Samningar við EB um fiskveiðimál

69. fundur
Fimmtudaginn 03. desember 1992, kl. 18:08:14 (2978)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Hv. 1. þm. Austurl. lagði það til mála í ræðu sinni áðan að spurt yrði hvort útgerðarmenn vildu kaupa loðnu fyrir karfa í þeim hlutföllum sem hér hefur verið samið um og hefur reyndar farið ýmsum orðum um þá verðmætastuðla sem byggðir eru á mati sjútvrn. í þeim efnum. Ég vil fyrst taka það fram að þeir stuðlar sem nú eru í gildi samkvæmt reglugerð frá 28. júlí 1992 eru byggðir á verðmætamati á innlendum markaði á síðasta fiskveiðiári. Samkvæmt þeim er stuðullinn 0,41 fyrir karfa en 0,05 fyrir loðnu sem þýðir einfaldlega að hér erum við að tala um 1.230 tonn þorskígilda í karfa á móti 1.500 tonnum þorskígilda fyrir loðnu. Þetta endurspeglar með öðrum orðum verðmætamat markaðsins á fiskveiðiárinu. Það er auðvitað laukrétt sem hæstv. sjútvrh. sagði að þegar menn meta þetta geta menn ekki hlaupið eftir dagprísum. Ég skil einfaldlega ekki hvers vegna hv. þm. reynir að gera þetta tortryggilegt.
    Hann spurði, og það kemur ekki á óvart: Hvað mundu útgerðarmenn segja um þennan samning? Hann er kunnur að því að segja að það sé nauðsynlegt að fyrir liggi hvað hagsmunaaðilarnir segi. Ég vil þá biðja hv. þm. að spyrja sjálfa sig þeirrar spurningar hvað sá fulltrúi hagsmunaaðila segi um þennan samning sem að almanna vitorði er talinn harðdrægastur og einstrengingslegastur í kröfum fyrir íslenska útgerð? ( ÓRG: Það er nú fokið í flest skjól . . .  ) Virðulegi forseti, gæti forseti reynt að biðja þennan hv. þm. að gæta tungu sinnar. ( Forseti: Forseti vill biðja hv. 8. þm. Reykn. að hafa hemil á sér.) Það er eðlilegt þegar spurt er um sjónarmið hagsmunaaðila þá sé vitnað í þann mann sem flestir viðurkenna að lengst gangi í kröfum sínum fyrir hönd hagsmunaaðila, hv. þm., og gjarnan er vitnað til þegar menn vilja hafa það á orði hvað hagsmunaaðilarnir hafa til málanna að leggja. Samkvæmt útskrift á viðtölum við ýmsa aðila í Ríkissjónvarpi, 28. nóv. 1992, þá lýsir Kristján Ragnarsson, formaður LÍÚ, sínum viðhorfum mjög afdráttarlaust. (Gripið fram í.) ( Forseti: Forseti hlýtur að óska eftir að þingmenn leyfi hæstv. utanrrh. að tala.) Í þessari útskrift segir, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Það eru skiptar skoðanir um ágæti samningsins sem við gerðum við EB en hann felur í sér að Evrópubandalagslöndin fái að veiða 3 þús. tonn á Íslandsmiðum en Ísland fær á móti 30 þús. tonn af loðnu. Sjútvrh. telur að Íslendingar hafi náð fram flestum kröfum sínum í samningnum en hvert er álit Kristjáns

Ragnarssonar, formanns LÍÚ?`` --- Síðan kemur bein tilvitnun, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ég tel að þetta sé viðunandi niðurstaða. Við fáum fram mjög mörg atriði sem við höfum lagt mikla áherslu á, eins og hvað mörg skip mega vera hér í einu, hvernig eftirlitinu sé háttað, það séu hreinar veiðiferðir, og síðan þetta atriði sem hefur mestum deilum valdið, hvort við höfum veitt loðnu þegar þeir fá að veiða karfa.
    Það er þannig að við fáum réttinn í ársbyrjun. Þeir svo aftur karfaréttinn síðar á árinu. Um er að ræða í þessu sambandi að ef ekki hefur verið úthlutað loðnukvóta, eins og gerðist t.d. 1983, þá mundu þeir enga veiði fá að stunda hér. Ef kvóti yrði skertur, eins og gerðist árið þar á undan eftir að honum hafði verið upphaflega úthlutað, þá mundi það líka virka eins. Þannig að ég tel að það séu ákveðnir óvissuþættir fólgnir í því ef okkur mistekst að veiða loðnuna í ársbyrjun eins og gerðist í fyrra. Það hefur hins vegar ekki gerst í 20 ár að við höfum ekki náð að veiða úthlutaðan kvóta. Þá gæti þetta komið til. Þá eigum við þó rétt á að taka málið upp og ræða það.
