Samkeppnislög

68. fundur
Miðvikudaginn 02. desember 1992, kl. 21:00:00 (2892)

     Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. frá efh.- og viðskn. um frv. til samkeppnislaga. Um þetta frv. hefur verið fjallað mikið í nefndinni og hafa verið fengnar umsagnir frá margvíslegum aðilum sem upp eru taldir í nál. og eins hafa verið kallaðir á fund nefndarinnar margir aðilar sem sömuleiðis er þar getið um.
    Ég vil sérstaklega þakka meðnefndarmönnum mínum fyrir vandaða og faglega umfjöllun um þetta mál. Sú umfjöllun hefur skilað sér í nokkrum brtt. við frv. sem ég held að séu til mikilla bóta og verða til þess að þessi samkeppnislagabálkur, sem við afgreiðum hér væntanlega á næstu vikum, verður með merkari lagasetningu sem þetta þing kemur til með að koma í gegn.
    Ég vil taka á tveimur atriðum sem rædd voru í nefndinni en nefndin flytur ekki sérstakar brtt. um. Annars vegar var rætt um það hvort rétt væri að banna svokallaðar leiðbeinandi gjaldskrár. En eins og frv. er sett fram gerir það ráð fyrir því að leiðbeinandi gjaldskrár séu bannaðar. Niðurstaða nefndarinnar var sú að láta það ákvæði frv. standa en taka fram að það er ekki ætlunin að banna athuganir á rekstrarkostnaði í einstökum starfsgreinum.
    Hins vegar var rætt um það hvort það ætti að hafa svokallaða minni háttar reglu tengda einhverri ákveðinni hlutfallstölu eða prósentu af markaðshlutdeild. Um þetta er fjallað í 13. gr. frv. Það varð niðurstaða nefndarinnar eftir allmiklar umræður að breyta ekki ákvæðum frv. að þessu leyti og setja ekki nein tiltekin mörk í frv. sjálfu. Hins vegar gerir nefndin ráð fyrir því að samkeppnisráð setji sér slíkar reglur sjálft. Ég mun nú fara yfir þær brtt. sem nefndin gerir.
    Við 1. gr. gerir nefndin þá tillögu að markmiðssetning laganna sé aðeins öðruvísi orðuð en kom fram í frv. Markmið laganna verði að vinna gegn óhæfilegum hindrunum og takmörkunum á frelsi í atvinnurekstri, að vinna gegn óréttmætum viðskiptaháttum, skaðlegri fákeppni og samkeppnishömlum og auðvelda aðgang nýrra keppinauta að markaðnum. Þessi þrjú markmið verði markmið laganna.
    Við 3. gr. er eftirfarandi brtt.: ,,Við 2. mgr. bætist: sbr. þó ákvæði XI. kafla um reglur og viðskipti á sameiginlegum markaði Evrópska efnahagssvæðisins.`` 3. mgr. falli brott en í henni var allvíðtæk reglugerðarheimild til ráðherra sem nefndin telur að sé ekki til fyrirmyndar í lagasetningu, þ.e. að slíkar heimildir eigi að vera sem allra minnstar.
    Við 4. gr. er brtt. þar sem kemur fram skilgreining á hugtakinu ,,markaðsráðandi staða``. Markaðsráðandi staða verði skilgreind þannig: ,,Markaðsráðandi staða er þegar fyrirtæki hefur þann efnahagslega styrkleika að geta hindrað virka samkeppni á þeim markaði sem máli skiptir og það getur að verulegu leyti starfað án þess að taka tillit til keppinauta, viðskiptavina og neytenda.`` Enn fremur að í stað orðsins ,,endurgreiðslu`` í skýringu hugtaksins ,,neytandi`` í fyrri mgr. komi: ,,endurgjaldi``. Í c-lið brtt. stendur: ,,Í stað orðins ,,viðskiptaráðherra`` í síðari málsgrein komi: samkeppnisráð.`` Þar er sem sé verið að segja að rísi ágreiningur um hugtök skuli það falla undir samkeppnisráð og síðan sé hægt að áfrýja þeim úrskurði til áfrýjunarnefndar.
