Samkeppnislög

68. fundur
Miðvikudaginn 02. desember 1992, kl. 21:44:14 (2894)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Það fer vel á því að við Íslendingar skulum gera að lögum nútímaleg ákvæði um samkeppni sem m.a. innihalda ákvæði sem eiga að tryggja virka samkeppni á markaði og hindra markaðsyfirráð og yfirtökur fyrirtækja í því skyni að koma í veg fyrir skaðlega einokun og annað. Nú árið 1992 eru rétt rúm 100 ár liðin síðan fyrsta löggjöf af þessu tagi sem markaði mikil tímamót tók gildi. Það var þegar hringalöggjöfin bandaríska, stundum kennd við Sherman nokkurn, tók gildi árið 1890 og æ síðan hafa í amerískum lögum og síðan í framhaldinu á fyrstu áratugum þessarar aldar víða annars staðar verið í gildi

í löggjöf ákvæði af þessu tagi, víðast hvar annars staðar á Vesturlöndum fyrir utan Ísland þar sem lagaákvæðum af þessu tagi hefur verið ákaflega áfátt. Lítil umræða farið fram um það hér á landi á hverju menn ætluðu að byggja nauðsynlega vernd og nauðsynlegar tryggingar gagnvart því að nægjanleg samkeppni væri fyrir hendi þar sem því fyrirkomulagi, frjálsri samkeppni, væri ætlað að tryggja frjálsa verðmyndun. Ég held að við Íslendingar höfum verið afskaplega hálfvolgir í þessum efnum, auðvitað af ýmsum ástæðum sem eru ósköp skiljanlegar. Menn hafa að nafninu til talið sig eiga að byggja á samkeppnisforsendum í viðskiptalífi en hafa þó aldrei verið nema eins og hálfvolgir í þeim efnum.
    Ég hef alllengi verið þeirrar skoðunar eftir að ég fór að hugsa um þessi mál að við hefðum að mörgu leyti verið með versta fyrirkomulag sem hægt er að hafa í þessum málum, þ.e. það hefur átt að heita svo að hér væri frjáls samkeppni og frjálst verðlag og samkeppnin tryggði verðmyndunina með fullnægjandi hætti. Menn hafa hins vegar meira og minna lokað augunum fyrir því að svo er alls ekki nema á mjög afmörkuðum sviðum og þegar maður fer að hugsa málið er kannski erfitt að finna í íslenskum viðskiptum yfir höfuð eitt einasta svið þar sem þetta gildir nokkurn veginn með fullnægjandi hætti nema ef vera skyldi smásöluverslun í Reykjavík. Í raun og veru er fátt annað í viðskiptum okkar í landinu sem ég held að megi segja með sæmilegum rétti að standist fullkomlega í öllu tilliti kröfurnar um þannig samkeppnisumhverfi að því megi treysta að sæmilega heilbrigð, frjáls verðmyndun og nægjanleg samkeppni tryggi heilbrigt ástand. Þetta finnst mönnum kannski nokkuð mikið sagt en ég gæti út af fyrir sig fært veruleg rök fyrir þessu ef menn vilja. Er t.d. almennt nægjanleg samkeppni í verslun úti um landsbyggðina til þess að hægt sé að fullyrða að þar sé eðlileg verðmyndun og samkeppni tryggi mönnum hóflega álagningu, komi í veg fyrir það ef einhver vill misnota aðstöðu sína og raka til sín gróða í krafti þess að hann hefur nánast einokunaraðstöðu? Ég óttast því miður að meira og minna öll vöruverslun úti um landið yrði dæmd af ef hún yrði lögð undir slíkan dóm. Er hérna fullnægjandi samkeppni í tryggingarstarfsemi, olíudreifingu, bankastarfsemi o.s.frv. til þess að við getum sagt með fullum rétti: Þetta er í lagi, það er eðlileg verðmyndun í þessari þjónustu út um allt land vegna þess að það er nægjanleg samkeppni? Svari sér hver sjálfur. Í velflestum byggðarlögum utan nokkra stærstu kaupstaðanna er ein bankastofnun svo dæmi sé tekið og þannig má áfram telja.