    Samningurinn er til eins árs þannig að þá er líka að fenginni reynslu á þessu eina ári hægt að taka málið til endurskoðunar og ræða það. Þannig að ég tel að við séum ekki að taka mikla áhættu í þessu sambandi.``
    Fréttamaður: ,,Ólafur Ragnar var að tala um að Evrópubandalagið hefði náð fram grundvallarkröfu sinni og nánast lúffað fyrir því.``
    Kristján: ,,Ég tel að það sé ekki rétt. Ég tel að það sé alls ekki rétt. Það er algilt að gera samning um veiðiheimildir en ekki um veiði. Við höfum hins vegar sagt að loðnan væri svo duttlungafull skepna að við gætum ekki treyst því að ná henni og þess vegna hafa þessir fyrirvarar verið settir.
    Ég tók líka eftir því að menn hafa áhyggjur af fyrstitogurum. Það var gengið frá þessu. Í sjálfu sér var þetta náttúrlega ákveðið í vor með sérstökum erindaskiptum að þeir fengju að veiða hér 3 þús. tonn af karfa og við fengjum þessa loðnu í staðinn. Það er aðeins verið að útfæra það samkomulag núna svoleiðis að stóra málið gerðist í rauninni þá. Varðandi frystingu um borð í togurum þá fengum við það fram að þeir mega ekki vinna þennan fisk. Þá verða þeir að heilfrysta karfann. Það er vinnsluaðferð sem ekki er stunduð og er ekki markaðsvara þannig að venjulega er hann hausaður og slægður með þeim hætti í leiðinni og síðan pakkað. Þetta fá þeir ekki að gera.
    Deilurnar í gær og ástæðan fyrir því að fundurinn hófst ekki fyrr en átta klukkutímum eftir að hann átti að hefjast voru deilur innan bandalagsins. Suðurríkin, Spánn, Portúgal og Frakkland, héldu að við hefðum gert eitthvert samkomulag við Þjóðverja og Breta um að halda þessari kröfu fram til þess að það væru meiri líkur á að Þjóðverjar og Bretar fengju þessar heimildir. Það er að vísu rétt að okkur er það geðfelldara að þeir komi hér til þessara veiða. Þeir voru hér og við þekkjum þá en við höfum meiri ótta af þessum stóru skipum suðurþjóðanna. En með þessu ákvæði sem við fengum fram tel ég að við höfum komið í veg fyrir það.``
    Fréttamaður: ,,Er ekkert þá til í þeirri gagnrýni að við höfum gefið einum of mikið eftir?``
    Kristján: ,,Alltaf þegar við semjum þarf að gefa eftir og mætast. Ég tel að áhætta okkar í því efni sé mjög lítil. Hún sé verjandi og þá verður bara málið endurskoðað að ári ef svo fer að við veiðum ekki úthlutað loðnumagn í vetur. Við höfum mjög öflugan flota og okkur hefur alltaf tekist það nema í fyrra vegna þess hve veiðarnar hófust þá seint. Nú erum við búnir að veiða yfir 200 þús. tonn af úthlutuðum kvóta, þannig að líkurnar eru hverfandi litlar að mínu mati að við náum ekki að veiða þessi 30 þús. tonn sem við fáum frá bandalaginu sem þeir hafa svo skipt við Grænlendinga.``
    Þetta er tilvitnun í þann hagsmunaaðila sem gjarnan er vitnað til þegar menn vilja hafa það á hreinu hver það er sem lengst gengur fram í kröfum af hálfu hagsmunaaðila. Síðan kemur hins vegar hv. 8. þm. Reykn. og er orðinn miklu harðdrægari fyrir hönd hagsmunaaðilanna en Kristján Ragnarsson, og trúi nú hver sem vill. Enda er búið að heyra margt sjónarspilið frá þeim hv. þm. í þessum umræðum eins og venjulega.
