Atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES

69. fundur
Fimmtudaginn 03. desember 1992, kl. 12:09:23 (2920)

     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Frú forseti. Ég vil aðeins í tilefni af orðum hv. ræðumanns um neikvæða félagafrelsið taka fram að þetta atriði var sérstaklega til umræðu þegar fulltrúar atvinnurekenda og verkalýðshreyfingarinnar komu á fund utanrmn. Þá var spurt ítarlega út í þetta og þar kom fram að aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu breytti engu um þessa stöðu verkalýðsfélaganna. Ég vil hins vegar vekja athygli á því að á síðasta þingi Alþýðusambandsins flutti fráfarandi forseti þess, Ásmundur Stefánsson, athyglisverða ræðu þar sem hann kom inn á þetta mál og vék að því að verkalýðshreyfingin yrði að huga að breytingum á þessum forgangsrétti. Þó má um það deila hvort þær breytingar gangi nægilega langt. Ég ætla ekki að fara út í umræður um það hér. En þegar hann rakti forsögu málsins og ástæður fyrir því að hann teldi nauðsynlegt að breyta þessum ákvæðum gat hann hvergi um þátttöku í Evrópska efnahagssvæðinu. Það er ljóst að aðild að því hróflar ekki við þessum lagaákvæðum hér á landi eða þessum réttindum sem bundin eru forgangsrétti verkalýðsfélaganna. Hins vegar er rætt um þau mál á vettvangi Evrópuráðsins eins og við vitum, bæði hjá Mannréttindadómstóli þess, mannréttindanefnd og einnig í sérstakri sérfræðinganefnd sem fjallar um félagsmálasáttmála Evrópu. Það er annar vettvangur þar sem um þessi mál er rætt. Við þurfum að taka mið af því. Að því er varðar aðild að Evrópska efnahagssvæðinu krefst það engrar gerbreytingar í þessu efni á íslenskum lögum.