    Mér er það mjög ljóst og vonandi fleirum að löggjöf af þessu tagi breytir ekki hinum efnislegu aðstæðum á Íslandi. Þær verða áfram fyrir hendi. Hér verður áfram þröngur markaður og lokaður, hér verður mikið strjálbýli og fámenni o.s.frv. En þá er það nú engu að síður þannig að það er a.m.k. gott að menn opni augun og geri sér grein fyrir því í hvernig umhverfi þessi mál eru. Það held ég að sé að nokkru leyti gert með þessu frv., það sé til bóta í þeim efnum að segja má að það skilgreini aðstæður og forsendur samkeppni og hvenær hún teljist fullnægjandi og hvenær ekki. Að vísu er með þessu frv. ekki nema hálf sagan sögð þótt að lögum verði. Það sem mun mestu máli skipta er hvort hið nýja samkeppnisráð beitir heimildum þessara laga þannig að það komi neytendum að gagni vítt og breitt um landið. Lögin geta að sjálfsögðu orðið steindauður bókstafur og þess vegna skipt sáralitlu eða engu máli ef þeim verður ekki beitt þannig að af þeim verði gagn. M.a. þess vegna hef ég talað fyrir breytingu á þessu frv. sem hefur vegna prentunarmistaka því miður ekki náðst inn en ég held að ég megi fullyrða það hér fyrir hönd nefndarinnar að við vorum öll sammála orðin um að gera slíka breytingu og það verður þá að leysa úr því annaðhvort með flutningi viðbótarbrtt. við þessa umræðu eða þá 3. umr. Það varðar upphaf 17. gr. laganna og það er best að ég byrji þá á því. Þar sem ég taldi að við hefðum orðið sammála um að til viðbótar þeim skilyrðum eða aðstæðum sem þurfa að vera fyrir hendi til þess að samkeppnisráð geti beitt íhlutun eða gripið til aðgerða þyrftu einfaldlega að koma aðstæður sem geta verið fyrir hendi í viðskiptalífinu og gera það að verkum að samkeppnisráð verður að grípa til ráðstafana. Upphaf 17. gr. hljóðar svo í frv., með leyfi forseta:
    ,,Samkeppnisráð getur gripið til aðgerða gegn samningum, skilmálum og athöfnum sem hafa skaðleg áhrif á samkeppni. Hin skaðlegu áhrif geta m.a. falist í:`` og svo er það talið upp og íhlutunin getur falið í sér bann fyrirmæla eða heimild með ákveðnum skilyrðum. M.a. getur hún falið í sér að samkeppnisráð grípi til ákvörðunar um verð og viðskiptakjör.
    Þegar við fórum að athuga þetta betur sýndist okkur að inn í þessa grein vantaði heimild til handa samkeppnisráði til að bregðast við, ekki vegna einhverra sérstakra tiltekinna ákvarðana í fyrirtæki, ekki vegna samninga sem fyrirtæki hafi gert, ekki vegna einhverra skilmála eða athafna sem lægju fyrir og hægt væri að vísa í, heldur einfaldlega vegna aðstæðna sem menn gætu staðið frammi fyrir og kölluðu á það að gripið væri til aðgerða. Þar sem ekki hefði komið til yfirtaka á fyrirtæki eða ákvörðun um breytingu á verðlagningu eða annað því um líkt og um slíkar aðstæður sem einfaldlega eru eða geta þróast er unnt að taka mörg dæmi. Nefndin varð sammála um það að til þess að samkeppnisráðið væri ekki hindrað við slíkar aðstæður á grundvelli þess að 17. gr. væri of takmarkandi þyrfti þarna að koma til breyting sem bætti við orðinu ,,aðstæður`` eða ,,ástand``. Og ég vona að um þetta sé samstaða og þá tel ég það mjög mikilsverða viðurkenningu á þeim sérstöku aðstæðum sem við getum búið við hér á Íslandi í fámenni okkar og einangrun og með tilliti til þess hvað markaður okkar er lítill og sérhæfður.
    Ágætt dæmi um þetta er sementsverslun í landinu og sú staðreynd að Sementsverksmiðja ríkisins er í fullkominni einokunaraðstöðu án þess að hafa einkaleyfi ósköp einfaldlega vegna þess að fjarlægðarverndin sem hún nýtur og sú staða sem fyrirtækið hefur náð að byggja hér upp með dreifingarkerfi sínu

og öðrum aðstæðum hefur skapað því fullkomna einokunaraðstöðu en það er ekki hægt að vísa í neina einstaka ákvörðun stjórnar Sementsverksmiðjunnar. Sementsverksmiðjan hefur ekki keypt neitt fyrirtæki. En þessar aðstæður gætu þróast þannig að menn segðu: Það er óhjákvæmilegt að grípa í taumana. Fjölmargar aðrar slíkar aðstæður mætti tilgreina.
    Hæstv. forseti. Mér finnst mjög tímabært og þó fyrr hefði verið að við setjum löggjöf af þessu tagi, sæmilega myndarlega og heildstæða samkeppnislöggjöf Íslendinga rúmum 100 árum eftir að fræg ákvæði komu lög í öðrum löndum þessu skyld.
