Viðurkenning á menntun og prófskírteinum

68. fundur
Miðvikudaginn 02. desember 1992, kl. 14:33:03 (2865)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. menntmrh. fyrir hans meginskilning á því að hæpið sé að rýmka reglugerðarvald í landinu. En ég get ekki látið hjá líða að fara aftur út í umræðuna um formið og réttinn sem veittur er í 4. gr.
    Alþingi Íslendinga samþykkti þingsályktun á þann veg að kosin skyldi nefnd til að vinna að lagahreinsun. Þessi nefnd vann mikið starf, útbjó frumvörp og lagði til að þau yrðu samþykkt hér á Alþingi Íslendinga og að ýmsum ákvæðum eldri laga yrði breytt.
    Ef þessi lagatækni hefði verið notuð, sem hér er verið að leggja til, hefðum við alveg eins getað sett inn frv. og sagt: Hæstv. dómsmrh. er heimilt með reglugerð að breyta þeim lögum sem hann telur að séu úrelt og fella þau úr gildi. Þetta gerðum við ekki. Og hvers vegna gerðum við það ekki? Vegna þess að það er einfaldlega ekki heimilt samkvæmt stjórnarskránni að framselja löggjafarvaldið. Það er ekki heimilt.
    Ég vil, með leyfi forseta, lesa 2. gr. stjórnarskrárinnar þar sem mjög ákveðið er gripið á þessu máli:
    ,,Alþingi og forseti fara saman með löggjafarvaldið. Forseti og önnur stjórnvöld samkvæmt stjórnarskrá þessari og öðrum landslögum fara með framkvæmdarvaldið. Dómendur fara með dómsvaldið.``
    Með þeirri breytingu sem við erum að gera hér erum við að leggja til að á vissum sviðum menntamála verði það forsetinn og önnur stjórnvöld samkvæmt stjórnarskránni, í þessu tilfelli hæstv. menntmrh., sem fara saman með löggjafarvaldið á sviði menntamála. Við erum að leggja til að þessir tveir aðilar, forsetinn og hæstv. menntmrh., geti breytt lögum um menntamál með reglugerð.
    Nú er það svo, eins og ég hef áður sagt í þessum stól, að tveir fyrrv. ráðherrar sem sitja á Alþingi Íslendinga í dag hafa báðir beitt reglugerðarákvæði, sem heimilt hefur verið að einhverju marki innan laga, það rúmt að Hæstiréttur hefur dæmt gerðir þeirra ómerkar. Þetta gerðist á sínum tíma varðandi þungaskatt og var þá spurningin sú hvort hæstv. samgrh. hefði þær heimildir að hann gæti með reglugerð breytt þeim gjöldum eins og hann gerði. Í hinu tilfellinu var þetta um hæstv. landbrh. að ræða, sem breytti ákvæðum um fóðurbætisskatt á þann veg að Hæstiréttur dæmdi það ólöglegt. Niðurstaða Hæstaréttar varð fyrst og fremst sú að löggjafarvaldið hefði ekki heimildir til að framselja öðrum réttinn til lagasetningar, eins og í reynd væri gert með því að veita svo rúm ákvæði.
