Stjórnarskipunarlög

67. fundur
Mánudaginn 30. nóvember 1992, kl. 15:44:15 (2845)


     Frsm. meiri hluta stjórnarskrárnefndar (Sólveig Pétursdóttir) :
    Virðulegi forseti. Vegna þeirra umræðna sem hér hafa átt sér stað langar mig til að koma að nokkrum athugasemdum.
    Íslensk stjórnskipun byggir á sterku meirihlutavaldi en jafnframt því að meiri hlutinn skuli vera einfaldur. Gott dæmi um þetta er náttúrlega á hvern hátt ber að fara með breytingar á stjórnarskránni, ekki með auknum meiri hluta Alþingis eða þjóðaratkvæði heldur með einföldum meiri hluta tveggja þinga þótt kosningar fari að sjálfsögðu fram á milli.
    Með umræddum frv. er ætlunin að gerbreyta þessum stjórnarháttum og koma á nokkurs konar sjálfvirku þjóðaratkvæðagreiðslukerfi án þess að nokkuð liggi fyrir um það hver muni úrskurða greini menn á um það t.d. hvort samningur falli undir 21. gr. stjórnarskrárinnar. Af ofansögðu er ljóst að fjöldi þjóðréttarsamninga gæti fallið undir þessa sjálfvirku tilvísun til þjóðaratkvæðagreiðslu þótt þeir séu alls ekki þess

eðlis að þess ætti að vera þörf.
    21 alþingismaður er ekki há tala. Það er t.d í hæsta máta óalgengt að stjórnarandstaða sé minna hlutfall en einn þriðji hluti þingmanna og athugunarefni er hvort einn þriðji hluti þingmanna hafi ekki oft verið ákafur minni hluti í þingmáli. Með umræddu frv. er því t.d. verið að opna fyrir þá leið að stjórnarandstaða í minni hluta í einhverjum máli nýti sér rétt sinn samkvæmt þessu ákvæði og vísi lítils háttar þjóðréttarsamningi til þjóðaratkvæðis til þess að koma höggi á ríkisstjórn.
    Það er meginatriði tillögunnar, eins og hv. þm. Ragnar Arnalds benti á áðan, að verið er að vernda rétt minni hlutans á þingi en það er ekki verið að tala um vald almennings. Það er einfaldlega ekkert verið að ræða um hæfni þjóðarinnar til þjóðaratkvæðagreiðslu heldur íslenska stjórnskipun og hvort breyta eigi henni. Þetta er grundvallaratriðið en að sjálfsögðu hefur þjóðin hið endanlega vald.
    Þingræðishefð okkar byggir hins vegar á því að ríkisstjórn styðst við meiri hluta þingmanna. Við höfum ekki hefð fyrir minnihlutaríkisstjórnum eins og t.d. Danir.
    Þar sem mikið hefur verið vitnað til dönsku stjórnarskrárinnar og að okkar stjórnarskrá byggi að mörgu leyti á sömu hugmyndum, og reyndar hefur verið gengið hér enn lengra og talað um að það hafi nánast verið sama stjórnarskráin í upphafi, þá langar mig til að rifja upp tilvitnun til Bjarna Benediktssonar frá umræðum um 29. málið þar sem hann segir í ritinu Land og lýðveldi, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Það er hins vegar misskilningur að stjórnarskrárákvæði okkar séu yfirleitt af dönskum uppruna. Stjórnarskrárákvæði okkar eru eins og hin dönsku að langmestu leyti tekin eftir öðrum vesturevrópskum stjórnarskrám frá 19. öld. Allar eru þessar vesturevrópsku stjórnarskrár að verulegu leyti og með ýmsum afbrigðum sniðnar eftir þeim hugmyndum sem menn þá gerðu sér um stjórnarhætti í Bretlandi.``
    Það er rétt að minnast á það að þingræðishefðin kemur einmitt frá Bretlandi og að ýmis stjórnskipunarákvæði þar eru ekki einu sinni skrifuð. Sú er reyndin að þar sem stjórnarskrár ríkja eru hvað fullkomnastar er stjórnarfarið hvað ófullkomnast og svo aftur öfugt.
    Það er líka rétt að rifja það upp að íslensk stjórnskipun grundvallast á fulltrúalýðræði eins og fram kom í umræðum á hinu háa Alþingi nýlega er rætt var um þáltill. um þjóðaratkvæðagreiðslu um EES-samninginn, en sú tillaga var felld eins og kunnugt er.
    Ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur í stjórnarskrám annarra ríkja heyra frekar til undantekninga en hitt. Það er ekki hægt að taka Sviss sérstaklega sem dæmi þar sem svo sérstakir stjórnarhættir eru því í landi. En þar sem hv. þm. Kristín Einarsdóttir nefndi það sérstaklega má rifja það upp að erfiðlega gekk einmitt fyrir konur í Sviss að fá kosningarrétt vegna hefðar um þjóðaratkvæðagreiðslu sem alltaf fóru í íhaldssama átt. En ef við lítum t.d. á Noreg og Svíþjóð þá er í Noregi engin ákveðin grein í stjórnarskrá um þjóðaratkvæði. Þar í landi er þjóðaratkvæðagreiðsla ekki meginregla heldur getur þjóðþingið farið fram á slíka atkvæðagreiðslu og er hún þá einungis ráðgefandi. Síðast þegar slík atkvæðagreiðsla fór fram 1972 þar sem álits þjóðarinnar var leitað á inngöngu í EB varð niðurstaða atkvæðagreiðslunnar á þann veg að þjóðin vildi ekki inngöngu en hins vegar var meirihlutafylgi fyrir inngöngu á þjóðþinginu sjálfu. Þá má einnig benda á Svíþjóð. Þar gildir sú regla að ef talið er nauðsynlegt vegna sérstöðu máls er heimilt að lögfesta heimild til að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta tiltekna ákveðna mál sem er umdeilt, en í því felst í raun og veru ráðgefandi ábending þjóðarinnar.
    Í nefndaráliti minni hlutans segir að rétt þyki að gefa þjóðinni kost á að segja álit sitt á umdeildum þjóðmálum sem lögð eru fyrir Alþingi áður en þau eru afgreidd. Þó verði að stuðla að því að þessi réttur sé ekki ofnotaður heldur einungis nýttur þegar sérstök ástæða þykir til. Mér er spurn: Hvernig á þetta að vera hægt og hver á að meta hvað séu umdeild þjóðmál og hvenær sérstök ástæða sé til staðar? Ákvæði í dönsku stjórnarskránni undanskilur marga mjög mikilvæga málaflokka sem hvergi er minnst á í þessari tillögu. Þeir sérfræðingar sem komu á fund stjórnarskrárnefndar höfðu margir mjög alvarlegar athugasemdir að gera við efni þessa frv. svo sem að þingræðisreglan væri verulega skert, að fulltrúalýðræðið yrði nánast úr sögunni með slíkri tillögu og að þetta frv. gæti leitt til algers stjórnleysis. Væntanlega yrði að hafa einhvern fyrirvara á synjunarvaldi forseta, jafnvel svipta hann neitunarvaldi sínu miðað við stefnu frv. Þessi tillaga fæli sem sé í sér algert frávik frá íslenskri stjórnskipun. Þar að auki voru mörg tæknileg atriði gagnrýnd sem ég lét getið í framsögu fyrir nefndaráliti meiri hlutans. En samt liggja engar brtt. fyrir nema ein, þ.e. sú viðbót að fjórðungur kjósenda geti krafist þjóðaratkvæðis um tiltekið mál. Sú brtt. er hins vegar ekkert skýrð sérstaklega heldur vísað til frv. stjórnarskrárnefndar 1983. Það frv. hlaut ekki neina þinglega meðferð utan framsögu fyrrv. hæstv forsrh. Gunnars heitins Thoroddsens.
    Þess má einnig geta að fulltrúar Alþb. í stjórnarskrárnefnd þeirri er undirbjó frv. 1983 lögðu áherslu á að það yrði fimmtungur kjósenda sem hefði þennan rétt. Sú hugmynd er ekki endurvakin hér. Reyndar er rétt að taka það fram að nefndin taldi þá skýrslu er hún skilaði í janúar 1983 aðeins til bráðabirgða, enda taldi nefndin sig eiga eftir að fjalla betur um ýmsa þætti, svo sem varðandi eignarréttarákvæði og mannréttindi en um þá þætti var þó nokkur ágreiningur innan nefndarinnar. Það má segja að á þessum tíma hafi tilgangur nefndarinnar með skýrslunni verið að kynna þau atriði sem nefndin í heild væri sammála um og jafnframt að draga fram nokkur atriði sem ágreiningur væri um. Þannig vildi nefndin skapa grundvöll fyrir frekari umræðu um málið, ekki síst innan þingflokkanna og stjórnmálaflokkanna almennt. 1. flm. þessa frv. sem hér er til umræðu, hv. þm. Ragnari Arnalds, mun þó að sjálfsögðu mætavel kunnugt um þessa