    Ég vil svo segja um starf nefndarinnar og þær brtt. sem hér liggja fyrir að ég tel að nefndin hafi unnið mjög vel að málinu, lagt í það ótrúlega mikla vinnu miðað við erfiðar aðstæður því að eins og hv. alþm. er sjálfsagt kunnugt, þá liggur ýmislegt fleira fyrir efh.- og viðskn. Svo ánægjulegt sem það nú er þá hefur orðið samstaða um þessar breytingar nánast án undantekninga og ég get því gert langt mál stutt með því að vísa í fyrsta lagi í framsöguræðu formanns nefndarinnar og það sem hann sagði hér um einstakar brtt. og sömuleiðis látið það nægja sem rökstuðning að í þessari ágætu nefnd hafi tekist samstaða um að gera þessar breytingar á frv. eftir mjög vandlega athugun. Ég ætla ekki að fara að flokka þær upp. Kannski má segja að þessar brtt. séu mismerkilegar, sumar eru minni háttar lagfæringar eðli málsins samkvæmt. Aðrar eru talsvert veigamiklar efnisbreytingar en ég ætla að leyfa mér að ræða um þær lítillega út frá því frv. til breytinga á lögum um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti sem ég hef verið flm. að í þinginu undanfarin tvö ár eða svo og sömuleiðis þeim brtt. sem ég lagði fram í upphafi þessa máls, þ.e. þegar frv. hafði komið fram í haust. Ein ástæða þess að ég stend að áliti nefndarinnar og er flm. að þessum brtt. er náttúrlega sú að ég er í öllum aðalatriðum mjög sáttur við það hvaða meðhöndlun þær ábendingar og brtt. sem ég kom með hafa fengið í þessari vinnu. Ég fagna því t.d. að það náðist samstaða um að setja inn í frv. skilgreiningu á því hvað teljist markaðsráðandi staða fyrirtækis. Í 1. umr. málsins gagnrýndi ég það að ég teldi það veikleika í frv. að ekki væri fyrir hendi til stuðnings samkeppnisráði í sínum störfum einhver tilraun til skilgreiningar á þessu mikilsverða hugtaki. Hún er komin hér inn í 3. brtt. nefndarinnar og ég held að hún sé alveg viðunandi. Ég tel tvímælalaust að það styrki stöðu samkeppnisráðs að taka á málum að hafa þessa skilgreiningu þarna inni.
    Ég tel einnig að breytingarnar sem gerðar eru á 1. gr. séu til bóta. Lögð er meiri áhersla á það hlutverk samkeppnisráðs að vinna gegn skaðlegri fákeppni og samkeppnishömlum en áður var og í þriðja lagi er komið inn nýtt ákvæði sem á að auðvelda aðgang nýrra keppinauta á markaðnum, sem er mjög mikilsvert, og þar með er það beinlínis orðið tilgangur laganna og hlutverk samkeppnisráðs að tryggja að eðlileg samkeppni og nauðsynleg endurnýjun geti átt sér stað m.a. í gegnum innkomu nýrra aðila á þetta svið viðskipta. Og hvað með það að setja sambærilegt ákvæði inn í kvótalögin þar sem búið er að loka heilli atvinnugrein?
    Í þriðja lagi hefur talsvert verið rætt um spurninguna um skilgreiningu varðandi hlutdeild á markaði, bæði svonefnda minniháttarreglu og eins hugsanlega ákveðið hámark sem rætt var um og er að finna í brtt. mínum. Niðurstaðan varð sú að slíkt verður ekki að finna í lögunum sjálfum en ég vænti þess að formaður hafi, eins og um var rætt í nefndinni, gert grein fyrir því hvernig það var hugsað af okkar hálfu að samkeppnisráð mundi sjálft setja sér reglur í þessu efni og ég held að það sé mjög skynsamlegt. Það er nefnd talan 15% markaðshlutdeild sem minniháttarregla, þ.e. að samkeppnisráð mundi ekki ergja sig með því að hafa áhyggjur af hræringum sem væru í hópi aðila hverra markaðshlutdeild væri undir þessum mörkum. Þetta held ég að gæti einfaldað starf ráðsins. Með nákvæmlega sama hætti tel ég að hámark gæti auðveldað starf ráðsins og einfaldað. Það mundi með sama hætti ósköp einfaldlega hafa þau áhrif að meðhöndlun fyrirtækja, sem færu yfir tiltekin mörk í markaðshlutdeild, breyttist sjálfkrafa. Það mundu loga gul aðvörunarljós og slíkir aðilar færast undir aukið eftirlit um leið og þeir yfirstigju þessi mörk. Ég hef nefnt dæmið um smásöluverslun hér á höfuðborgarsvæðinu og sameiningu verslanakeðjanna Hagkaup og Bónus, þá vildi nú svo skemmtilega til að þau mörk, sem ég hafði í huga, 33%, voru að fróðra manna sögn yfirstigin akkúrat með þessari sameiningu. Meira en þriðjungur smásöluverslunar á höfuðborgarsvæðinu komst í hendur þessarar keðju á sl. sumri og hefði slíkt ákvæði verið í lögum eða í vinnureglum samkeppnisráðs, sem hefur fullkomlega heimild til að setja sér slíkar reglur, hefði þessi keðja færst undir aukið eftirlit við þessa breytingu.