    Þetta ætti a.m.k. að svara þeirri spurningu. Það er nauðsynlegt að það komi inn í umræðurnar áður en lengra er haldið hvert mat þessa fulltrúa íslenskra hagsmunaaðila er á niðurstöðum þessa samnings. Menn hafa heyrt það, þannig að ég þarf ekkert að túlka það. Hann túlkar það með talsvert öðrum hætti en hv. talsmenn Alþýðubandalags eða Kvennalista eins og fram kom í ræðum þeirra áðan.
    Virðulegi forseti. Ég vildi svara nokkrum öðrum atriðum sem fram hafa komið í máli manna til þessa. Ég vitna til ræðu hv. þm. Halldórs Ásgrímssonar. Að vísu hefur hæstv. sjútvrh. svarað flestum atriðunum. Hið fyrsta var um gagnkvæmnina. Ég er sammála hæstv. sjútvrh. um að það er ekki réttmæt gagnrýni að ætla að vísa á bug þeim verðmætastuðlum sem sjútvrn. styðst við að íslenskum lögum og halda því í staðinn fram að við hefðum átt að meta þetta á grundvelli sveiflukenndra markaðsprísa. Ég hef ekki heyrt enn þá rökin fyrir því að það hafi verið rétt.
    Það er kannski ástæða til þess út frá umræðum um gagnkvæmni og verðmætamat að biðja menn að hugleiða svolítið hvað við erum að tala um. Það vildi svo til að ég hringdi í gamla skipstjóra minn á Viðey þar sem ég var í skipsrúmi forðum daga. Þetta er skip sem er með uppistöðu karfaveiði. Ég spurðist fyrir um það hvað hann var með í ársafla á Viðeynni í fyrra af karfa. Það eru 2.500 tonn. Ársafli eins togara, þ.e. karfaafli hans sem er uppistaðan í afla skipsins. Það er litlu minna en þær heimildir sem við höfum látið af hendi í skiptum fyrir 30 þús. tonn af loðnu sem Kristján Ragnarsson var að lýsa að hann

hefði fulla trú á að ekki væri vafi á að við næðum miðað við okkar öfluga flota og við eðlilegar kringumstæður.
    Það hefur enginn nefnt hér að sóknarkostnaðurinn skiptir miklu máli í útgerð. Hvað halda menn að þetta sé ábatasamleg útgerð að eiga að halda úti á tveimur veiðisvæðum --- menn mega halda hér úti þremur plús tveimur skipum til þess að veiða þessa karfatitti sem í þennan ársafla fara? Hvað halda menn að útgerðarkostnaðurinn sé ef menn hafa eitthvert hugboð um þann kostnað?
    Menn hafa talað eins og Íslendingar hafi lúffað í samningum, látið allt af hendi við Evrópubandalagið, hið óbilgjarna Evrópubandalag, neita að viðurkenna almennan verðmætamælikvarða, sem við höfum stuðst við í þessu máli, o.s.frv. Sannleikurinn er sá og það er viðurkennt og staðfest, og menn eiga ekkert að vera að tala gegn staðreyndum, að hér er um skipti á gagnkvæmum veiðiheimildum að ræða. Eins og er viðurkennt í gögnum sem Evrópubandalagið sjálft leggur fram í Evrópuþinginu, þá líta þeir svo á að þeir hafi fengið veiðiheimildir í staðinn fyrir markaðsaðild að því er varðar Noreg og Svíþjóð, en þeir segja að því er Ísland varðar sé um gagnkvæmar veiðiheimildir að ræða. Það er auðvitað ekkert fyrir okkur að hafa áhyggjur af hver útgerðarkostnaður þeirra verður við að ná þessum afla á þetta mörgum skipum. En ef menn eru að tala um þetta af einhverju raunsæi og ekki af tómum leikaraskap og ábyrgðaleysi, eins og 8. þm. Reykn. gerði með öfugmælum sínum öllum áðan, ég tek það fram að ég geri mikinn mun á ræðu hv. þm. Halldórs Ásgrímssonar og þeim ósköpum, þá er ljóst að það er ekki hægt að segja við fólk sem hefur komið nálægt sjósókn eða hefur einhver kynni af því sem það er að tala um að hér sé um einhvern óskaplegan fórnarkostnað að ræða og halli á Ísland í þessum viðskiptum.
