Samkeppnislög

69. fundur
Fimmtudaginn 03. desember 1992, kl. 15:21:26 (2957)

     Steingrímur J. Sigfússon (um atkvæðagreiðslu) :
    Hæstv. forseti. Það eru nokkuð óvenjulegar aðstæður í þessu máli sem kalla, held ég, á skýringar á afstöðu okkar í efh.- og viðskn., þeirra sem eru þar í stjórnarandstöðu en stöndum að sameiginlegu nál. og sameiginlegum brtt. við þetta frv. Andstaða okkar, a.m.k. sumra okkar, hefur þegar komið fram við XI. kafla frv. og birst hér í atkvæðagreiðslum og þarf vonandi ekki fleiri orð um það. Hluti af því samkomulagi sem gert var um afgreiðslu málsins í nefndinni fól í sér þetta gildistökuákvæði sem er með þeim hætti að það greinir algerlega á milli hinna almennu ákvæða frv. og XI. kaflans. Úr því sem komið er, sem ég að vísu harma, að meiri hluti þeirra sem hér tóku þátt í atkvæðagreiðslu, að vísu minni hluti á hv. Alþingi, samþykkti XI. kaflann er að mínu mati ótvírætt til bóta að gildistökunni sé þó háttað með þeim hætti sem 34. brtt. við 62. gr. frv. gerir ráð fyrir. Og það er í því trausti sem við ákváðum að styðja hin almennu efnisákvæði frv. þrátt fyrir andstöðu okkar við XI. kaflann. Það er sömuleiðis í trausti þess að samkomulag takist um að málsmeðferðin verði sú sem hér var rætt í gærkvöldi að hin endanlega afgreiðsla þessa frv. bíði þess að lyktir ráðist varðandi frv. um samninginn um Evrópskt efnahagssvæði. Í því trausti að þetta gangi eftir þá mun ég styðja þessa brtt. og styðja frv. í heild sinni þrátt fyrir andstöðu mína við XI. kaflann með vísan til þess að hann tekur ekki gildi fyrr en afdrif samningsins um Evrópska efnahagssvæðið hafa ráðist.