    Ég er ekki í nokkrum vafa um það að löggjafarvaldið hefur ekki heimild til þess að framselja sinn rétt til þess að setja lög í hendur ráðherrum eða forseta. Spurningin er bara þessi: Er það aðeins ákvörðun um að setja lög, að semja ný lög eða er það þá ekki ákvörðun um að setja lög að taka ákveðna kafla laga og nema þá úr gildi? Það er jafnmikil ákvörðun um lagasetningu að nema ákveðna kafla laga úr gildi eins og að setja ný lög. Sérhver breyting á lögum er í reynd setning nýrra laga. Þetta verða menn að hafa alveg á hreinu. --- Sérhver breyting á lögum er setning nýrra laga. --- Þess vegna fær það ekki staðist þó vissulega sé rétt að það er búið að leggja til að ákvæði 4. gr. verði bundið við þá tilskipun sem nú er í gildi. Þá er engu að síður verið að taka ákvörðun um það, ef ég les enn, með leyfi forseta:
    ,,Ráðherra sem í hlut á getur með reglugerð veitt undanþágu frá ákvæðum í lögum að því er varðar ríkisfang, búsetu eða viðurkenningu á prófum að því leyti sem það er nauðsynlegt vegna skuldbindinga er felast í tilskipunum [verður tilskipun þeirri] eða samningum sem falla undir 1. gr.``
    Það er verið að afhenda löggjafarvaldið út fyrir þingið. Það er verið að afhenda einhverri nefnd

upp í menntmrn. hluta af löggjafarvaldinu á þessu sviði. Nú er það upplýst af hv. 10. þm. Reykn. að það er ekki um óteljandi fyrirbrigði eins og eyjarnar á Breiðafirði að ræða þegar farið er yfir það til hvaða stétta og lögverndaðra starfsheita hér er verið að vísa. Það er hægt að gera tæmandi skrá yfir þetta og það er hægt að ganga til þess verks að breyta lögunum þannig að þetta standist allt. Spurningin er bara þessi: Hvers vegna sækjast menn eftir því að þessi vinna sé ekki unnin en kjósa heldur þann kostinn að tefla hér fram þeim leikreglum að nú skuli reglugerðarvaldið verða svo sterkt að það hafi lagasetningargildi, það sé hægt að breyta lögum Íslands með reglugerð sem forseti landsins og hæstv. menntmrh. skrifa undir?
    Ég verð að segja eins og er að mér finnst það gjörsamlega út í hött. Og það gladdi mig að heyra jákvætt viðhorf hæstv. ráðherra til þess að reglugerðarvaldið er of rúmt. Ég tek undir það með hæstv. ráðherra að það hefur verið misnotað. Af þeirri ástæðu vil ég skora á hæstv. ráðherra að láta þá vinnu fara fram í ráðuneytinu að framkvæma tæmandi upptalningu á þessu verkefni og hafa þetta ekki lögfræðilega séð í lausu lofti. Það er ekki nauðsyn að lítillækka Alþingi Íslendinga á þann hátt að fara fram á það að það afsali sér löggjafarvaldi. Menn segja: Þetta er bara á sviði menntamála. --- En hvað með aðra ráðherra? Munu þeir ekki sækja á sömu mið, fara fram á það að þeirra reglugerðir verði lögum æðri? Ég er hræddur um það. Spurningin er bara þessi: Er ekki tímabært að menn lesi hæstaréttardóma sem hafa fallið í þessum efnum, skoði þá, kynni sér mál það og til hlítar hvort það sé rétt að Alþingi Íslendinga geti afsalað sér því valdi sem stjórnarskráin ætlar því ásamt forsetanum að fara með löggjafarvaldið, er hægt að afsala sér því á þann hátt sem hér er verið að leggja til, til einstaks ráðherra og forseta landsins?
    Mér finnst að starfsmönnum ráðuneytanna sé ekki gert erfitt fyrir þó farið sé fram á að sú vinna sé unnin í botn, það sé gengið frá því nákvæmlega eins og hv. 10. þm. Reykn. gat um, að er vissulega vinnandi verk að fá niðurstöðu í þetta mál. Til hvaða stétta nær það, til hvaða lögverndaðra starfsheita nær það og hvernig verður framkvæmdin til þess að hún sé í takt við það sem verið er að fara fram á?
    Mér finnst að þegar það liggur fyrir að það er meginskilningur, hygg ég, allra stjórnmálaflokka á Íslandi að við eigum að viðurkenna menntun í öðrum ríkjum, þá þurfi ekki að storka mönnum með því að standa þannig að lagasetningunni að mönnum er hreinlega misboðið vegna þess að það er verið að ganga svo langt í heimildum að það stangast á við stjórnarskrá.