    Ég tek það fram að ég hef ekki miklar áhyggjur af því hver kostnaður samningsaðila er. Þetta er það sem þeir hafa fengið. Þetta er það sem þeir hafa farið fram á. Þetta er samningur sem er endurskoðaður frá ári til árs. Að því er varðar þessa eilífu króníkur sem vitnað er til þegar menn eru að tala um karfa eða langhala er t.d. ágætt að benda á að ástæðan fyrir því að ekki var um samninga um það að ræða eins og óskir t.d. Frakka stóðu til, er einfaldlega sú, eins og margsinnis hefur komið fram, að við gátum ekki sýnt fram á það með áreiðanlegum rannsóknum að sá veiðistofn væri fyrirfinnanlegur og í veiðanlegu ástandi. Hins vegar er vísað til þess í texta Óportó-samningsins að ef þær rannsóknir liggi fyrir þá skuli það skoðað. Ef menn tala um þetta af einhverri sanngirni held ég að menn eigi að láta af því að draga upp af þessu falska mynd byggða á því að bera enga virðingu fyrir staðreyndum.
    Þá er spurt: Hvers vegna var þess ekki kostur að við semdum við Evrópubandalagið um að láta af hendi einhverjar hugsanlegar veiðiheimildir sem við gætum hugsanlega samið um við aðrar þjóðir að fá í skiptum?
    Ég verð satt að segja að viðurkenna að mér er vandi á höndum að átta mig á því hvort hér er verið að tala af alvöru. Við gætum út af fyrir sig sagt að ef við í tíð fyrrv. ríkisstjórnar hefðum gert slíka samninga um að afla okkur veiðiheimilda, við skulum segja hjá Norðmönnum eða Færeyingum, sem við ekki höfum, þá gætum við látið það upp í einhver skipti. Við höfðum engar slíkar veiðiheimildir og enga slíka samninga. Það getur hver sem er út af fyrir sig gert sér í hugarlund hvers vegna það var ekki. Hitt er mér ómögulegt að skilja að þess hefði verið raunverulegur kostur í viðskiptum okkar við Evrópubandalagið að bjóða upp á einhverja hugsanlega slíka samninga. Það er verið að segja að við hefðum átt að leita eftir slíkum samningum um veiðiheimildir við aðrar þjóðir og þá hefðum við orðið að gera það í tíð fyrri ríkisstjórnar með hliðsjón af því hver aðdragandi þessa samnings er.
    Það var spurt um edikverkaða síld og því haldið fram þegar samningunum lauk á sínum tíma hafi verið sagt: Við fengum fullkomið tollfrelsi fyrir saltsíldarflök. Staðreyndin í því máli er margrakin í umræðum á hinu háa Alþingi og í utanrmn. Sannleikurinn er sá að við fengum fram með óvæntum hætti viðurkenningu á því að saltsíldarflök samkvæmt skilgreiningu skyldu ná tollfrelsi þrátt fyrir það að Evrópubandalagið hafi lýst því yfir að þrennt skyldi algjörlega undanskilið varðandi markaðsaðgang: síld, makríll og lax.
    Síðan er spurningin: Á þetta við um öll saltsíldarflök? Niðurstaðan liggur ekki fyrir að því er varðar hin edikverkuðu flök. Það er einfaldlega vegna þess að það er ekki kominn endanlegur úrskurður um aukaefni og tollflokkaskipan. Tveir kostir er fyrir hendi. Annaðhvort falla edikverkuðu flökin undir tollflokkin söltuð síldarflök og eru þá í tollflokknum 0305-3014 og mundu þá bera núlltoll. Eða þau eru flokkuð sem niðurlögð flök og eru þá í öðrum tollflokki, 1604-1217, og mundu þá bera 10% toll. Þessu hefur verið skotið til úrskurðar hjá Alþjóðatollamálaráðinu og niðurstaðan liggur ekki fyrir. En hér verðum við auðvitað að styðjast við alþjóðlegar venjur um röðun í tollflokka.
    Menn hafa nokkuð vikið að því að sjálfsagt verði að segja belgíska samningnum upp. Ég ætla ekki að láta uppi neina skoðun um það. Belgíski samningurinn rennur út sjálfkrafa þegar síðasta skipið telst ekki lengur úthaldshæft. Að vísu er líka hægt að grípa til uppsagnarákvæða en ég ætla ekki að kveða upp neinn dóm um það hvort nú er rétti tíminn til þess að gera það.
