til laga og svo það atriði sem ég gat um áðan sem mér sýnist alveg sjálfgefið. En ef menn vilja ekki ræða þetta út frá öðru sjónarhorni en því að þjóðin sé ófær um að taka svona ákvarðanir þá eru menn nánast að halda því fram að íslenska þjóðin geti ekki búið við lýðræði. Menn eru að halda því fram, hvorki meira né minna.
    Það er hægt að leiða að því sterk rök, eins og ég sagði hér áðan, að sum mál eru þess eðlis að þau eru mjög heit í vitund manna. Engu að síður er ekki hægt að segja að þau skiptist nákvæmlega eftir flokkum. Þau skiptast þverpólitískt hjá þjóðinni. Kirkjunnar málefni eru eitt af þessum málefnum og það

er ekkert skrýtið þó að það skuli þess vegna hafa verið sett inn í stjórnarskrána.
    Mér finnst að þegar mál eins og þetta er flutt þá hljóti að geta farið fram um það málefnaleg umræða jafnvel þó að stjórnarsinnar séu með það á tæru að þeir ætli ekki að samþykkja frv. af þeirri ástæðu einni saman að þeir vilja ekki fá kosningar í þeirri stöðu sem þjóðmálin eru í.
    Norðmenn hafa þá reglu eins og menn vita að þar er kosið á fjögurra ára fresti og ekki sá möguleiki að hafa alþingiskosningar oftar. E.t.v. væri það eðlilegur agi á þingið um að koma sér saman og leysa málefni þjóðarinnar. En það er nefnilega hárrétt, sem kom fram hjá hv. 3. þm. Norðurl. v., að ákvæði, eins og hér er verið að leggja til, getur dregið úr þörfinni fyrir þingkosningar. Það er kjarni málsins.
    Ég vænti því þess að þrátt fyrir allsérstæðan málflutning sumra stjórnarsinna í þessu máli þá sé til staðar meiri skilningur en þar hefur komið fram og að ástæðan fyrir því að þeir hafa beitt slíkum málflutningi sé fyrst og fremst sú að þeir vilja ekki fá alþingiskosningar nú. Það er skiljanlegt sjónarmið. Það hljóta menn sem eru stjórnarandstæðingar að gera sér grein fyrir. Hins vegar er það staðreynd að það mál sem veldur þessum átökum er stórt. Það er svo stórt að það er spurning hvort við höfum gert öllu víðtækari verslunarsamning en þann sem menn eru að gera nú frá því að Gamli sáttmáli var gerður.
    Með því er ég ekki að segja að hér sé gengið jafnlangt og þar var gert. Mér er ljóst að þar játuðust menn undir ákveðinn konung og þess vegna var gengið lengra þar. Það fer ekki á milli mála. En engu að síður hefur verið fullyrt af mörgum að þau skref sem nú eru stigin séu í áttina að inngöngu í EB. Ef svo er, þá eru menn að stíga skref sem eru hliðstæð Gamla sáttmála, því að það vil ég að komi hér fram að sá sem sat yfir þeirri samningagerð fyrir hönd Íslands, Gissur Þorvaldsson, íslenski jarlinn, var yfirburðamaður að vitsmunum og hæfileikum. Og hann samdi vissulega eins og hann taldi að stætt væri fyrir íslenska þjóð þegar hann skrifaði undir og gerði þann samning. En það var aftur á móti hinn ójafni leikur styrkleikans sem tók við því að Íslendingar gátu ekki staðið á þeim rétti sem samningurinn bauð upp á. Þeir gátu ekki staðið á honum. Samningurinn kvað á um að hann væri ógildur ef hann, að hinna bestu manna yfirsýn, væri brotinn af öðrum hvorum aðilanum en þeir höfðu ekki þrek, þeir höfðu ekki stjórnunarlegt þrek til að fylgja því eftir. Þeir voru orðnir fastir í netinu. Það er hin sögulega staðreynd sem blasti við.
    Herra forseti. Ég tel ekki nauðsyn að fara frekar í efnislega umræðu um þetta frv. Hv. 3. þm. Norðurl. v. gerði vel grein fyrir því hvað efnisatriði snertir. Ég tel aftur á móti að það sé margt sem mælir með því að þrengja frv. eitthvað en í slíkri mynd hefði ég talið æskilegt að það yrði samþykkt af Alþingi Íslendinga. Ég hefði metið það við stjórnarsinna ef þeir hefðu litið svo á að þeir væru reiðubúnir að samþykkja slíkt í tengslum við alþingiskosningar þó að þeir teldu að miðað við stöðuna í dag treystu þeir sér ekki til þess að mæla með því.