    Þá ætla ég að koma að brtt. sem ég flutti í fjórða lagi á þskj. 49, þ.e. 4. brtt. þar og var svohljóðandi á því þskj.: ,,Fyrirtæki, sem telst markaðsráðandi á einu sviði samgangna, er óheimilt að vera ráðandi aðili eða eiga stærri eignarhlut en 25% í öðrum fyrirtækjum sem starfa að samgöngum.``
    Nú er þar til að taka að þetta er eina brtt. á þskj. 49 frá mér sem alls ekki náðist nein efnisleg samstaða um hvernig meðhöndla skyldi í efh.- og viðskn. Meiri hlutinn þar féllst ekki á að taka þessa tillögu inn eða meðhöndla hana með öðrum þeim hætti að ég taldi fullnægjandi. Þess vegna varð að samkomulagi að ég mundi halda til streitu þessari einu tillögu en mun hins vegar kalla aftur við atkvæðagreiðslur aðrar brtt. á þskj. 49 með vísan til þess að ég er bærilega sáttur við hvernig meðhöndlan þær fengu í nefndinni þó að þær hafi auðvitað ekki allar náð fram að ganga og alls ekki allar orðrétt eða efnislega óbreyttar. Það er ekki aðalatriði málsins því að að sjálfsögðu get ég fallist á það í sumum tilvikum að þær séu teknar til greina með einhverjum öðrum hætti eða fallist á rök um að önnur tilhögun sé heppilegri. Ég hef þess vegna endurflutt þessa brtt. á þskj. 358 og lítillega breytta. Eftir nánari athugun

málsins hef ég talið skynsamlegra að orða hana svo, með leyfi forseta:
    ,,Við IV. kafla frv. bætist ný grein er verði 17. gr. og orðist svo:
    Fyrirtæki, sem telst markaðsráðandi á einu sviði samgangna, er óheimilt að vera ráðandi aðili eða eiga stærri eignarhlut en 25% í öðrum markaðsráðandi fyrirtækjum sem starfa að samgöngum.``
    Þessi tillaga gengur nú dags daglega undir nafninu kolkrabbatillagan svona til að menn hafi vinnuheitið á henni. Það er rétt að taka fram að IV. kaflinn þar sem þessi grein mundi koma er um bann við samkeppnishömlum. Síðan yrði í öðru lagi við gildistökuákvæði frv. bætt ákvæði sem kæmi þá í 62. gr. svohljóðandi: ,,Í því skyni að veita hæfilegan aðlögunartíma skulu ákvæði 17. gr. þó ekki öðlast gildi fyrr en 1. janúar 1995.`` Þetta mundi gefa tveggja ára aðlögunartíma að þessu tiltekna ákvæði laganna ef samþykkt verður.
    Með því sem nú er lagt til með þessari brtt. á þskj. 358 og sem kemur í staðinn fyrir brtt. á þskj 49 er í raun og veru tekið á þessum málum með enn afmarkaðri hætti en áður og eingöngu sagt: Markaðsráðandi fyrirtæki á einu sviði samgangna getur ekki verið ráðandi aðili eða átt stærri eignarhlut en fjórðung í öðru markaðsráðandi fyrirtæki sem starfar að samgöngum, þ.e. einhverju fyrirtæki sem er markaðsráðandi á öðru sviði samgangna. Þarna er eingöngu verið að einfalda ákvæðið til þess að það sé ekki hægt að finna því til foráttu að það gæti reynst flókið í framkvæmd eða gripið inn í minni háttar eignatengsl fyrirtækja í samgöngum eða ferðaþjónustu sem ekki skipta öllu máli.
    En hver eru þá rökin fyrir því að vera yfir höfuð að hafa áhyggjur af því að eitt markaðsráðandi fyrirtæki ráði öðru markaðsráðandi fyrirtæki kannski á öðru sviði samgangna? Þau eru tvíþætt að mínu mati.
    Ég tel í fyrra lagi að það sé alltaf óheppilegt að það myndist keðjur markaðsráðandi fyrirtækja. Ég tel að það sé mjög óheppilegt vegna þess að á hvaða sviði viðskipta sem er, ef fyrirtæki er orðið markaðsráðandi, hefur það svo sterka stöðu að það getur í krafti annarlegra viðskiptahátta, út á markaðsráðandi aðstöðu sína, tekið sér hagnað og flutt hann til yfir í aðra starfsemi og þar með haft bjagandi áhrif á samkeppnisaðstæður í alveg óskyldum viðskiptum. Það er óeðlilegt. Þetta höfum við auðvitað horft upp á hér og það er mál að því linni. En það tekur steininn úr ef það myndast keðja slíkra markaðsráðandi fyrirtækja.
