Vog, mál og faggilding

69. fundur
Fimmtudaginn 03. desember 1992, kl. 11:09:58 (2917)

     Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir áliti efh.- og viðskn. um frv. til laga um vog, mál og faggildingu. Um þetta mál var fjallað á síðasta þingi. Þá komu allmiklar athugasemdir við frv. eins og það var þá lagt fram. Síðan var frv. breytt í samræmi við þessar athugasemdir og flutt aftur í haust.
    Nefndin hefur fengið allmargra aðila til þess að tjá sig um málið og þeirra er getið í nál. á þskj. 378. Nefndin hefur gert nokkrar tillögur til breytinga á frv. með hliðsjón af þeim athugasemdum sem fram hafa komið svo og vinnu í nefndinni.
    Í fyrsta lagi er lögð til breyting á 11. gr. frv. en í henni kemur fram að Löggildingarstofan sé sá aðili sem annist faggildingu fyrir hönd íslenskra stjórnvalda. Það er smábreyting á 1. málslið 2. mgr. og tillaga nefndarinnar hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Nú er gerð krafa um faggildingu stofnana og fyrirtækja, sem framkvæma lögbundnar prófanir eða eftirlit eða votta vara, ferli eða þjónustu, svo og hæfni og þekking starfsmanna, uppfylli lögbundnar kröfur og skal þá slíkri kröfu fullnægt af Löggildingarstofunni eða hliðstæðum stofnunum í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins.``
    Þetta segir fyrst og fremst að sé gerð krafa um faggildingu sé það Löggildingarstofan sem annist slíkt.
    Síðan er gerð tillaga um að síðari mgr. 14. gr. falli brott en í frv. er kveðið á um að Löggildingarstofan skiptist í deildir samkvæmt ákvörðun ráðherra. Þetta þykir óþarft í löggjöfinni og liggur í hlutarins eðli að ef þarf að skipta Löggildingarstofunni í deildir sé það að sjálfsögðu sjálfsagt og rétt. Talið er að ekki þurfi lagaheimild til slíks.

    Síðan er gert ráð fyrir því að 17. gr. orðist svo sem segir í brtt., með leyfi forseta: ,,Löggildingarstofan skal, þar sem aðstæður mæla með, með samningi fela aðilum, sem þess óska og hafa sérþekkingu og nauðsynlega hæfni, að leysa verkefni sem henni eru falin samkvæmt lögum þessum.``
    Hér er fyrst og fremst verið að hnykkja á því að Löggildingarstofan geti og eigi þar sem það er mögulega hægt að úthluta öðrum þeim verkefnum sem henni er falið að leysa. Það er álit nefndarinnar að það eigi að reyna að hafa þessa stofnun sem allra minnsta og ekki eigi að hlaða þarna upp einhverju bákni. Ég hygg að það sé sameiginlegt áhugamál allra þeirra sem hafa tjáð sig um þetta mál.
    Að lokum vil ég þakka meðnefndarmönnum mínum fyrir ágætt samstarf um þetta mál og læt máli mínu lokið.