Samningar við EB um fiskveiðimál

69. fundur
Fimmtudaginn 03. desember 1992, kl. 15:55:10 (2961)

     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegi forseti. Hér er um mikilvægt mál að ræða sem hefur verið lengi til umfjöllunar. Ég vil í upphafi segja það að ég hef ávallt gert mér grein fyrir því að það þyrfti að koma til að slíkur samningur væri gerður ef takast ætti að leysa það mál sem hefur verið til umfjöllunar, þ.e. aðild Íslands að hinu Evrópska efnahagssvæði. Evrópubandalagið hefur gert samning um sjávarútvegsmál við flest ef ekki öll ríki í Evrópu. Einn af síðustu samningunum sem gerður var áður en samningur var gerður við Ísland var samningur við Rússland.
    Ég vildi óska eftir að hæstv. utanrrh. væri viðstaddur. Ég skil að hæstv. utanrrh. þurfi stundum að bregða sér frá. Hins vegar hefur það verið meginmál, eins og hæstv. utanrrh. kom hér inn á, hvort hér væri um jafngildar veiðiheimildir að ræða. Það er kjarni málsins.
    Þegar hæstv. utanrrh. lýsti því yfir á sínum tíma haustið 1991 að komið væri samkomulag í þessum málum mæltist hæstv. utanrrh. m.a. þannig í viðtali við fréttamann þá um nóttina: ,,Ef listinn er dreginn upp þá má segja það og það er svona samdóma álit manna hér að samningaárangur okkar hafi verið ótrúlegur.`` Hann vitnaði jafnframt í Andriessen framkvæmdastjóra og hafði eftir honum: ,,Þið hafið með ruddafengnum hætti`` --- eins og hann orðaði það, hann notaði orðið brutal --- ,,nánast fengið allt fyrir ekki neitt.
    Hins vegar komu fljótlega upp efasemdir um að þetta mál væri í reynd frágengið. Hæstv. utanrrh. gerði lítið úr því. Hann ræddi m.a. þannig við blöð um sjávarútvegsdeild Efnahagsbandalagsins, svo ég vitni aftur í ummæli sem voru viðhöfð nokkru áður en þessi mikli sigur vannst, en þá sagði hann m.a. með leyfi forseta: ,,Sjávarútvegsdeildin, svo ég taki dæmi um hana, er lítilfjörlegasta deildin í öllu apparatinu. Forstöðumaður hennar er spænskur og fulltrúi spænskra sjávarútvegshagsmuna sem auðvitað eru í uppreisnarham. Lausnin í Lúxemborg`` --- þ.e. lausnin sem kom áður en lausnin þarna um haustið --- ,,þýðir einfaldlega að Spánverjar gjörtöpuðu málinu.``
    Ég hef haldið því fram og held því enn þá fram að málflutningur sem þessi sé til þess fallinn að veikja okkar samningsstöðu. Og ég tel að hann hafi veikt okkar samningsstöðu í þessu erfiða og mikilvæga máli. Ég tel ekki hægt að halda því fram, hæstv. utanrrh., að hér sé um jafngildar veiðiheimildir að ræða. Ég tel að það gæti sömu tilhneigingar að oftúlka niðurstöður í þessu máli í fréttatilkynningu utanrrn. frá 27. nóv. 1992. Þar segir, með leyfi forseta: ,,Ísland fær á móti`` --- þ.e. 3 þús. tonnum af karfa --- ,,30 þús. tonn af loðnu sem eru 20% verðmætari en hlutur EB.``
    Með þessu er utanrrn. að túlka samningsniðurstöðuna Íslendingum í hag sem ég get ekki skilið af hverju er gert. Ég tel að með slíkum málflutningi sé verið að veikja okkar samningsstöðu.
    Ég þykist sjá hvernig þessi tala er fundin út. Hún er m.a. fundin út með því að telja að karfi sé um það bil 0,4% af þorski og loðna sé u.þ.b. 0,05% af þorskígildi. Samkvæmt því er verðmæti loðnunnar 1.500 en karfans um það bil 1.200. Með þessum útreikningum má að sjálfsögðu finna þessa tölu, 20%.