    Í 5. gr. frv. er fjallað um hlutverk samkeppnisráðs og þar er lagt til í brtt. að hlutverkið verði sem

þar segir:
  ,,a. að framfylgja boðum og bönnum laga þessara og leyfa undanþágur samkvæmt þeim,
    b. að ákveða aðgerðir gegn samkeppnishamlandi hegðun fyrirtækja og óréttmætum viðskiptaháttum,
    c. að stuðla að auknu gagnsæi markaðarins,
    d. að gæta þess að aðgerðir opinberra aðila takmarki ekki samkeppni og benda stjórnvöldum á leiðir til þess að gera samkeppni virkari og auðvelda aðgang nýrra samkeppnisaðila að markaði,``
    Þetta er sem sagt fyrst og fremst nánari skilgreining á hlutverki samkeppnisráðs.
    Við skipan ráðsins eru gerðar tillögur um breytingar. Nefndin telur rétt að ráðherra skipi í samkeppnisráð fimm menn og jafnmarga til vara en það verði ekki háð tilnefningu utanaðkomandi aðila, svo sem hagsmunasamtaka eins og Vinnuveitendasambandsins og Alþýðusambandsins, en frv. gekk út á það. Síðan er gert ráð fyrir því að skipunartími samkeppnisráðs verði fjögur ár í senn og að það sé ekki skipt um formann jafnvel þótt ríkisstjórnarskipti verði, eins og gert var ráð fyrir í frv. heldur verði skipunartími fjögur ár. Það telur nefndin rétt með tilliti til þess að meiri festa verði í meðferð mála hjá samkeppnisráði.
    Í 7. gr. er gert ráð fyrir að 5. mgr. falli brott þar sem eru sérstakar heimildir til skipunar sérstakra ráðgjafarnefnda en ekki er talin þörf á því að hafa slíkt í lagasetningu.
    Við 8. gr. er gert ráð fyrir að stytta frest niður í sex vikur og að ráðherra skipi forstjóra Samkeppnisstofnunar til sex ára að fenginni umsögn samkeppnisráðs og hann stjórni rekstri hennar. Það sem er nýtt í þessu er að umsögn samkeppnisráðs þurfi þarna að koma til.
    Við 9. gr., sem fjallar um svokallaða áfrýjunarnefnd, er gert ráð fyrir breytingu þannig að nefndin verði skipuð af ráðherra samkvæmt tilnefningu frá Hæstarétti og að skipunartími hennar sé sá sami og skipunartími samkeppnisráðs. Þetta er breyting frá því sem var í frv. þar sem ráðherra átti að skipa í nefndina.
    Við 11. gr. leggjum við til að heimild Samkeppnisstofnunar þurfi til að setja hármarksverð og eins að nýr málsliður komi sem tekur fram að þess skuli gætt að ákvörðun um hámarksverð takmarki ekki óhæfilega svigrúm til álagningar á endursölustigi og valdi ekki hærra verði. Þetta var sett inn til þess að koma í veg fyrir að hægt væri að beita óeðlilegum brögðum til að minnka smásöluálagningu eða það væri í raun verið að halda uppi verði en ekki að lækka það sem er markmiðið með þessari breytingu.
    Við 13. gr. er brtt. þar sem ,,Samkeppnisstofnun`` er breytt í ,,samkeppnisráð``. Það er einfaldlega spurning um að það sé ráðið sem fjallar um málið sem þar er um að ræða en ekki stofnunin.
    Í 14. gr. er gerð mikilvæg brtt. sem skýrir sig sjálf. Það er ný málsgrein, svohljóðandi:
    ,,Þegar um er að ræða opinbert fyrirtæki eða fyrirtæki sem starfar að einhverju leyti í skjóli opinbers einkaleyfis eða verndar er samkeppnisráði heimilt að mæla fyrir um fjárhagslegan aðskilnað annars vegar á milli þess hluta rekstrar fyrirtækisins sem nýtur einkaleyfis eða verndar og hins vegar þess hluta rekstrar sem er í frjálsri samkeppni við aðra aðila. Skal þess gætt að samkeppnisrekstur sé ekki niðurgreiddar af einkaleyfis- eða verndaðri starfsemi.``
    Við 15. gr. er sú brtt. að í stað orðanna ,,nytjaleyfishafi og nytjaleyfisnotandi`` komi: rétthafi og nytjaleyfishafi. Nefndin fékk um þetta lærða umsögn og þarna mun vera rétt notkun á hugtökum. Orðið ,,vörumerki`` falli síðan síðan brott.
