Stjórnarskipunarlög

67. fundur
Mánudaginn 30. nóvember 1992, kl. 15:59:12 (2848)

     Frsm. meiri hluta stjórnarskrárnefndar (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. heldur hér hverja ræðuna á fætur annarri um það að meiri hlutinn sé umboðslaus í þessu máli. Ég vil aðeins vísa til þeirra svara sem við höfum áður gefið, m.a. í tengslum við umræðuna um 29. mál. Að sjálfsögðu teljum við okkur ekki umboðslaus í þessu máli. Fyrir utan það atriði höfum við enn fremur komist að þeirri niðurstöðu að þau mál sem hér eru til umræðu um breytingar á stjórnarskránni skipta ekki máli í tengslum við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Bæði er það að fyrra málið, 29. mál um breytingu á 21. gr. stjórnarskrárinnar, dugar einfaldlega ekki ef menn telja að um stjórnarskrárbrot sé að ræða t.d. á 2. gr. stjórnarskrárinnar. Þetta mál sem hér er til umræðu, 30. mál, snertir það heldur ekki vegna þess að í fyrri mgr. er vísað til 21. gr. stjórnarskrárinnar en síðari mgr. er algerlega opin ávísun um að vísa öllum málum á Alþingi til þjóðarinnar.