    Þá er óhjákvæmilegt að víkja nokkrum orðum að makalausum málflutningi hv. 8. þm. Reykn. í þessu máli. Hann byrjaði á að telja það upp að Íslendingar hefðu sett sér ferns konar samningsmarkmið og tapað þeim öllum. Hið fyrsta: Fríverslun með fisk. Annað: 100% markaðsaðgangur. Þriðja: Að hleypa ekki erlendum EB-skipum í landhelgi nema það væri þá á gagnkvæmnisgrundvelli varðandi skipti á veiðiheimildum. Og fjórða: Að aldrei skyldi fallist á að veita veiðiheimildir fyrir markaðsaðgang.

    Hæstv. sjútvrh. vék að þessu hér áðan og hefur út af fyrir sig hrakið allar þessar fullyrðingar. Það sem vekur mér undrun er það að formaður Alþb., flokks sem á að taka alvarlega, maður sem er í utanrmn. og hefur þess vegna aðgang að öllum gögnum um þetta mál skuli leyfa sér málflutning af því tagi sem hann viðhafði. Vegna þess að það veit hver einasti maður í utanrmn. og allir hv. þm. sem hafa lagt sig eftir að kynna sér þetta mál að allt er þetta fleipur og öfugmæli og ótrúlegt að hv. þm. skuli leyfa sér slíkan málflutning.
    Rifjum upp staðreyndir þessa máls. Hver voru samningsmarkmið Evrópubandalagsins í sjávarútvegsmálum? Þau voru fyrst og fremst þessi:
    Í fyrsta lagi að tryggja Evrópubandalaginu veiðiheimildir í staðinn fyrir jafngildar á við tollaívilnanir á mörkuðum.
    Hver var önnur meginkrafa Evrópubandalagsins? Hún var að tryggja það að Evrópubandalagið mætti fjárfesta samkvæmt almennum reglum í þessari auðlind.
    Hvorugt þessara samningsmarkmiða náðist fram út frá þeirra bæjardyrum séð eins og öllum er kunnugt um og ekki þýðir að neita. Það er auðvitað alveg á hreinu að í þessum samningum var ekki fallist á einhliða veiðiheimildir. Því var hafnað algerlega og það er staðfest og viðurkennt og framlagt á skjölum Evrópubandalagsins.
    Að því er varðar fjárfestingarréttindi varðandi íslenska útgerð og fiskvinnslu liggur fyrir að Íslendingar hafa þar varanlega undanþágu sem byggir á íslenskum lögum og er háð vilja hv. Alþingis. Og að hv. þm. Stefán Guðmundsson, jafnkunnugur og hann á að vera sjávarútvegsmálum, skuli rembast við að hrista höfuðið gagnvart slíkum staðreyndum er ótrúlegt. En þetta eru staðreyndir málsins.
    Að því er varðar síðan samningsmarkmið okkar. Það er laukrétt að við fyrir hönd fyrrv. ríkisstjórnar settum upp samningsmarkmiðið um fríverslun með fisk. Okkur kom öllum saman um að það væri sjálfsagt og rökrétt. Við byrjuðum þessi mál með því undir forustu Steingríms Hermannssonar formanns Framsfl. að knýja fram fríverslun með fisk innan EFTA og við höfðum reynt að beita okkur fyrir í 19 ár. Það náði fram að ganga að því er varðaði viðskipti innan EFTA með vissum fyrirvörum og tímabundnum undanþágum. Þess er að geta að við höfðum síðan í framhaldi af því náð tvíhliða samningum, sem við erum að gera með hinum EFTA-þjóðunum, þar sem við erum yfirleitt að ná fram viðurkenningunni um fríverslun með fisk.
    Hitt var okkur öllum ljóst í fyrrv. ríkisstjórn frá upphafi vega að engar líkur væru á því að við næðum þessu ýtrasta markmiði með fríverslun með fisk og margsinnis rætt á ríkisstjórnarfundum og manna í milli í þeirri ríkisstjórn að þetta væri að sjálfsögðu samningatækni okkar og samningsmarkmið og við mundum halda því fram til þess að byggja upp stöðu okkar í þessum samningum. Líkurnar á því að Evrópubandalagið féllist á að falla frá sameiginlegri fiskveiðistefnu sinni voru auðvitað nánast engar. Það gátu allir menn sagt sér sjálfir. Engu að síður var þetta rétt af okkur og engu síður gerðum við þetta. Það verður auðvitað að taka fram að strax í upphafi hinna raunverulegu samningaviðræðna, þegar undirbúningsviðræðunum var lokið 1990, hafnaði Evrópubandalagið þessari kröfu. Þeir sem frammi fyrir því stóðu voru stjórnarflokkar í fyrrv. ríkisstjórn. Okkur var öllum kunnugt um það árið 1990. Við vissum það ósköp vel að þar með var þetta ýtrasta samningsmarkmið farið og við höfðum aldrei gert okkur vonir um að ná því fram. Hver voru viðbrögðin af hálfu þáv. ríkisstjórnar? Að sjálfsögðu ekki að falla frá samningunum heldur að byggja upp stöðu okkar um samningsmarkmið númer tvö sem var hið raunsæja, þ.e. að reyna að ná markaðsaðgangi. Hver er niðurstaðan? Krafan var þá um 100% markaðsaðgang. Hún verður 96% þegar þessir samningar eru komnir til skila. Er einhver að halda því fram í alvöru upp í opið geðið á fólki að það sé lélegur samningsárangur? Að sjálfsögðu er ekki hægt að halda því fram.