    Við 16. gr. eru brtt. þar sem ný mgr. bætist við:     ,,Undanþágur samkvæmt þessari grein mega ekki hamla samkeppni meira en nauðsynlegt er og geta þær verið bæði ótímabundnar og veittar tímabundið. Hægt er að setja frekari skilyrði fyrir undanþágu.``
    Samkvæmt frv. má samkeppnisráð veita undanþágu frá bannákvæðum samkvæmt 10., 11. og 12. gr. frv. og þar eru skilyrði tekin fram í frumvarpstextanum.
    Við fyrri mgr. 17. gr. bætist nýr stafliður, c-liður, svohljóðandi: ,,óhæfilegri notkun á kaupbæti.`` Þetta er sett inn vegna þess að felldar eru niður greinar, 26. og 27. gr., þar sem fjallað er um kaupbæti.
    Síðan er b-liður í 14. brtt. sem fjallar um að við síðari málslið síðari mgr. komi svohljóðandi viðbót: ,,enda verði að mati samkeppnisráðs ekki með öðru móti komið í veg fyrir skaðleg áhrif á samkeppni í viðkomandi grein.``
    18. gr. frv. er lykilgrein í frv. og það sem er kannski hvað mest nýmæli að í þessari lagasetningu. Sú grein er umorðuð fyrst og fremst til þess að fyrirtæki geti leitað álits samkeppnisráðs fyrir fram á því hvort yfirtaka eða samruni brjóti í bága við ákvæði þessara laga. Nefndin vill að greinin orðist svo:
    ,,Telji samkeppnisráð að samruni fyrirtækja eða yfirtaka fyrirtækis á öðru fyrirtæki leiði til markaðsyfirráða þess, dragi verulega úr samkeppni og sé andstæð markmiði laga þessara getur ráðið ógilt samruna eða yfirtöku sem þegar hefur átt sér stað. Samkeppnisráð getur einnig sett slíkum samruna eða yfirtöku skilyrði sem verður að uppfylla innan tilskilins tíma. Sama á við ef eigendur með virk yfirráð í einu fyrirtæki ná virkum yfirráðum í öðru fyrirtæki þannig að slíkt valdi markaðsyfirráðum, hamli samkeppni og brjóti í bága við markmið laganna. Við mat á lögmæti samruna eða yfirtöku skal samkeppnisráð taka tillit til þess að hvaða marki alþjóðleg samkeppni hefur áhrif á samkeppnistöðu hins sameinaða fyrirtækis.
    Ákvörðun um ógildingu skal taka eigi síðar en tveimur mánuðum eftir að samkeppnisyfirvöldum

varð kunnugt um samrunann eða yfirtökuna.
    Aðilar sem hyggja á samruna eða yfirtöku geta leitað álits samkeppnisráðs fyrir fram á því hvort samruninn eða yfirtakan brjóti gegn ákvæðum 1. mgr. Hafi samkeppnisráð ekki svarað slíkri fyrirspurn innan sex vikna frá því að samkeppnisyfirvöldum barst hún verður samruninn eða yfirtakan ekki ógilt nema samkeppnisráð hafi verið leynt upplýsingum sem máli skiptu um mat ráðsins á lögmæti athafnarinnar.
    Ákvæði 3. mgr. ná einnig til þess þegar eigendur um virk yfirráð í einu fyrirtæki hyggjast ná virkum yfirráðum í öðru fyrirtæki og óska eftir vitneskju um hvort slíkt brjóti gegn 1. mgr.``
    Þetta er sem sagt lykilgrein í frv. Þarna er auk þess að leita megi fyrir fram álits samkeppnisráðs einnig búið að taka inn tillögu þess efnis að taka þurfi inn í myndina hvort viðkomandi aðili er í alþjóðlegri samkeppni og hvort slík alþjóðleg samkeppni breyti einhverju um eðli málsins.
