Viðurkenning á menntun og prófskírteinum

68. fundur
Miðvikudaginn 02. desember 1992, kl. 14:06:36 (2860)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er rétt hjá hv. þm. að sérstök fagnefnd leggur mat á gildi prófa frá öðrum skólum og leggur síðan til við ráðherra hvort viðkomandi aðila sé veitt löggilding. Þarna verður um gagnkvæma viðurkenningu að ræða á prófskírteinum og öðrum jafngildum gögnum. Út á það gengur þetta mál. Út á það ganga ákvæði þessarar tilskipunar sem við erum að ræða um.
    Ég legg hins vegar áherslu á að þótt útlendingar hafi þessa viðurkenningu er það auðvitað vinnuveitandans að ákveða hvaða umsækjanda hann velur. Það ber að hafa sérstaklega í huga. Þegar þessi gagnkvæma viðurkenning er fengin eiga útlendingar sem hingað koma og leita eftir starfi að standa jafnfætis íslenskum ríkisborgurum hvað varðar umsóknir um störf. En eins og ég sagði er það vinnuveitandans að ákveða hvaða umsækjanda hann velur.
    Ég get ekki svarað því nákvæmar hvort einhver breyting verði frá því sem verið hefur varðandi fagnefndirnar. Ég hygg að þær starfi á fleiri sviðum en bara þar sem hv. þm. nefndi varðandi viðskiptafræðinga og hagfræðinga án þess að ég hafi nokkuð sérstakt dæmi í huga. Það kann vel að vera að á þessu verði breyting. Ég sé það ekki alveg fyrir.