Samningar við EB um fiskveiðimál

69. fundur
Fimmtudaginn 03. desember 1992, kl. 15:45:59 (2960)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um staðfestingu samninga við Efnahagsbandalag Evrópu um fiskveiðmál og lífríki hafsins.
    Í ályktunargreininni segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd:
    1. samning í formi erindaskipta milli Íslands og Efnahagsbandalags Evrópu um fiskveiðimál sem gerður var í Óportó 2. maí 1992;
    2. samning um fiskveiðimál og lífríki hafsins milli Íslands og Efnahagsbandalags Evrópu sem gerður var í Brussel 27. nóv. 1992.``
    Í upphafi athugasemda við þáltill. þessa segir, með leyfi forseta: ,,Með þáltill. þessari fer ríkisstjórnin þess á leit að Alþingi heimili staðfestingu samninga þeirra milli Íslands og Efnahagsbandalags Evrópu um fiskveiðimál og lífríki hafsins sem gerðir voru í Óportó 2. maí 1992 og í Brussel 27. nóv. 1992. Samningarnir eru birtir sem fylgiskjöl með þáltill. þessari. Einnig eru hér birtar sem fylgiskjal niðurstöður fiskimálaviðræðna milli Íslands og Efnahagsbandalagsins, sem lauk í Brussel 27. nóv. 1992, um tilhögun veiða á árinu 1993.
    Samkomulagið við EB er samkvæmt framansögðu þrískipt: Í fyrsta lagi erindaskiptin frá 2. maí sem eru ákvarðandi um öll atriði sem þar eru tilgreind, í öðru lagi rammasamningurinn þar sem endurtekin eru sum atriðin úr erindaskiptunum en öðrum þáttum bætt við eins og rakið verður hér á eftir og svo í þriðja lagi árlega samkomulagið þar sem einnig eru endurteknir þættir úr erindaskiptunum en einkum bætt við nánari ákvæðum um framkvæmd á skiptum umræddra veiðiheimilda loðnu og karfa og eftirlit með veiðum.``
    Þessir tveir samningar um fiskveiðimál sem ég mæli hér fyrir í dag eiga sér langa forsögu og reyndar sjálfstæða tilveru frá EES-samningnum sem slíkum. Fyrir þeim er mælt sérstaklega og þeir verða afgreiddir sérstaklega þó ekkert sé því til fyrirstöðu að umræðan tengist EES-samningnum.
    Staðreyndin er sú að nú loks hefur tekist að fylla upp í eyðu sem verið hefur til trafala og óþæginda í samskiptum okkar við Evrópubandalagið í hartnær tvo áratugi. Margoft hefur verið farið af stað og tilraun gerð til að koma samskiptum Íslands og Evrópubandalagsins í fiskveiðimálum í viðunandi horf. Þær tilraunir hafa allar strandað hingað til á kröfum Evrópubandalagsins sem t.d. í viðræðum fyrir 10 árum síðan gerði kröfu til meir en þriðjungs loðnustofnsins milli Grænlands og Íslands. Þær kröfur Evrópubandalagsins sem allt strandaði á 1991 komu ekki upp að nýju að þessu sinni.
    Það er eðlilegt og sjálfsagt að samstarf sé milli allra þeirra aðila sem eiga fiskveiðilögsögur sem snertast, rétt eins og við höfum samið við Grænlendinga, Norðmenn og Færeyinga, og var engin ástæða til að slá frekar á frest samningum við nágrannaríki í suðri.
    Samkomulag um sjálfan kjarna þessa máls, þ.e. gagnkvæm skipti á veiðiheimildum náðist strax í Óportó í maí og var undirritað þar 2. maí sl. Í þeim erindaskiptum var kveðið á um helstu efnisatriði þó ekki ynnist tími til að ganga þar frá nauðsynlegum rammasamningi eða framkvæmd hans. Í Óportó var ákveðið hvert yrði hámarksmagn sem hvor aðili um sig fengi í sinn hlut í gagnkvæmum skiptum, annars vegar 30 þús. tonn af loðnu til Íslendinga er jafngildi í þessum samningum 3 þús. tonnum karfaígilda til Evrópubandalagsins. Gengið var frá því innan hvaða svæða mætti veiða, að eftirlitsmaður skyldi vera um borð og að verksmiðjuskip skyldu ekki vera heimil. Eftir var aðeins að ganga frá ramma fyrir samskipti okkar við Evrópubandalagið á sviði fiskveiða og kveða nánar á um ýmis framkvæmdaatriði, t.d. hversu há

laun skyldi greiða eftirlitsmönnum af hálfu Evrópubandalagsins, til hvaða hafna skip Evrópubandalagsins ættu að sækja og skila eftirlitsmönnum að loknu starfi, hvernig eftirliti með vigtun afla skuli háttað, hversu mörg skip gætu stundað veiðar í einu, hvaða reglur skyldu gilda um meðafla eða aukaafla o.s.frv.
