Samkeppnislög

69. fundur
Fimmtudaginn 03. desember 1992, kl. 14:19:18 (2938)

     Steingrímur J. Sigfússon (um atkvæðagreiðslu) :
    Hæstv. forseti. Ég tel rétt að vekja athygli á því að í atkvæðagreiðsluskjali sem útbúið hefur verið tek ég eftir því að brtt. á þskj. 358 hefur misritast eða er ekki rétt eins og hún er á hinu eiginlega þingskjali og kann þar að gæta áhrifa af því að sambærileg eða svipuð tillaga var í fyrra þingskjali sem nú hefur verið kölluð aftur. Ég tel nauðsynlegt að allir hv. alþm. átti sig á því að rétt er tillagan eins og hún er orðuð á þskj. 358 en ekki eins og hún stendur í því atkvæðagreiðsluskjali sem menn hafa fengið í hendur. Ef ég má, með leyfi forseta, lesa þá orðalag tillögunnar eins og hún er á brtt., þá er það svohljóðandi:
  ,,1. Við IV. kafla bætist ný grein er verði 17. gr. og orðist svo:
    Fyrirtæki, sem telst markaðsráðandi á einu sviði samgangna, er óheimilt að vera ráðandi aðili eða eiga stærri eignarhlut en 25% í öðrum markaðsráðandi fyrirtækjum sem starfa að samgöngum.``
    Orðið ,,markaðsráðandi`` í seinna tilvikinu hefur fallið niður í textanum eins og hann er prentaður í atkvæðagreiðsluskjalinu og það er að sjálfsögðu veruleg merkingarbreyting því að markaðsráðandi-skilgreiningin þrengir verulega gildissvið brtt. og afmarkar hana og gerir hana mildari, ef svo má að orði komast. En hér er, eins og öllum hv. alþm. er væntanlega kunnugt, á ferðinni brtt. sem tekur á hringamyndun eða óeðlilegum tengslum fyrirtækja á þessu sviði. Ég óska svo eftir því, hæstv. forseti, að atkvæðagreiðslan fari fram með nafnakalli.