Samkeppnislög

69. fundur
Fimmtudaginn 03. desember 1992, kl. 14:46:23 (2947)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Það eru allmerkileg próf sem Alþingi Íslendinga er að ganga undir þessa dagana og m.a. við afgreiðslu þess máls hér. Þingmenn, sem eru nýbúnir að styðja það mat að ákvæði samningsins um Evrópskt efnahagssvæði stangist á við íslensku stjórnarskrána, virðast reiðubúnir að beygja sig undir lagaákvæði um þá þætti sem eru kjarnaatriði í þessu mati. Ég átta mig ekki á, virðulegur forseti, hvernig hugsanaferli er hjá þeim sem þannig geta staðið að málum. Ekki er síður sérkennilegt að það skuli borið fram af formanni stærsta þingflokksins á Alþingi að menn séu með atkvæðum um þetta frv. ekki að gera upp við sig hvort þeir séu að ganga gegn íslensku stjórnarskránni eða ekki. Það er furðulegt mat.
    Ég segi nei við þessari lagagrein, þessari tillögu sem og öðrum ákvæðum þessa kafla.