    Þriðja atriðið sem hv. þm. nefndi var að aldrei skyldi hleypt inn skipum Evrópubandalagsins nema það væri á grundvelli samnings um gagnkvæm skipti á veiðiheimildum. Það samningsmarkmið náðist vegna þess að við erum hér með samning sem kveður á um gagnkvæm skipti á veiðiheimildum. Við erum búin að fara yfir það í þessari umræðu hvort verðmætastuðlar sjútvrn. eru nothæfur mælikvarði eða ekki. (Gripið fram í.) Já, þeir þóttu ágætir í tíð fyrrv. sjútvrh. og þeir þykja það enn. Þetta eru verðmætastuðlar sem byggja á mati á verði á innlendum mörkuðum á þessum aðilum. Við getum ekki hlaupið frá því og sagt: Við ætlum að miða við eitthvað allt annað.
    Reyndar var það ekkert undantekningarlaus regla að við hefðum samið við aðra um það að hér mættu vera skip að veiðum. Hver sá sem les vikulega blaðið Úr verinu, fylgirit Morgunblaðsins, getur fylgst með því. Þeir birta í hverri einustu viku kort með þeim skipum sem eru að veiðum innan íslenskrar landhelgi samkvæmt samningum, gömlum, endurteknum og endurnýjuðum samningum. Það er mjög algengt að yfir 20 færeysk skip séu innan landhelginnar fyrir utan belgísku skipin. Það er því í fyrsta lagi óþarflega mikil ónákvæmni í meðferð staðreynda að segja að það að erlendum skipum, í þessu tilfelli þremur plús tveimur, sé leyft að veiða innan íslenskrar fiskveiðilögsögu á grundvelli gagnkvæmra skipta á veiðiheimildum sé brot á einhverri ginnheilagri reglu. Það er bara rangt. Færeyingar eru hér samkvæmt samningum og Belgar voru það líka. Reyndar voru til eldri samningar að því er varðaði Norðmenn þótt þeir séu úr gildi fallnir.
    Þá er það fjórða atriðið, sem hv. þm. fór með, að aldrei skyldi fallist á að veita veiðiheimildir fyrir markaðsaðgang. Á það hefur ekki verið fallist hvorki af fyrri ríkisstjórnum né þessari ríkisstjórn. Það er

staðreynd sem þýðir ekkert að mæla í móti. Það var ein meginkrafa Evrópubandalagsins og hún náðist ekki fram. Niðurstaðan er hins vegar sú að við höfum efnt fyrirheit sem var gefið á sínum tíma þegar við vorum að ná tvíhliða samningnum við EB frá 1972--1976. Við höfum efnt það fyrirheit að gera almennan rammasamning um samstarf í fiskveiðimálum, sem enginn hefur vikið að einu orði, hann er svo sjálfsagður, og í annan stað að gera samning um gagnkvæm skipti á veiðiheimildum. Þetta eru staðreyndir málsins. Um samningsmarkmið Evrópubandalagsins annars vegar og um þau samningsmarkmið sem við settum okkur hins vegar og um niðurstöðuna.
    Það er ekki hægt í viti borinni umræðu á Alþingi Íslendinga að snúa öllum staðreyndum á haus eða láta eins og staðreyndir séu ekki til og fara með tómt fleipur. ( HG: Hver er að því?) Ég hef verið að segja það, hv. þm., að þegar því er haldið fram að þessi samningsmarkmið hafi öll tapast, þá sé það fleipur og verði ekki rökstutt með vísan til neinna staðreynda.
