Samkeppnislög

69. fundur
Fimmtudaginn 03. desember 1992, kl. 14:51:00 (2948)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Í 47. gr. í XI. kafla frv. eru þau ákvæði sem langlengst ganga í beinu íslensku valdaframsali til handa erlendum stofnunum. Þar er í fyrsta lagi eftirlitsstofnun EFTA og EFTA-dómstólnum heimilað að leggja á sektir, að taka sér í hendur refsivald gagnvart innlendum aðilum. Þessar aðgerðir hinna erlendu stofnana eru aðfararhæfar að íslenskum lögum og sömuleiðis vegna leiðréttinga sem nauðsynlegt reyndist að gera frá upphaflega frv., kemur fram í staflið b í brtt. að stofnanir Evrópubandalagsins koma í þessari lagagrein inn í íslenska lagasafnið og fá þar tiltekið hlutverk, erlendar stofnanir sem við Íslendingar eigum enga aðild að. Ég hygg að það séu ekki síst þessi ákvæði um það refsivald, sem hinum erlendu stofnunum er falið, aðfararhæft, og hlutverk erlendra stofnana sem við Íslendingar eigum enga aðild að og höfum engin áhrif á hvernig starfa, sem hér kemur inn í íslenska lagasafnið, sem gerir það að verkum að lögfræðingar, flestir ef ekki allir, sem um þetta mál hafa fjallað, viðurkenna að um valdaframsal út úr landinu sé að ræða. Menn geta síðan deilt og hafa reyndar deilt um það hvort þetta valdaframsal sé nógu afmarkað til þess að það samrýmist ákvæðum íslensku stjórnarskrárinnar. Það er því alveg ljóst út á hversu hálan ís menn eru að fara. Jafnvel þeir sem hæstv. utanrrh. hefur haft í vinnu við að semja sér álitsgerðir í þessum efnum viðurkenna að hér sé um valdaframsal að ræða.
    Ég held að í þessari grein fari þess vegna fram kannski á vissan hátt afdrifaríkasta atkvæðagreiðslan í öllu þessu máli og það er e.t.v. svo að hvað efnislega afstöðu varðar er hér á ferðinni sú einstaka atkvæðagreiðsla sem mestu skiptir í reynd varðandi viðhorf manna til íslensku stjórnarskrárinnar og það hvaða tillit menn vilja taka til hennar þegar þeir gera upp hug sinn varðandi hið Evrópska efnahagssvæði.
    Ég segi að sjálfsögðu nei, hæstv. forseti, við þessari brtt., við greininni sjálfri og við kaflanum öllum.