Stjórnarskipunarlög

67. fundur
Mánudaginn 30. nóvember 1992, kl. 16:00:36 (2849)

     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli á því að hv. frsm. meiri hluta getur ekki útilokað að upp komi mál sem þingmenn hafa ekki umboð til að leiða til lykta af ýmsum ástæðum. Málið kann að hafa verið órætt í kosningabaráttu og annað slíkt.
    Ég vil nefna tvö mál. Fyrsta er samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið. Það er alveg skýrt hver skilyrði Sjálfstfl. voru til þess að samþykkja samninginn. Í tveimur veigamiklum atriðum er þeim skilyrðum ekki fullnægt sem flokkurinn sagði að væru skilyrði hans fyrir því að samþykkja samninginn. Það fyrra er að fiskveiðilögsagan væri nýtt af Íslendingum einum og það síðara hindrunarlaus viðskipti með fiskafurðir. Hvorugt er uppfyllt. Þetta sagði Sjálfstfl. kjósendum sínum að væru skilyrði þess að þeir gætu fallist á þennan samning.
    Hitt málið sem dæmi um mál sem ekki var rætt í síðustu kosningum er aukaaðildin að Vestur-Evrópusambandinu. Það var hvergi rætt og samkvæmt skilningi frsm. meiri hlutans sjálfs að það þurfi umboð frá kjósendum í ljósi afstöðu sem menn gefa upp í alþingiskosningum, þá hafa stjórnarflokkarnir ekkert umboð til að ljúka því máli af því að það var ekkert rætt.
    Þetta eru dæmi um tvö mál sem þegar hafa komið upp og hljóta að leiða til þess að menn finni svar við spurningunni hvernig á að bregðast við þegar umboð þrýtur. Við höfum lagt fram tillögu til að mæta því en hv. stjórnarliðar hafa engin svör önnur en þau að þeir ætli bara að gera það sem þeim sýnist óháð því hvað þeir sögðu fólkinu. Það er þetta siðleysi sem . . .  ( Forseti: Ræðutími hv. þm. er úti og ég bið hv. þm. um að ljúka máli sínu.) Sjálfsagt, virðulegi forseti. Það er þetta siðleysi sem þingmenn stjórnarliðsins ætla að komast upp með, virðulegur forseti.