sögu alla því að hann á einmitt sæti í þessari umræddu stjórnarskrárnefnd.
    Í þessu sambandi má einnig rifja upp þáltill. um endurskoðun stjórnarskrárinnar sem fram kom á Alþingi 1967 en m.a. var þar fjallað um þjóðaratkvæði. Þáv. hæstv. forsrh. Bjarni heitinn Benediktsson sagði m.a. af því tilefni, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Að hér þurfi að gera sérstakar ráðstafanir til breytinga á stjórnarháttum vegna samskipta við önnur ríki fæ ég ekki séð. Okkur hefur í heild lánast þau vel og ég tel t.d. ekki að það væri mikill vinningur þó að fara ætti að bera hin viðkvæmustu utanríkismál undir þjóðaratkvæði svo sem vikið er að. Það er yfirleitt reynslan þar sem þjóðaratkvæði hafa verið að þau verka mjög í íhaldsátt. Það er bæði Sviss og eins á Norðurlöndunum þar sem þau hafa verið prófuð.`` Þannig að þessi umræða er ekki ný af nálinni.
    Virðulegi forseti. Ég vil að lokum segja það að hér er um að ræða frv. sem felur í sér afar miklar breytingar á íslenskri stjórnskipun. Slík tillaga hlýtur að þurfa vandlega athugun bæði pólitíska og faglega. Ég vil því ítreka það álit okkar meiri hlutans í stjórnarskrárnefndinni að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.