    Síðan er í öðru lagi sérstök ástæða til að hafa áhyggjur af þessum efnum ef um samgöngur er að ræða. Og hvers vegna er það? Það er vegna þess að hin einstöku samgöngusvið eru í raun og veru rétt eins og hver önnur fyrirtæki í samkeppni. Þau þurfa að geta keppt á sæmilega heilbrigðum grundvelli sín á milli. Það vill svo til að ég er orðinn slíkur markaðshyggjumaður að ég tel að það sé að mörgu leyti nauðsynlegt og heilbrigðast að samgöngumálin þróist í gegnum sæmilega heilbrigðar samkeppnisforsendur hinna einstöku sviða með þeim fyrirvara þó að t.d. vegna umhverfissjónarmiða gætu menn viljað hafa áhrif á hvernig hin einstöku samgöngusvið byggjast upp eða þróast. Og það er auðvitað réttmæt sjónarmið, sem eiga fullan rétt á sér, að geta að öðru leyti gripið inn í þróun sem byggist upp á samkeppnisforsendum. Alveg eins og annars staðar verðum við auðvitað að svara þeirri grundvallarspurningu: Ætlum við að láta samkeppni ráða? Ætlum við að reyna að láta samkeppni ráða verðlagningu flutninga á vörum og fólki í landinu og ef við ætlum að gera það á þá ekki sú samkeppni að ríkja bæði milli fyrirtækja á hverju sviði samgangna en líka á milli samgöngusviðanna þannig að flutningar á landi, sjó og í lofti geti keppt og það sé hagkvæmni hverrar samgönguaðferðar sem í raun og veru ráði hlutdeild hennar í markaðnum? Ef menn eru almennt ekki svona markaðssinnaðir eins og ég þá tek ég auðvitað mark á því en mér finnst það dálítið sérkennileg örlög ef það dæmist á mig að standa hér og flytja fram þessi rök og aðrir komi þá hér upp jafnvel úr öðrum flokkum og fari að draga úr því. Ég held að það sé mjög hættulegt að þróun samgangna, sem er einn allra mikilvægasti grundvöllur framtíðarinnar varðandi framsókn og þróun í atvinnumálum og reyndar líka í mannlegum samskiptum og félagsmálum o.s.frv., geti með einhverjum hætti orðið annarleg eða bjöguð vegna þess að við hér á Íslandi búum við einhverjar sérstakar fákeppnis- og einokunaraðstæður og það séu óheilbrigð tengsl á milli markaðsráðandi risa á hinum ólíku sviðum samgangna. Og ég verð líka að segja alveg eins og er, hæstv. forseti, að ef menn eru ekki tilbúnir, ekki einu sinni tilbúnir til að reyna að setja einhverjar skorður með ákvæði af þessu tagi þá held ég að menn séu ekki tilbúnir til að gera neitt og þá eiga menn að hætta þessum ræðum um kolkrabbann. Þá eiga menn aldrei að flytja þær oftar. Og ég segi við þá menn sem mundu hugsa sér að fella þessa brtt. eða væru ekki tilbúnir til að standa að henni: Þið skuluð þá líka pakka fleiru niður í skúffu en þessari tillögu. Þið skuluð líka stinga ræðunum um kolkrabbann undir stól, a.m.k. í nokkur ár. Þetta er ákaflega mild ráðstöfun að mínu mati til þess að hafa þarna viss áhrif og svo talað sé alveg tæpitungulaust, þá gæti hún haft þau áhrif að samkeppnisráð kæmist að þeirri niðurstöðu að á sínu sviði væri Eimskipafélag Íslands markaðsráðandi, og er nú trúlegt, og enn frekar held ég að niðurstaðan yrði sú að á sínu sviði væru Flugleiðir hf. markaðsráðandi sem er nú eina millilandaflugfélag landsmanna sem nafn er gefandi. Þess vegna væru þarna tveir markaðsráðandi risar hvor á sínu sviði samgangna og þeir gætu þess vegna ekki eða mættu ekki eiga stærri eignarhlut en fjórðung hvor í öðrum og ekki vera með ráðandi aðstöðu í stjórn fyrirtækjanna. Kæmi þá til tveggja ára aðlögunartími samkvæmt lögunum til að undirbúa þessa aðila undir það og áhrifin yrðu væntanlega þau t.d., svo þetta dæmi sé tekið sem er náttúrlega nærtækt og e.t.v. það eina sem er raunhæft, að sá aðili sem í dag á stærri eignarhlut en þessu nemur í öðru fyrirtækinu yrði að minnka hann niður fyrir þessi mörk. Ég segi aftur, ef menn eru ekki tilbúnir í þetta, ef menn bara vilja hafa þetta svona, þá kemur það í ljós og þá það. En þá vita menn það líka hvað menn meina með ræðuhöldum sínum um þessi mál.
    Það er nokkur skaði, hæstv. forseti, að við skulum vera að ræða þetta hér og það er ekki einn einasti krati í þingsalnum. Ég spyr að því, er t.d. hinn vígreifi . . .   ( Forseti: Ég vil benda á hæstv. heilbrrh.) Jú, hann var það síðast þegar ég frétti, það er rétt. Ég biðst velvirðingar, þarna urðu mér á mistök. En viðskrh. var genginn út og þess vegna áttaði ég mig bara ekki á því að það væri enn hér einn alþýðuflokksmaður. En ég hef heyrt dálítið af svona ræðum frá þeim. Hélt t.d. núv. formaður, hæstv. utanrrh., ekki fundi, Hver á Ísland, og hafði talsvert hátt um þessi mál hér á árunum? Og þeir fleiri alþýðuflokksmenn eins og hv. formaður þingflokksins, 17. þm. Reykv., sem hefur talað býsna hátt á stundum. Og nú reynir á hver hugur fylgir máli. Hér fá þeir prýðistækifæri til þess að sýna hug sinn í verki með því að styðja þessa einföldu tillögu.