    Við 19. gr. er talað um að komi nýr málsliður en 19. gr. fjallar um að samkeppnisráð eða Samkeppnisstofnun geti fjallað um ákvæði laga og stjórnvaldsfyrirmæla annarra en beinlínis falla undir það. Ef samkeppnisráð hefur það álit að einhver lög brjóti gegn anda þessara laga á að birta slíkt álit almenningi á fullnægjandi hátt, t.d. með fréttatilkynningu til fjölmiðla eftir að það hefur verið kynnt ráðherra.
    Við 23. gr. er lagt til að bætist ný málsgrein svohljóðandi: ,,Skilmálar þjónustuaðila, sem bjóða þjónustu sína á íslenskum markaði, t.d. flutnings- og vátryggingaskilmálar, skulu undantekningarlaust vera á íslensku.``
    Það er lagt til að 26. og 27. gr. falli brott og við ræddum það fyrr. Við 36. gr. eru smávægilegar brtt., þ.e. að í stað orðanna ,,skal Samkeppnisstofnun afla`` komi: aflar Samkeppnisstofnun. Síðan komi nýr málsliður svohljóðandi:
    ,,Samkeppnisráð skal setja Samkeppnisstofnun verklagsreglur um öflun slíkra upplýsinga, meðferð þeirra og birtingu.`` Hér er átt við að þegar Samkeppnisstofnun gerir verðkannanir og samanburð á verðlagningu á vörum og þjónustu setji samkeppnisráð verklagsreglu til þess að reyna að tryggja eftir sem kostur er að vinnubrögð séu fagleg og gefi eðlilega mynd af þeim markaði sem í hlut á.
    Við 37. gr. eru brtt. Síðari málsliður orðist svo:     ,,Skal þess gætt að viðskiptahættir séu sambærilegir hér við það sem almennt gerist í helstu viðskiptaríkjum Íslendinga.`` Hér er sem sé átt við að greiðslukortastarfsemi hér lúti sambærilegum viðskiptaháttum og annars staðar gerist.
    Talað var um að 40. gr. sé óþörf og því falli hún niður.
    Við 41. gr. gerir nefndin að tillögu sinni að síðari málsliður síðari mgr. falli brott. Þessi grein fjallar um verðstöðvun. Samkvæmt frv. eins og það var var gert ráð fyrir því að ef hægt væri að framlengja verðstöðvun umfram þrjá mánuði þyrfti þáltill. Nefndin telur að Alþingi muni bregðast við þessu ástandi sjálfstætt og þurfi þetta ekki í lagatextann ef slíkt ástand skyldi skapast sem vonandi verður aldrei.
    Í 43. gr. er gert ráð fyrir því að Samkeppnisstofnun þurfi að fylgja ákvæðum laga um meðferð opinberra mála um leit og hald á munum þegar slíkt er nauðsynlegt.
    Við 44. gr. er gerð smáathugasemd og brtt. þannig að fyrri mgr. hljóði svo: ,,Skylt er þeim sem um er beðinn að veita eftirlitsstofnun EFTA (ESA) og dómstóli EFTA þær upplýsingar sem þessum stofnunum er nauðsynlegt að afla sér til að unnt sé að framkvæma samninginn um Evrópskt efnahagssvæðið og samning EFTA-ríkja um eftirlitsstofnun og dómstól að því er varðar samkeppnismál. Sama gildir um framkvæmd fyrirmæla sem gefin eru með heimild í 51. gr.``
    Þetta er sem sagt fyrst og fremst spurning um framkvæmd samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði, en hér erum við að fjalla um XI. kafla frv. sem fjallar um áhrif samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði á íslenska samkeppnislöggjöf.
    Síðan hefur í 46. gr. orðið smáruglingur þar sem gleymst hefur að segja að framkvæmdastjórn EB ætti í hlut.
