Viðurkenning á menntun og prófskírteinum

68. fundur
Miðvikudaginn 02. desember 1992, kl. 14:32:05 (2864)

     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er ekki ástæða fyrir mig að svara þessu mörgum orðum. Þetta er auðvitað rétt sem hv. formaður menntmn. segir varðandi breytingar, þær liggja jú fyrir á þskj. Mér sýnist að það sé heldur til bóta sem bent var á varðandi 5. gr. og það sem snýr að þrengingu á þeim heimildum sem hér er verið að veita. Það er vissulega til bóta en það breytir ekki hinu að hinn almenni búningur málsins er þessi. Þetta er tengt við samninginn um Evrópskt efnahagssvæði. Það eru í þessu víðtækar reglugerðarheimildir og það virðist vera óvissa um það að hve miklu leyti lögin um verndun starfsheita tengjast þessu máli, en ég átti kannski von á því að hv. þm. mundi víkja að þeirri óvissu sem hæstv. ráðherra ekki gat skorið hér úr um.