Kjaradeila sjúkraliða

68. fundur
Miðvikudaginn 02. desember 1992, kl. 15:35:06 (2882)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að taka undir það sem hv. þm. sagði að ástandið á sjúkrahúsunum er að sjálfsögðu afar slæmt þegar hluti starfsmanna hefur tekið þann kost að ganga út af vinnustaðnum. Undir það vil ég taka. Hv. þm. lagði fyrir mig nokkrar spurningar sem ég mun leitast við að svara.
    Í fyrsta lagi spurði hv. þm.: Er það stefna ríkisstjórnarinnar að svipta ríkisstarfsmenn áunnum réttindum? Til að svara þessari fyrirspurn vil ég segja það að þegar starfsmaður skiptir um stéttarfélag þá gengur hann inn í réttindi og skyldur hins nýja félags hvort sem þau eru betri eða verri. Eins og staðan er í dag þá geta sjúkraliðar valið um að vera í Starfsmannafélagi ríkisstofnana, staðbundnu stéttarfélagi eða Sjúkraliðafélagi Íslands.
    Í öðru lagi er spurt: Hver er launastefna þessarar ríkisstjórnar? Launastefna þessarar ríkisstjórnar hefur auðvitað markast af þeim efnahagsaðstæðum sem við búum við hér á landi og höfum gert um nokkurt skeið. Kjarasamningar hafa verið með þeim hætti allt frá árinu 1990 að reynt hefur verið sem mest að samræma kjarasamninga. Það var gert af hálfu fyrrv. ríkisstjórnar snemma árs 1990 og það var aftur gert á vordögum á yfirstandandi ári. Og enn er verið að semja við ýmis félög. Þar á meðal hefur verið samið á síðustu vikum við lögreglumenn, lækna og háskólakennara, svo nefndir séu einhverjir til sögunnar.
    Það hefur sem sagt verið stefna ríkisstjórnarinnar að fylgja öðrum þeim sem hafa verið að semja um kaup og kjör í landinu á síðustu árum. Alveg sama stefna og ríkti hjá síðustu ríkisstjórn.
    Í þriðja lagi er spurt: Telur ráðherra að sjúkraliðum beri ekki sama launahækkun og aðrir hafa fengið? Ég tel að sjálfsögðu að svo eigi að gerast. Við teljum að við höfum boðið sjúkraliðum í þessari kjaradeilu sömu launahækkun og aðrir hafa fengið og það sem hefur verið boðið í samningum við önnur stéttarfélög.
    Þá spurði hv. þm. að því hvers vegna ég óttaðist fordæmisgildi ef samið væri um það að menn gætu tekið með sér áunnin réttindi úr gömlum félögum sínum og fært yfir í nýtt félag. Ég held reyndar að sjúkraliðarnir hafi í bréfi sínu til félmrh. sjálfir svarað þessari fyrirspurn með því að benda á á hvaða hættulega braut er stefnt þegar verið er að semja um mismunandi launasvæði og ólík réttindi eftir því hvar menn starfa á landinu. Undir það vil ég taka. Það er það fordæmisgildi sem þetta gæti haft á aðra samninga sem við eigum eftir að taka þátt í.
    Þá er í lokin spurt að því hvort ég sé sammála þeirri skoðun Birgis Guðjónssonar, sem er formaður samninganefndar ríkisins, að ekki sé hægt að gera tvo samninga við eitt stéttarfélag. Nú veit ég ekki

hvort Birgir hefur haldið slíku fram en ég get verið sammála honum að því leyti að ég tel að það eigi að vera einn samningur við hvert stéttarfélag og held að ekki sé langur vegur á milli minnar skoðunar í þeim efnum og annarra sem um þessi mál hafa fjallað.
    Hv. þm. lauk síðan máli sínu með áskorun á mig um að ég skipað samninganefnd ríkisins að boða strax til fundar. Ég vil láta það koma fram að samninganefnd ríkisins er tilbúin til að koma til fundar við sjúkraliða um leið og látið er af þeim aðgerðum sem nú eru uppi. Við teljum þær aðgerðir ólögmætar. Um það er deila. Þegar slík deila kemur upp höfum við dómstól sem er Félagsdómur og getur skorið úr um hana. En ég hygg að öllum sé fyrir bestu: sjúkraliðum, ríkinu og ekki síst sjúklingunum, ef horfið verður aftur til þess að taka upp kjarasamninga. Það getur gerst um leið og af þessum aðgerðum er látið. (Forseti hringir.)
    Virðulegur forseti. Ég er að ljúka máli mínu. Okkur sem erum í ríkisstjórn ber auðvitað skylda til að halda á hagsmunum samkvæmt lögum. Ef deilur eru uppi um það hvort aðgerðir eru lögmætar eða ekki höfum við dómstól til að skera úr þeim ágreiningi. En ég vil að það komi skýrt fram að við viljum að samningaviðræður geti hafist sem fyrst og það tilboð mun að sjálfsögðu standa.