    Virðulegi forseti. Mér er tjáð að margir séu á mælendaskrá en í ljósi þess sem þegar hefur verið sagt í þessum umræðum var óhjákvæmilegt að reyna að beina umræðunni aftur á braut einhverra staðreyndaumfjöllunar. Ef við erum að ræða þessa samninga þýðir ekki fjalla um þá á þeim grundvelli að við séum að tala um að fallist hafi verið á veiðiheimildir til Evrópubandalagsins í staðinn fyrir markaðsaðgang. Það er rangt. Það þýðir heldur ekkert að halda því fram að þessir samningar um skipti á veiðiheimildum séu ómarktækir af því að þeir mælikvarðar sem íslenska sjútvrn. notar og byggir á grundvelli íslenskra laga séu allt í einu ómark. Og það þýðir ekkert að reyna að gera lítið úr þeim tækifærum fyrir íslenskan sjávarútveg sem felst í þeim árangri sem náðist að því er varðaði markaðsaðgang. Ég tel að sá árangur sé ekki mestur að því er varðaði niðurfellingu tollanna, sem er mál út af fyrir sig, heldur sé þýðingarmest að með þeim breytingum á markaðsaðgangi hefur sjálfri stefnu Evrópubandalagsins gagnvart fiskveiðiþjóðum og fiskvinnsluþjóðum verið breytt vegna þess að þeirra tollakerfi var miðað við að laða inn hráefni á lágum eða engum tollum en koma í veg fyrir með háum tollum að í þessum löndum gæti þróast hátæknifiskiðnaður sem væri þannig útilokað að kæmist með sínar afurðir á neytendamarkaði vegna tollmúra.
    Það eru þau tækifæri sem bjóðast fyrir íslenskan sjávarútveg og íslenska fiskvinnslu og þar með ekki síst fyrir íslensku landsbyggðina sem er auðvitað vinningsvonin í þessum samningi. Öllum sem í sjávarútvegi starfa er ljóst að þessi tækifæri eru raunveruleg og tugir fyrirtækja hafa á undanförnum mánuðum búið sig undir að nýta þessi tækifæri og gera sér vonir um að þessi samningur auðveldi okkur í erfiðri stöðu í sjávarútveginum að búa til meiri verðmæti úr minnkandi afla. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að hv. þm., talsmenn sjávarútvegs einatt eða talsmenn landsbyggðarinnar á Íslandi, leyfi sér við þessar kringumstæður að snúa öllum staðreyndum á haus eða kynda svo elda tortryggni eða leika svo gráa pólitíska hráskinnsleiki að þeir vilji ekki taka mark á þessum staðreyndum og vilji ekki einu sinni eiga að því hlut að þau tækifæri sem þetta skapar geti nýst íslenskum sjávarútvegi.
    Ég lýsi ábyrgð á hendur þeim mönnum sem haga málflutningi sínum með þessum hætti. En ég tek það fram að ég geri mikinn mun á því á hvern veg menn ræða þessi mál hér. Ég hef yfirleitt farið heldur virðulegum orðum um bæði málflutning og störf hv. þm. Halldórs Ásgrímssonar af kynnum mínum af honum og dreg þau orð ekkert til baka. Ég er ekki sammála honum þegar hann segir að við höfum oftúlkað niðurstöður þessa samnings eða veikt samningsniðurstöðuna. Það er reyndar algjör fjarstæða vegna þess að við veiktum ekkert samningsstöðu okkar þótt við legðum mat á hin gagnkvæmu skipti samkvæmt verðmætastuðlum íslenskra laga.
    En ég játa það að ég varð fyrir vonbrigðum með það að formaður Alþb., hv. 8. þm. Reykn., gerir það af einberum pólitískum leikaraskap að ræða þessi mál með þeim hætti sem hann gerði hér áðan. Ég átti við hann gott samstarf í ríkisstjórn, þar á meðal um þetta mál, og reyndar við báða hv. þm., og ég verð að viðurkenna að ég á erfitt með að skilja hvernig menn fara að því að snúa svo gersamlega við blaðinu frá því sem sneri upp í ríkisstjórnarsamstarfi um leið og menn eru komnir í stjórnarandstöðu bara í einum saman pólitískum leikaraskap eða í von um einhvern skyndiávinning. Þetta mál er allt af því tagi að það ber að gera a.m.k. lágmarkskröfur til virðingar fyrir staðreyndum og til ábyrgðartilfinningar.