Ríkisreikningur 1990

68. fundur
Miðvikudaginn 02. desember 1992, kl. 15:26:33 (2879)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Þetta er alveg hárrétt hjá hv. þm. Þetta var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum nema einu. Það var atkvæði hv. 8. þm. Reykn., Ólafs Ragnars Grímssonar, fyrrv. fjmrh. Hann hélt því síðan fram, eins og menn muna, að ég hefði greitt atkvæði með þessari tillögu en í ljós kom að ég var ekki staddur í þingsalnum. Ég skal láta það koma fram . . .  (Gripið fram í.) --- Ég hefði setið hjá við þá afgreiðslu vegna þess að auðvitað verður það Alþingis að eiga síðasta orðið í þessum efnum. Þessi deila hefur snúist um það hvenær eigi að taka tillit til skuldbindingar.
    Ég vil segja það að lokum að þetta er út af fyrir sig ekki stórt mál. Aðalatriðið er að niðurstaðan verði sú að allir geti sætt sig við hana. Ég hélt satt að segja, og það er aðalatriði málsins, að fjmrn. og Ríkisendurskoðun og jafnvel fulltrúar í fjárln. hefðu skilning á því að við yrðum að koma okkur saman um framsetningarmáta á fjárlögum, fjáraukalögum og ríkisreikningi til þess að almenningur í landinu geti áttað sig á því hver sé hin raunverulega staða ríkisfjármálanna á hverjum tíma. Ástæðan fyrir því að ég flutti þessa ræðu með þessum hætti áðan er einmitt sú að koma þessum skilaboðum skýrt til skila sem reyndar hefur verið til skila haldið í greinargerð með fjárlögum og margoft verið rætt á undanförnum fundum. Ég vona að það hafi nú komist verulega til skila.