Öryggi raforkudreifingar um landið

69. fundur
Fimmtudaginn 03. desember 1992, kl. 10:57:19 (2913)


     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Ég hef orðið fyrir verulegum vonbrigðum með svör hæstv. ráðherra. Það er ekki

að sjá að það standi til að skera úr um þessi mál. Ég held að þá hefðu svör hans verið skýrari. Hann sagðist aftur á móti hafa verið óheppin með veður. Það hefði verið sérstaklega illviðrasamt og mikið brotnað af staurum hjá honum. Ég held að menn megi eiga von á stórviðri á Íslandi á hverju ári í framtíðinni eins og hingað til. En ég vil vekja athygli á því að það er mat þeirra manna sem best þekkja til að dreifikerfið muni halda áfram að úreldast og það muni jafnvel koma til verulegra tjóna fram yfir það sem menn hafa séð áður vegna þess að staurarnir séu álíka gamlir og þeir fúna. Eftir 35--40 ár myndast mjög snögglega veikleiki í þeim og þá mega menn búast við miklu tjóni. Þetta er það sem menn hafa verið að spá og þess vegna er það mjög fyrirkvíðanlegt ef ekki er tekin stefna í þessum málum. Við þurfum að fá að vita hver hún er. Ég hafði vænst þess að hæstv. iðnrh. gerði grein fyrir því hvernig hann vill að þessi mál gangi fram. Hann sagðist binda mestar vonir við að hér yrði stofnað hlutafélag og það yrði hægt að auka hlutafé út á þessar framkvæmdir og borga þær með hlutafé. Dettur mönnum yfirleitt í hug að einhver áhugi sé á því að fjármagna endurbætur á þessu dreifikerfi með því að setja aukið hlutafé í fyrirtæki? Það verður þá að vera einhver arður af því. Og er það þá meiningin, virðulegur ráðherra, að þeir sem njóta dreifikerfisins eigi að borga verulega hærri fjárhæðir til þess að þeir sem hafa lagt aukið hlutafé í þetta fyrirtæki fái arðinn?