Lífeyrissjóður sjómanna

68. fundur
Miðvikudaginn 02. desember 1992, kl. 15:04:22 (2874)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Hér er við fyrstu sýn frv. til laga um Lífeyrissjóð sjómanna en ef nánar er gætt að er í rauninni um bandorm að ræða. Það er verið að breyta þrennum lögum.
    Nú er það svo að samkvæmt frv. sem við vorum að fjalla um áðan er ætlunin að veita hæstv. menntmrh. heimild með reglugerð til að veita undanþágu á lögum varðandi ríkisfang. Ef það verður samþykkt veit náttúrlega enginn lengur hvaða stefna verður ofan á í þeim efnum, hvort íslenskt ríkisfang verði yfir höfuð nokkurn tíma skilyrði fyrir starfi hér á landi. Ég tel þess vegna að ráðherrarnir gangi ekki í takt þegar þetta er skoðað. Annaðhvort veit hæstv. fjmrh. ekki af þeirri umræðu, sem hér hefur farið fram um reglugerðarvaldið --- það var í sambandi við frv. til laga um gagnkvæma viðurkenningu um menntun ríkisborgara í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins og á Norðurlöndum --- eða þá hitt að hann trúir því að þau ákvæði sem hér eru séu ofar og æðri því sem áður var rætt.
    Ég veit að þetta mál á eftir að fara til nefndar. Þar verður farið yfir það efnislega. Mér finnst líka að í þessum spurningum sé ýmislegt sem leiðir hugann að því að við ætlum Íslendingum, sem t.d. flytja af landi brott, misjafnan rétt á Íslandi í framtíðinni eftir því hvort þeir flytja til Evrópu eða hvort þeir flytja til Ameríku. Ég er ekki spenntur fyrir þeim lagasetningarhugmyndum sem hér eru settar fram varðandi þau atriði.