Lífeyrissjóður sjómanna

68. fundur
Miðvikudaginn 02. desember 1992, kl. 14:57:22 (2873)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Hæstv. forseti. Frv. þetta, sem er 231. mál þingins á þskj. 288, er lagt fram í tengslum við samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði. Breytingar þær sem frv. felur í sér byggjast annars vegar á reglum samningsins um félagslegt öryggi og hins vegar á reglum hans um frelsi launþega til flutninga.
    Í VI. viðauka samningsins er fjallað um félagslegt öryggi. Samkvæmt þessum viðauka er gert ráð fyrir að reglugerð nr. 1408/71/EBE, Evrópubandalagsreglugerð, sem fjallar um almannatryggingar, gildi á hinu Evrópska efnahagssvæði. Í 10. gr. reglugerðarinnar er m.a. fjallað um endurgreiðslu iðgjalda. Samkvæmt ákvæðinu ber að líta svo á að þegar endurgreiðsla iðgjalda er háð því skilyrði að sjóðfélagi heyri ekki lengur undir skyldutryggingu samkvæmt löggjöf samningsríkis telst þessu skilyrði ekki fullnægt á meðan það heyrir undir skyldutryggingu launþega samkvæmt löggjöf annars samningsríkis. Það ber þannig að líta á hið Evrópska efnahagssvæði sem eina heild. Þótt hlutaðeigandi flytjist úr landi á það ekki að leiða til þess að hann fái iðgjöld þau sem hann hefur greitt í lífeyrissjóð hér á landi endurgreidd enda mundi sjóðfélaginn síðar eignast rétt til lífeyris úr viðkomandi lífeyrissjóði með sömu reglum og íslenskir sjóðfélagar.
    Í 7. kafla áðurnefndrar reglugerðar er fjallað sérstaklega um fjölskyldubætur. Samkvæmt þessum reglum eiga launþegar og sjálfstætt starfandi einstaklingar rétt á fjölskyldubótum í því landi þar sem þeir eru starfandi óháð því hvar börn, sem eru á framfæri þeirra, eru heimilisföst. Jafnframt ber að draga þær bætur sem greiddar eru í einu landi frá bótum sem greiddar eru vegna sama aðstandanda og á sama tímabili í öðru landi. Í A-lið 69. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt er fjallað um barnabætur. Greinin setur það skilyrði fyrir greiðslu barnabóta að barn sé heimilisfast hér á landi.
    Með þeirri breytingu sem lögð er til í 2. gr. frv. verður heimilt að greiða barnabætur með börnum sem eru á framfæri ríkisborgara hins Evrópska efnahagssvæðis sem starfar hér á landi jafnvel þótt börnin séu búsett í öðrum ríkjum svæðisins.
    Um atvinnurétt ríkisborgara hins Evrópska efnahagssvæðis er fjallað í 28. gr. samningsins. Rétturinn er nánar útfærður í reglugerð nr. 1612/68/EBE, þ.e. reglugerð Evrópubandalagsins, um frjálsa fólksflutninga innan bandalagsins. Meginreglan er sú samkvæmt 28. gr. samningsins að ríkisborgunrum svæðisins er tryggð frjáls dvöl á Evrópska efnahagssvæðinu í því skyni m.a. að þiggja atvinnutilboð. Samkvæmt 4. tölul. 28. gr. á greinin ekki við um störf í opinberri þjónustu. Mismunandi er til hvaða starfa opinber þjónusta tekur í EES-ríkjunum og verður að skýra þessa undantekningu þröngt. Af dómum Evrópudómstólsins má ráða að það eru einkum störf sem tengjast eiginlegum stjórnsýslustörfum og öryggishagsmunum sem eru vernduð með þessum hætti. Til þess að undanþágan eigi við verður þannig að vera um að ræða sérstaks trúnaðarsamband milli starfsmanns og hins opinbera en það er á valdi hvers ríkis að skilgreina það.
    Í 3. gr. nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, er fjallað um almenn skilyrði þess að fá skipun, setningu eða ráðningu í stöðu. Eitt þessara skilyrða er íslenskur ríkisborgararéttur. Þó er heimilt að ráða til bráðabirgða erlenda ríkisborgara ef telja má það sérstaklega eftirsóknarvert. Þar sem aðeins hefur verið um tímabundnar ráðningar að ræða hjá erlendum ríkisborgurum hafa þeir ekki haft ýmis þau réttindi sem íslenskir ríkisborgarar sem eru skipaðir eða ráðnir ótímabundið með uppsagnarfresti hafa svo sem rétt til biðlauna og rétt til aðildar að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Með þeirri breytingu, sem hér er lögð til á 3. gr. laga nr. 38/1954, er ætlunin að tryggja að aðrir ríkisborgarar hins Evrópska efnahagssvæðis sem ráðnir eru til starfa hjá ríkinu geti notið sömu ráðningarkjara og íslenskir ríkisborgarar. Með frv. er ekki verið að veita ríkisborgurum sem falla undir Evrópska efnahagssvæðið rétt til skipunar í starf hjá ríkinu né rétt til starfa hjá ríkinu umfram aðra erlenda ríkisborgara heldur er eingöngu verið að tryggja að þeir sem ráðnir eru á annað borð séu ráðnir með sömu kjörum og íslenskir ríkisborgarar. Veitingarvaldið er þannig í höndum ráðningaraðila eins og verið hefur og yrði hann að meta hvaða kröfur yrði að gera til væntanlegs starfsmanns, svo sem varðandi íslenskukunnáttu og almenna menntun og jafnframt hvort starfið krefjist sérstaks trúnaðarsambands.
    Að lokinni 1. umr. óska ég eftir því að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn. Ég tel, hæstv. forseti, að það komi skýrt fram í greinargerð hverjar breytingarnar eru. Ég get farið yfir það í stuttu máli. Það kemur fram í greinargerðinni varðandi 1. gr. að þar er lagt til að ólögmætt verði að endurgreiða iðgjöld ef það telst bannað samkvæmt milliríkjasamningunum sem Ísland er aðili að. Ákvæðin munu hafa almennt gildi þannig að þau geti ekki aðeins tekið til ríkisborgara þeirra landa sem tilheyra hinu Evrópska efnahagssvæði heldur einnig ríkisborgara annarra landa sem Ísland hefur eða mun hugsanlega síðar gera milliríkjasamninga við.
    Í 2. gr. er kveðið á um að heimilt verði að greiða barnabætur með börnum sem eru á framfæri manna sem starfa hér á landi, annaðhvort sem launþegar eða sjálfstætt starfandi einstaklingar, jafnvel þótt börnin séu heimilisföst í öðru ríki hins Evrópska efnahagssvæðis. Þetta er auðvitað bundið við það að menn séu í launaðri vinnu og einnig að um frádrátt bóta sem koma erlendis frá sé að ræða.

    Loks er í 3. gr. gert ráð fyrir því að þeim sem ráða sig hér sem opinbera starfsmenn eða starfsmenn ríkisins, ef svo skyldi fara, séu tryggð sömu kjör og íslenskum ríkisborgurum. Það skal tekið fram að íslenskur ríkisborgararéttur verður áfram almennt skilyrði fyrir veitingu starfa og ekki verður heimilt að skipa erlenda ríkisborgara í stöðu. Það er almenna reglan.
    Virðulegi forseti. Ég ítreka tillögu mína um að málið fái að fara til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.