    Samningaviðræður frá því í maí hafa dregist á langinn og reynt hefur verið að gera það tortryggilegt. Ástæðan var einfaldlega sú að við vildum ekki flana að neinu og töldum rétt að ganga tryggilega frá jafnvel hinum smæstu smáatriðum. Í öllum helstu atriðum náðu okkar kröfur fram að ganga. Sú hin síðasta, sem styrr stóð um fram á föstudag, var hvort heimilt skyldi að hausa karfa um borð í skipum EB en niðurstaðan varð sú að sjónarmið okkar náðust fram.
    Eitt erfiðasta viðfangsefnið var að tryggja að raunverulegt jafnvægi ríkti í skiptum milli Íslands og Evrópubandalagsins. Þar höfðum við frá upphafi visst forskot því hvort sem við notum viðmiðanir sjútvrn. eða Evrópubandalagsins eru 30 þús. tonn af loðnu verðmeiri en tilsvarandi 3 þús. tonn af karfa. Hins vegar vitum við að karfi er langlífur stofn en loðna skammlíf. Karfinn er tiltölulega stöðugur samkvæmt reynslu en göngur loðnu eru óvissar frá ári til árs. Við þurftum því að ná því fram að ef loðnan brygðist yrðu karfaveiðar teknar til endurskoðunar. Þessi krafa náði einnig fram að ganga. Ef loðnustofninn bregst og enginn kvóti er gefinn út verður ekki um neinar karfaveiðar Evrópubandalagsins að ræða nema Evrópubandalagið geti boðið fram aðrar jafngildar veiðiheimildir. Ef loðnukvótinn er skorinn niður svo skart að Evrópubandalagið getur ekki staðið við skuldbindingar sínar verður karfakvótinn skorinn niður sem því nemur. Ef veiðarnar bregðast vegna ófyrirsjáanlegra aðstæðna munu samningsaðilar koma saman til þess að gera viðeigandi ráðstafanir.
    Í umræðu innan Evrópubandalagsins t.d. nú nýlega á Evrópuþinginu hefur það og komið skýrt fram að Evrópubandalagið telur Noreg og Svíþjóð reiða af hendi fiskveiðiheimildir til Evrópubandalagsins en í samningi við Ísland sé aðeins gert ráð fyrir jöfnum skiptum. Þetta er að sjálfsögðu meginatriði málsins og til áréttingar rétt að taka það fram einu sinni enn vegna þess að oft hefur verið ranglega með það farið.
    Það er kjarni þessa máls að Íslendingar hafa hér eftir sem hingað til haldið fast við þá grundvallarreglu að gefa ekki kost á veiðiheimildum í skiptum fyrir tollfrelsi eða markaðsaðgang. Það hefur verið sjónarmið allra ríkisstjórna í samskiptum við Evrópubandalagið hingað til og því sjónarmiði hefur verið haldið til streitu. Hins vegar hafa ríkisstjórnir allt frá því að viðræður voru teknar upp í framhaldi af bókun 6 á áttunda áratugnum lýst sig reiðubúnar til viðræðna um gagnkvæm skipti ef um semdist. Það er á þeim grundvelli sem þessi samningur er gerður eins og staðfest er margsinnis af samningsaðilum.
    Á síðasta löggjafarþingi var Alþingi gerð grein fyrir Óportó-samningnum með skýrslu. Samningurinn er nú lagður fyrir þingið til staðfestingar ásamt nýgerðum rammasamningi um fiskveiðimál og lífríki hafsins milli Íslands og Efnahagsbandalags Evrópu.
    Virðulegi forseti. Að öðru leyti vísa ég til framlagðra gagna um málið og greinargerðar með þáltill. og legg svo til að þessu máli verði að lokinni umræðu vísað til hv. utanrmn.