Atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES

69. fundur
Fimmtudaginn 03. desember 1992, kl. 12:11:13 (2921)

     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er meira fullyrt hér en ég get tekið undir að hægt sé að standa við að svo stöddu. Um það er ekki deilt fyrir sérfræðinganefnd Evrópuráðsins að hér er ekki skylduaðild að verkalýðsfélögum. Verkalýðshreyfingin íslenska hefur ekki haldið því fram að skylduaðild væri að stéttarfélögum heldur þvert á móti lagt áherslu á að menn hefðu rétt til að standa utan þeirra. Þar á ég við Alþýðusamband Íslands. Ég hygg að það sé með öðrum hætti hjá opinberum starfsmönnum.
    Málið snýst um hvaða réttindi þeir hafa sem kjósa að standa utan stéttarfélaga. Fari mál svo að þeir hafi persónubundin réttindi sem í dag eru bundin samtökum, þá mun þetta hafa gríðarlega mikla breytingu í för með sér sem menn verða að bregðast við áður en þetta vinnumarkaðssvæði verður opnað eins og til stendur með þessu frv.
    Ég vil geta þess, vegna andsvars hv. 3. þm. Reykv., að ég spurði að því í nefndinni hvaða áhrif 2. gr. reglugerðar 1612 hefði á forgangsréttarákvæði og óskaði eftir því að á næsta fund nefndarinnar kæmi fulltrúi frá félmrn. og Alþýðusambandi Íslands til þess að fara yfir málið þar sem menn gátu ekki svarað því á fundinum. Þannig háttaði því miður til að á þeim fundi var ég veðurtepptur fyrir vestan en enginn fulltrúi kom frá Alþýðusambandi Íslands vegna þings Alþýðusambandsins sem haldið var þá viku á Akureyri. Enn hefur því fulltrúi þeirra ekki mætt á fundi nefndarinnar. Ég tel fulla ástæðu til þess að þetta mál verði gaumgæft miklu betur en verið hefur.