    Ég tek það svo fram að lokum, hæstv. forseti, að þó að ég flytji þessa brtt. hér þá er það ekki vegna þess að mér sé sérstaklega í nöp við þessi fyrirtæki sem gjarnan verða því miður fyrir því að vera sérstaklega nefnd í þessu sambandi. Ég þekki ágætlega til þeirra beggja af vissum ástæðum og veit að þarna eru dugnaðarmenn á ferð og ég er ekki heldur að halda því fram að þeir hafi í sjálfu sér með sérlega ósvífnum hætti eða yfir höfuð misbeitt sinni aðstöðu gróflega. Ég held að þetta snúist ekki um það. Það er alveg ástæðulaust að drepa umræðuna á dreif með því að fara út í það að setja þetta upp sem einhvern rannsóknarrétt yfir Eimskipafélaginu og Flugleiðum. Spurningin er bara um það hvort menn vilja að svona aðstæður séu fyrir hendi eða ekki hver sem í hlut á. Og ég held fast við það að það er óæskilegt, það er óheppilegt að svona hagsmunatengsl ríki milli aðila sérstaklega á samgöngusviðinu vegna þess hversu mikilvægt er að það þróist og byggist upp sem allra öflugastar og fjölbreyttastar samgöngur fyrir þjóðina, bæði innan lands og milli landsins og annarra landa. Það er ekki hægt að horfa fram hjá því að í svona tengslum geta falist hættur varðandi þróunina, varðandi ákvarðanir fyrirtækjanna um fjárfestingar og uppbyggingu og ég hef nefnt hér áður og ég nefni enn dæmið um fraktflutninga í lofti til og frá landinu. Það væri blindur maður sem ekki sæi það að í þeirri stöðu að markaðsráðandi aðili hvað snertir flutninga á sjó til og frá landinu skuli vera ráðandi í eina flugfélagi landsmanna felast hættur. Það felast m.a. þær hættur að þá sé verkum skipt þannig að menn séu ekkert sérstaklega að slíta sér út við fraktflutninga í lofti. Hvers vegna ættu þeir að vera að því þegar þeir hafa þetta allt saman í þægilegum farvegi í skipunum sínum nú þegar og græða ágætlega á því? Til hvers þá að vera að keppa við sjálfa sig með því að byggja upp fraktflutningaleiðir til og frá landinu í lofti? Menn hljóta bara að horfa á það að þessar aðstæður eru svona. Og menn skulu ekkert vera að drepa umræðunni á dreif með því að spyrja: Já, en gera þeir þetta? Er þetta svona? Það skiptir ekki máli. Þessar aðstæður eru fyrir hendi, þær eru ekki æskilegar og ég held að menn ættu að vera menn til þess að taka á því máli ef þeir meina eitthvað með því sem þeir hafa verið að segja hér um árabil.
    Ég hef þá þessi ræðuhöld um þessa svonefndu frægu kolkrabbatillögu á þskj. 358 ekki lengri, en ef hv. formaður nefndarinnar skyldi láta sér detta í hug að koma hér upp og gera lítið úr þessum málflutningi mínum með því að segja að menn kæmust bara fram hjá þessu með ýmsum öðrum leiðum og hvað með það t.d. ef eitt markaðsráðandi fyrirtæki í samgöngum bara keypti annað fyrirtæki eða sameinaðist öðru fyrirtæki, þá kemur að því hvers virði önnur ákvæði laganna eru. Ég held að við verðum bara að horfast í augu við það að samkeppnisráði, að svona grein samþykktri og með öðrum heimildum í lögunum, er sköpuð býsna sterk staða til þess að tryggja að sæmilega heilbrigð samkeppni ríki í þessum efnum. ( ÓRG: Nú er formaður þingflokks Alþfl. kominn.) Það er aldeilis fagnaðarefni. Þá getur hv. 17. þm. Reykv. væntanlega komið hér upp og staðfest vilja sinn til þess að taka á þessum hringatengslum sem mikið hafa verið til umræðu, ekki síst í Alþfl., á samgöngusviðinu og hér er lögð til mjög einföld og tiltölulega mildileg aðgerð til þess að taka á þeim með tilteknum hætti og setja þau í eitthvert skikkanlegt horf. (Gripið fram í.) Vissulega.
    En það verður sem sagt fylgst með því af mikilli athygli hvernig menn greiða atkvæði og ekki síður hvernig menn haga orðum sínum hér á næstu árum í framhaldi af því. Það er rétt að leggja þetta próf fyrir hv. þm. Þeir hafa nógu lengi talað um þessi mál en lítið aðhafst.