    Aðalatriðið er hvort þetta er raunveruleiki. Var það rétt af Íslendingum að túlka þessa verðmætaskiptingu með þessum hætti? Ég er þeirrar skoðunar að svo sé ekki. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef er verið að selja loðnutonn til löndunar um þessar mundir á um það bil 4 þús. kr. Þótt það hafi verið lítið magn sem var selt í gær var kílóið af karfa selt á 60 kr. á flestum mörkuðum. Þann 1. des. var verðið upp í 67 kr. Það er alla vega ljóst að karfakílóið gengur á bilinu 40--60 kr. og verð fyrir karfa hefur verið mun hærra erlendis að sjálfsögðu. Eftir því sem ég best veit er meðalverð á lönduðum karfa Íslendinga á sl. ári rúmar 60 kr.
    Við verðum líka að líta til þess að þá loðnu sem við fáum að veiða úr þessum stofni á að veiða eftir áramót. Þá eru allar líkur á því að verð á loðnu verði allmiklu lægra en 4 þús. kr. og gæti þess vegna verið 3 þús. kr.
    Ég er mjög efins um að til sé nokkur sá aðili ef ríkisstjórnin færi á markað með þetta mál --- en Alþfl. er mjög umhugað um að selja sem mest af veiðiheimildum á markaði --- sem væri tilbúinn að skipta á sléttu á 30 þús. tonnum af loðnu og 3 þús. tonnum af karfa. Ég hef afar miklar efasemdir um að sá aðili sé til.
    Með þessum rökum held ég því að hér sé ekki um jafngildar veiðiheimildir að ræða og niðurstaðan sé m.a. sú að þær séu ekki jafngildar vegna þessa málflutnings. Af hverju túlkar utanrrn. þessar heimildir með þeim hætti að við séum að fá verðmætari afla? Er utanrrn. að gera það m.a. til að geta bent á að ekki sé fullvíst að við getum veitt alla þessa loðnu? Það liggur fyrir að við munum þurfa að taka upp samninga ef eitthvað það kemur fyrir að við náum ekki þessari loðnu nema af líffræðilegum ástæðum. Það ákvæði samningsins er að sjálfsögðu til bóta en það er ekki trygging.
    Mín niðurstaða er því sú að hér sé ekki um jafngildar veiðiheimildir að ræða og það sé fráleitt að túlka það með þeim hætti að við fáum meira út úr þessum skiptum og því sé ekki um raunverulegt jafnvægi að ræða í þessum samningi.
    Ég vildi einnig spyrja hæstv. utanrrh. hvort það hafi ekki komið til álita að fá það ákvæði inn í þennan samning að við gætum skipt á þeim veiðiheimildum sem við fengjum í okkar hlut fyrir veiðiheimildir sem við hugsanlega fengjum hjá öðrum þjóðum. Ég hef margoft komið þessu á framfæri við hæstv. utanrrh. Hann hefur aldrei svarað mér neinu í þessu máli nema í umræðum á Alþingi fyrir stuttu þegar hann sagði: Þess er ekki kostur. Það voru engin frekari svör við þessu máli. Ég minni á að þessi skoðun mín kom m.a. fram vorið 1991, án þess að ég ætli að rekja það sérstaklega, þar sem ég taldi að það væri mikilvægt að fá slík ákvæði inn í samninginn.
    Við erum með samninga um veiðiheimildir, bæði við Noreg og Færeyjar. Skip Evrópubandalagsins eru að veiðum í landhelgi þessara þjóða þannig að það er mjög eðlilegt að við reynum að ná því fram að skipta við þessar þjóðir á slíkum veiðiheimildum til þess að losna við það, annaðhvort að öllu leyti eða að einhverju leyti, að fá togara Evrópubandalagsins inn í okkar lögsögu.
