Samkeppnislög

69. fundur
Fimmtudaginn 03. desember 1992, kl. 14:40:09 (2946)

     Ólafur Ragnar Grímsson (um atkvæðagreiðslu) :
    Virðulegi forseti. Það er sérkennileg kenning hjá hv. þm. Geir H. Haarde að það sé í lagi fyrir alþingismenn að samþykkja þennan kafla þótt fyrir liggi ítarlegar greinargerðir um það að efnisatriði hans séu brot á íslensku stjórnarskránni vegna þess að það sé ekki víst að brotið taki gildi. Þess vegna sé allt í lagi hér í salnum að brjóta stjórnarskrána af því að það eigi eftir nokkra daga að ákveða hvort brotið eigi að taka gildi. Þetta er afar sérkennileg kenning. En ég vil mótmæla henni hér að það fari að verða einhver leiðarvísir í þingstörfum að taka á málum með þeim hætti.
    Það kemur greinilega fram í álitsgerðum sem eru birtar í því þskj. um breytingar í stjórnarskránni þar sem formaður Framsfl., Steingrímur Hermannsson, er 1. flm. en við aðrir, fulltrúar Kvennalista og Alþb., erum meðflm. að í þeim álitsgerðum sem ég hef hér vikið að er það rækileg rökstutt að það eru einmitt þessi efnisákvæði sem eru hér í XI. kaflanum sem eru höfuðatriðin í því að samningurinn um EES sé brot á stjórnarskránni. Ég get ekki séð hvernig nokkur þingmaður í þessum sal getur í raun og veru greitt þessu atkvæði ef hann hefur í reynd kynnt sér efnisatriði þessara álitsgerða.