    Þá vil ég, hæstv. forseti, lítillega nefna 21. og 22. gr. frv. Ég vil lýsa alveg sérstakri ánægju minni með að þrátt fyrir harða atlögu halda þessar greinar enn velli í frv. Satt best að segja eru ákveðnir aðilar búnir að sýna alveg ótrúlega elju við það að reyna að koma þeim út. Við höfum fengið endalaus erindi frá aðilum í viðskiptalífinu sem vilja ekki sjá neinar reglur um auglýsingar. Þetta er nú orðinn nokkuð langur slagur eins og sumir þekkja, á sér fimm, sex ára gamla sögu í þinginu og alllanga sögu hér á allra síðustu árum. Fyrst var þessu máli hreyft með þáltill. sem ég flutti fyrir einum fimm eða sex árum síðan í tvígang eða þrígang og fékk loks samþykkta. Í framhaldi af því skipaði þáv. og reyndar einnig núverandi hæstv. viðskrh. nefnd sem samdi svo frv. til laga, svonefnt auglýsingafrv. Það var hér til umfjöllunar á tveimur þingum ef ég man rétt og ákvæði þess ganga loks aftur hér í 21. eða 22. gr. frv. eða aðallega í þeim greinum. Þótt textinn sé ekki mjög langur þá held ég að hann sé allbærilega fullnægjandi og til mikilla bóta, þó fyrr hefði verið, varðandi réttarstöðu neytenda eða almennings í þessu sambandi. Þarna koma loksins inn eftir langa baráttu ákvæði sem sérstaklega höfða til þess að sýna skuli varkárni og aðgát í auglýsingum varðandi börn og unglinga og þau áhrif sem auglýsingar geta haft á þau. Sambærileg ákvæði hafa verið í lögum víða annars staðar, a.m.k. hjá þeim löndum sem við viljum helst bera okkur saman við hvað menningarstig að þessu leyti snertir eins og hin Norðurlöndin og öllum þeim sem horfa á auglýsingar hér uppi á Íslandi hlýtur að vera ljóst að ekki síður hér en annars staðar er ástæða til að hafa áhyggjur af þessum efnum og setja sér einhverjar siðaðra manna reglur í þessu sambandi.
    Ég hef aldrei skilið hvað svona ákvæði geti verið fyrir mönnum og hvers vegna í ósköpunum menn eru að amast við þessu og er svo sem ástæðulaust að velta meira vöngum yfir því úr því að að samstaða hefur tekist um það í nefndinni og vonandi gengur það eftir í afgreiðslu þingsins að þessi ákvæði skulu halda sér í lögum. Ég hlýt auðvitað að fagna því sem ákveðinn upphafsmaður í þessum efnum hér á Alþingi að þetta verði nú loksins lögfest. Reyndar er það svo, þó að aðrir sálmar séu, að næsta verkefni sem taka þyrfti fyrir í þessum efnum og auðvitað mun stærra er að mínu mati áhrifin almennt af hinum öflugu ljósvakamiðlum á börn og unglinga og uppeldisáhrif þessara gesta sem óboðnir eru inni í stofum allra fjölskyldna eða flestra fjölskyldna í landinu svo klukkustundum nemur á hverjum sólarhring. Mönnum er að verða það æ ljósara að einn anginn af þeim ofbeldisvandamálum og ólögum sem víða geysa í hinum iðnvæddu og tæknivæddu samfélögum, þar sem sjónvörp og aðrir slíkir miðlar eru áhrifamiklir, tengist ýmsum áhrifum af taumlausri mötun þeirra sem viðkvæmir eru fyrir á ofbeldisefni og öðru slíku. En það eru, eins og ég segi, hæstv. forseti, aðrir sálmar og ég ætla ekki að fara að syngja þá meira hér en ítreka ánægju mína með að þessi ákvæði í 21. og 22. gr. skuli halda sér.
    Þá er svo farið að styttast í XI. kaflann sem er um framkvæmd samkeppnisreglna og fleira samkvæmt samningunum um Evópska efnahagssvæðið og þá kemur að því, hæstv. forseti, að ég skýri hvers vegna m.a. ég skrifa undir nefndarálit þetta með fyrirvara. Það er vegna þess að ég styð alls ekki þennan kafla. Það er reyndar nokkuð óvenjulegt að menn skuli samt sem áður skrifa undir nefndarálit og standa að brtt. og gera ekki meira en hafa fyrirvara á þó að þeir styðji alls ekki og séu reyndar beinlínis andvígir ákveðnum ákvæðum inni í viðkomandi lögum. Þess vegna er eðlilegt að þetta kalli á svolitlar útskýringar og þær verða nú fluttar. Mergurinn málsins er sem sagt sá að ég mun greiða atkvæði á móti samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Ég tel að hann sé ekki nógu hagstæður Íslendingum og aðrar aðferðir væru betur til þess fallnar að tryggja góð og gagnleg samskipti okkar við þessa granna okkar í austri. Þess vegna tel ég ekki rétt að vera að samþykkja þennan kafla og enn síður vegna þess að í honum eru ákvæði sem mjög hafa orðið umdeild í tengslum við þetta mál. Þ.e. hið umtalsverða valdaframsal og afsal á íslensku stjórnvaldi í hendur erlendra eftirlitsstofnana, eftirlitsstofnunar EFTA og EFTA-dómstólsins. Og jafnvel með tilteknum hætti stofnunum Evrópubandalagsins sem við eigum þó enga aðild að sem tekur auðvitað steininn úr.