    Ég tel það líka galla að skipin skuli hafa heimild til að frysta aflann um borð þótt mönnum kunni að finnast að fyrst aflinn er á annað borð kominn um borð í skipin þá sé eðlilegt að þeir hafi alla möguleika til að geyma hann með eðlilegum hætti. Það gerir skipunum auðveldara fyrir. Slík frystiskip eru skilgreind hjá Evrópubandalaginu sem verksmiðjuskip. Það eru því sams konar frystiskip og frysta karfa á okkar miðum sem þarna mundu verða að veiðum því það er afar óalgengt að karfi sé flakaður um borð í íslenskum veiðiskipum.
    Ég vildi jafnframt spyrja hvað sé að frétta af tollaívilnunum okkar að því er varðar síld. Það var fullyrt fyrir alllöngu síðan að það mundi fást tollfrelsi á öllum flökum, en eftir því sem ég best veit er veruleg óvissa um það hvort tollur á edikverkuðum flökum muni verða felldur niður. Ég vildi fá upplýsingar um það.
    Ég vil jafnframt spyrja hæstv. sjútvrh. hvernig verði farið með þessar veiðiheimildir. Hverjir munu fá þær veiðiheimildir sem hér er verið að ræða um? Hér er verið að tala um 30 þús. tonn af loðnu sem bætist við hlut okkar loðnuskipa. Fá loðnuskipin þessar veiðiheimildir án þess að láta nokkuð í staðinn eða munu þessar veiðiheimildir verða að einhverju leyti notaðar til jöfnunar í flotanum?
    Hér er um 3 þús. tonn af karfa að ræða sem er verðmætur afli. Við þekkjum umræðuna um það hvernig ríkisstjórnin brást við þegar þorskurinn minnkaði á Íslandsmiðum síðast og það mikla áfall sem þjóðin varð fyrir. Þá náðist ekki samstaða um að jafna það áfall og þau skip sem veiða mest karfa urðu í reynd fyrir minnstu skerðingunni.
    Ég vildi jafnframt spyrja hæstv. utanrrh. að því hvað verður gert í framhaldi af þessum samningi að því er varðar samning við Belgíu. Belgía er hluti af Efnahagsbandalaginu og hefur haft veiðiheimildir hér frá því að landhelgisstríðinu lauk. Ég vil segja það sem mína skoðun að mér finnst eðlilegt vegna þessa

máls alls að þeim samningi verði nú þegar sagt upp. Þar voru upphaflega sjö skip en aðeins þrjú eru eftir og það er að mínu mati óeðlilegt að þessi skip geti verið mikið lengur á veiðum. Ég tel eðlilegt að þessum samningi sé sagt upp með nokkrum fyrirvara en það er ólíklegt að hægt sé að halda þessum þremur skipum mikið lengur til veiða nema með umfangsmiklum endurbótum. Þau eru orðin það gömul að það hlýtur að vera eðlilegt að segja honum upp.
    Hér er ekki um mjög mikið magn að ræða en þó er það nálægt helmingur af því sem Efnahagsbandalagið fær nú heimild til að veiða í íslenskri lögsögu ef þessi samningur verður að veruleika. Því er eðlilegt við þær aðstæður sem nú eru á Íslandi og það aflaleysi sem við búum við að þessum samningi verði einfaldlega sagt upp. Það hefur líka heyrst að einhverjir hafi látið sér detta í hug að hægt væri að yfirfæra þessar aflaheimildir á íslensk fiskiskip, sem að mínu mati er fráleitt, en tilburðir í slíka átt mæla enn frekar með uppsögn þessa samnings. Án þess ég viti nokkuð um hvort þar eru belgískir aðilar á bak við þá finnst mér allt mæla með því að þessi samningur hafi runnið sitt skeið.
    Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þennan samning. Ég viðurkenni að hér er um erfitt samningamál að ræða og að það eru ákvæði í þessum samningi sem eru góð, t.d. að því er varðar allt eftirlit. Ég tel að það geti ekki öllu betra verið. En þar sem ég er þeirrar skoðunar að hér sé ekki um jafngildar aflaheimildir að ræða treysti ég mér ekki til að styðja þennan samning.