Stjórnarskipunarlög

67. fundur
Mánudaginn 30. nóvember 1992, kl. 16:04:17 (2851)


     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegur forseti. Ég skal ekki ganga mjög á tímann en ég varð fyrir nokkrum vonbrigðum með ræðu hv. 6. þm. Reykv. þegar hún talar um, reyndar kom það fram í máli hv. 3. þm. Reykv. líka, að þetta frv. sé gallað og í því séu víðtækar heimildir o.s.frv., en gefur þó í skyn að alveg geti komið til greina að setja heimild í stjórnarskrána um þjóðaratkvæðagreiðslu m.a. með því að vísa þessu máli til ríkisstjórnarinnar og til stjórnarskrárnefndar.
    Ég átta mig ekki á því hvers vegna verið er að kjósa sérstaka stjórnarskrárnefnd sem á að fara yfir frv. sem þetta ef ekki er hægt að vinna eðlilega að málinu inni í þeirri nefnd. Ef niðurstaðan hjá meiri hluta nefndarinnar hefði verið að leggja til að frv. væri ekki samþykkt að svo stöddu vegna þess að það krefðist kosninga eða eitthvað þess háttar og þau rök hefðu komið fram, eins og þau hafa gert að vissu leyti hjá hv. þm. sem hafa stutt meirihlutaálitið, þá hefði ég kannski skilið málið. En það er verið að tala um að þetta sé brot á stjórnskipunarhefðum, það sé verið að afsala þinginu rétt til að setja lög og það er gengið svo langt að taka sem dæmi mál eins og hjúskaparlög. Hvers vegna í ósköpunum er verið að þessu?
    Í stjórnarskrám annarra ríkja eru svipuð ákvæði og þetta sem heimila þjóðaratkvæðagreiðslu í ákveðnum málum. Það hefur aldrei verið talað um að það þýði að þau þing séu þar með að afsala sér rétti til að setja lög. Mér þykir þetta mjög einkennilegt og ég átta mig ekki á til hvers þingið var að vísa þessu máli til sérstakrar stjórnarskrárnefndar ef ekki er unnið þar að því að starfa að málunum með eðlilegum hætti eins og ég tel að þurfi að gera, þ.e. hjálpast að við að gera breytingartillögur við frv. eins og við reyndar buðum sem vorum í nefndinni. Við sögðum að við værum tilbúin til breytinga ef það yrði til samkomulags. En það var ekki vilji fyrir því og kemur í ljós að það er að hluta til vegna þess að meiri hlutinn vill ekki fara í kosningar nú. Þá á að segja það en ekki vera að reyna að búa þetta í einhvern allt annan búning og reyna að halda því fram að þetta sé óeðlilegt og verið að framselja vald til þjóðarinnar sem er bara að snúa málunum á haus.
    Meira ætla ég ekki að segja að svo komnu máli, virðulegi forseti, en vona að þetta frv. verði samþykkt en ekki vísað til ríkisstjórnarinnar eins og meiri hlutinn leggur til.