    Ég mun greiða atkvæði gegn þessum kafla og vildi helst sjá hann felldan út úr lögunum enda yrðum við þá ekki aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu. En vegna þess að bærileg samstaða hefur tekist um frv. að öðru leyti og öll ákvæði þess sem lúta að framkvæmd mála innan lands að slepptri þá þessari einu breytingartillögu sem ég hef flutt og talað fyrir, þá vil ég ekki, þó ég sé andvígur þessum kafla sem tengist Evrópska efnahagssvæðinu, þurfa að gerast andstæðingur frv. Ég vona að þessi rökstuðningur minn dugi til þess að menn skilji hvers vegna ég og reyndar fleiri, vænti ég, höfum valið þá leið að skrifa undir nál. með fyrirvara og gera grein fyrir af hverju hann sprottinn. Þó ég sé nokkuð harður andstæðingur þessa samnings og þar með auðvitað þessa kafla hans ekki síður en annars sem ég tel heldur af lakara taginu af því sem honum fylgir þá þætti mér ógaman að geta ekki stutt þetta mál sem að öðru leyti er á flestan hátt þarft.
    Þá vil ég líka segja í sambandi við þetta að vegna þess að staða málsins er þessi óska ég eindregið eftir því og vænti þess að við því verði orðið að afgreiðslu þessa máls verði ekki lokið á þinginu fyrr en lyktir eru fengnar varðandi afgreiðslu samningsins sjálfs. Með öðrum orðum að 3. umr. og atkvæðagreiðslu um þetta frv. ljúki ekki fyrr en fyrir liggur hver verða afdrif frv. um staðfestingu samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Verði sá samningur ekki staðfestur hér fyrir áramót af einhverjum ástæðum, sem við skulum gera ráð fyrir sem möguleika, þá tel ég einboðið að fella þennan kafla út úr frv., enda á hann þá ekkert erindi þangað, en afgreiða það að öðru leyti og láta lögin taka gildi að slepptum XI. kafla.
    Ég hef líka ímyndað mér að meðferð mála almennt hlyti að verða sú að menn létu sjálfan samninginn koma hér fyrst til afgreiðslu þannig að menn sæju hvort þeir þyrftu að leggja á sig það erfiði sem fylgir afgreiðslu annarra efnisþátta sem honum tengjast.
    Þetta held ég, hæstv. forseti, að dugi nokkurn veginn varðandi afstöðu mína til þessa máls. Eins og ég segi er stuðningsmaður þess að frv. að slepptum þessum kafla nái fram að ganga og yrði það enn frekar ef ég fengi samþykkta þá litlu og skynsamlegu brtt. sem ég hef hér flutt á sérstöku þingskjali. Ég vil ógjarnan að ágreiningur um þennan eina EES-þátt málsins, sem af skiljanlegum ástæðum sem væntanlega þarf ekki að útskýra veldur því að menn geta ekki sameinast um allt málið í heild sinni, valdi því að menn ekki geti samt sem áður staðið saman um það sem þeir eiga saman um í þessum efnum.
    Ég sagði það við 1. umr. að ég teldi mikilvægt að menn gætu náð samstöðu um heildstæða mikilvæga löggjöf af þessu tagi á sviði sem varðar alla landsmenn og á að vera að mínu mati að minnsta kosti að talsverðu leyti hafin yfir dægurpólitík eða flokkapólitík, sérstaklega ef menn trúa á að þeir séu að gera eitthvað af viti sem staðið geti til frambúðar. Ég held að það sé að takast í grófum dráttum sæmilega vel hér. Mín von og trú er sú að við getum afgreitt samkeppnislöggjöf sem getur dugað okkur sem rammi um

þessi mál til einhverra ára þó allt sé breytingum undirorpið og á miklum hraða í heimi hér. Enda skiptir það kannski ekki öllu máli.
    Hv. 1. þm. Austurl. ræddi reyndar um að nauðsynlegt gæti verið að endurskoða ákveðin ákvæði málsins fljótlega. Ég mundi þá fyrst og fremst ætla að það yrði endurskoðun sem sprytti af breytingum sem yrðu vegna tengsla okkar og opnun í viðskiptum og samkeppni við önnur lönd. Það hefur auðvitað sinn gang ef menn telja sig þurfa endurskoðunarvinnu af því tagi.
    Hæstv. forseti. Ég hef þá lokið við að gera grein fyrir þeim fyrirvara sem ég hef á nál. og þeim brtt. sem ég flyt. Ég endurtek að lokum að þegar kemur að atkvæðagreiðslu málsins mun ég kalla til baka brtt. á þskj. 49 en láta ganga til atkvæða brtt. á þskj. 358.