    Við 47. gr. eru smábreytingar líka, þannig að 1. mgr. verður svohljóðandi:
    ,,Eftirlitsstofnun EFTA og EFTA-dómstólnum er heimilt að leggja sektir á fyrirtæki, samtök fyrirtækja eða einstaklinga fyrir brot af ásetningi eða gáleysi á 53., 54. eða 57. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, svo og á ákvæðum bókunar 4 með samningi milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls eða á reglum sem settar eru með heimild í 51. gr. þessara laga.`` --- Síðan kemur þarna ný málsgrein inn: ,,Sama gildir um framkvæmdastjórn EB og dómstól EB í þeim tilvikum sem þessir aðilar fara með lögsögu máls samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.``
    Við 50. gr. eru brtt., þ.e. orðalagsbreyting þar sem vantaði inn í greinina.
    Í 52. gr. erum við komin í almenn ákvæði laganna þar sem er verið að fjalla um viðurlög og þess háttar. Þar komi ný málsgrein inn:
    ,,    Samningsákvæði, sem teljast hafa efnislegt og efnanlegt sjálfstæði frá þeim ákvæðum sem brutu í bága við bannákvæði laga þessara, teljast þó gild. Ágreiningi varðandi þetta atriði má skjóta til samkeppnisráðs innan mánaðar frá því að samningur var ógiltur skv. 1. mgr.``
    Hér er verið að taka það fram að það geta verið tilteknin atriði í samningum sem menn gera sem eru ólögleg en önnur fyllilega gild og óeðlilegt að rifta þótt það sé kannski hluti af samningsákvæðum sem eru ólögleg. Síðan eru sett bönd á dagsektir í viðurlagakaflanum og það er brtt. við 54. gr.
    Í 55. gr. er verið að takmarka stjórnvaldssektir við 10% af veltu hjá þeirri starfsemi sem í hlut á hjá hverju fyrirtæki eða samtökum fyrirtækja sem aðild eiga að samkeppnishömlum.

    Í 57. gr. hefur orðið ruglingur þar sem orðið ,,áfrýjun`` á ekki að vera heldur: ákvörðun.
    Við 60. gr. er brtt. þar sem verið er að vísa í 68. gr. almennra hegningarlaga.
    Síðan hafa orðið þau leiðindamistök við samningu frv. að gildistökuákvæði var sett í viðurlagakaflann. Það er tillaga nefndarinnar að á undan gildistökuákvæðinu komi kaflaheiti en það sé ekki hluti af refsiákvæðum laganna að þau taki gildi.
    Í 62. gr. er gert ráð fyrir því að lögin taki gildi 1. mars nema XI. kafli laganna sem öðlist gildi um leið og Evrópska efnahagssvæðið.
    Síðan koma tvær tillögur um breytingar við ákvæði til bráðabirgða:
    ,,Ákvæði um tímabundna ráðningu forstjóra Samkeppnisstofnunar skv. 2. mgr. 8. gr. gildir ekki um ráðningu þess einstaklings sem skipaður er í starf verðlagsstjóra við gildistöku laga þessara og tekur hann við starfi forstjóra Samkeppnisstofnunar ef hann svo kýs.
    Um leið og lög þessi ganga í gildi hættir störfum það verðlagsráð sem skipað var af viðskiptaráðherra 1. nóv. 1991. Þær ákvarðanir verðlagsráðs, sem í gildi eru þegar lög þessi koma til framkvæmda, skulu þó gilda áfram þar til samkeppnisráð ákveður annað.``
    Ég hef farið yfir þær brtt. sem efh.- og viðskn. hefur orðið sammála um. Undir þetta rituðu allir nefndarmenn en þó með sumir fyrirvara og Steingrímur J. Sigfússon mun flytja brtt. við frv. um takmörkun á eignaraðild í samgöngufyrirtækjum og síðan mun einnig vera á leiðinni tillaga til breytinga frá Inga Birni Albertssyni sem var ekki viðstaddur endanlegan frágang málsins.
    Ég vil endurtaka þakkir mínar til nefndarmanna fyrir mjög góða samvinnu í vinnslu þessa máls og vona að þetta frv. verði að lögum fyrir jólin því þetta er sannarlega tímamótalöggjöf í viðskiptum á Íslandi.