Samkeppnislög

68. fundur
Miðvikudaginn 02. desember 1992, kl. 23:14:35 (2901)

     Geir H. Haarde (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það var rétt út af þessum síðustu ummælum hv. þm. og reyndar athugasemdum sem fram komu hjá hv. 18. þm. Reykv. um sama efni hér áðan. Það varðar málsmeðferð við lokaafgreiðslu þessa máls. Ljóst er að þetta frv. er að því leyti til frábrugðið ýmsum EES-frumvörpum sem komið hafa til afgreiðslu að hér er einungis einn kafli tengdur samningnum um Evrópskt efnahagssvæði, en í öðrum tilvikum eru það heilu frumvörpin sem þannig stendur á um. Það er líka svo, eins og fram hefur komið, að gildistökuákvæði þessa frv. er með þeim hætti að sá kafli, sem víkur eingöngu að hinu Evrópska efnahagssvæði, tekur ekki gildi nema af því verði.
    Ástæðulaust er að hafa uppi einhverjar deilur um málsmeðferð að þessu leyti til. Ég er alveg sannfærður um að við finnum leið til þess að koma til móts við sjónarmið allra í þessu efni. Sú hugmynd sem hv. síðasti ræðumaður nefndi að ljúka ekki alveg 3. umr. málsins kemur vel til greina að mínum dómi. Mér finnst hins vegar ástæðulaust að bíða með að ljúka 2. umr. og atkvæðagreiðslu við 2. umr. sem fyrirhuguð er á morgun. En ég tek undir ýmislegt sem hann sagði að því er varðar 3. umr. og endanlega afgreiðslu málsins, þ.e. að gera þetta frv. að lögum. Það eru atriði sem hljóta að koma til skoðunar þegar nær dregur. Það tekur auðvitað sinn tíma að prenta þetta frv. upp að nýju með öllum þessum breytingum þannig að ég sé ekki að hér sé um neitt vandamál á ferðinni sem við getum ekki leyst í því samstarfi sem nú er hafið um lyktir þingmála almennt fyrir jólin.
    Að lokum vildi ég taka undir þakkir manna fyrir það starf sem unnið hefur verið á vettvangi efh.- og viðskn. vegna þessa máls. Ég tel að þar hafi verið einstaklega vel að verki staðið og tek undir allt sem menn hafa sagt um það efni og óska nefndarmönnum og formanni nefndarinnar til hamingju með þetta árangursríka samstarf.