Atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES

69. fundur
Fimmtudaginn 03. desember 1992, kl. 12:15:39 (2923)


     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er ekkert um það deilt af minni hálfu hver afstaða Alþýðusambandsins hefur verið gagnvart þessu frv. Hins vegar hef ég haft, og er reyndar ekki einn um það, efasemdir og nokkrar áhyggjur af áhrifum samningsins á forgangsréttarákvæðið því það hefur grundvallarþýðingu fyrir íslenska verkalýðshreyfingu. Þær vangaveltur sem uppi eru innan Alþýðusambandsins um að stækka félagasvæðin með því að afnema félagssvæðisbundinn forgang og taka upp stærra svæði, hvort sem það verður landið í heild eða eitthvað minna svæði, á eftir að skoða og hvaða áhrif það hefur gagnvart þessum samningi og þessu frv. Ég hef ekki neina sannfæringu fyrir því að menn geti haldið uppi annars vegar einhverju slíku svæði og hins vegar að félagar í stéttarfélögum hafi vinnuforgang umfram utanfélagsmenn.
    Ég efast líka um, þó það verði að veruleika sem hv. 3. þm. Reykv. gat um að hefðu verið vangaveltur fráfarandi forseta Alþýðusambandsins, að það gangi að viðurkenna rétt manna til þess að standa utan stéttarfélaga með þeim réttindum sem því fylgja og eru reyndar óljós, en halda að menn geti innheimt vinnuréttindagjald. Það hef ég miklar efasemdir um að gangi. Það verður að vera af eða á í þessum efnum. Það er ekki hægt að víkja frá forgangsréttarákvæði annars vegar og ætla sér að halda í eitthvert vinnuréttindaákvæði hins vegar.