Stjórnarskipunarlög

69. fundur
Fimmtudaginn 03. desember 1992, kl. 13:53:15 (2930)


     Geir H. Haarde :
    Hæstv. forseti. Hér er til meðferðar frv. frá stjórnarandstöðunni um mjög víðtækar heimildir til að afsala úr landi fullveldi Íslands. Þetta frv. eins og það er fram borið er ekki í neinum beinum tengslum við samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði. Á því eru margir og mikilvægir gallar eins og fram hefur komið í málsmeðferð og fram kemur í nál. meiri hlutans og eins og sést best á því að flm. þessa frv. treysta sér ekki til þess að standa að því óbreyttu og leggja þess vegna til mikilvægar breytingar á sjálfu frv. Í þessu frv. eru hins vegar hugmyndir sem meiri hluti nefndarmanna í stjórnarskrárnefnd á Alþingi telur rétt að hljóti vandaða umfjöllun á vettvangi þeirrar stjórnarskrárnefndar sem starfar utan þingsins en er kosin af Alþingi. Þess vegna er það rétt og eðlilegt og skynsamleg málsmeðferð í þessari stöðu að vísa þessu máli til ríkisstjórnarinnar þaðan sem það væntanlega færi til hinnar starfandi stjórnarskrárnefndar. Ég segi já.