Samningar við EB um fiskveiðimál

69. fundur
Fimmtudaginn 03. desember 1992, kl. 18:40:00 (2979)

     Halldór Ásgrímsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég vil enn á ný mótmæla því að litið sé á útreikningsaðferðir sjútvrn. sem einhvern heilagan sannleik í þessu máli. Ég vil máli mínu til stuðnings vitna í hæstv. utanrrh. í einum fjölmiðlanna á árinu 1991, en þar kemur fram þrenns konar verðmætamat á þessum 3 þús. tonnum. Hann segir, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Fulltrúar sjávarútvegsins hafa verið að meta það að 3 þús. tonn af karfa, sem eru 2.600 þorskígildi, væru kannski svona að verðmæti um 200 millj. kr. þannig að það er ekki stór upphæð. Þetta er að mati sjútvrn. eins og við metum það 1.560 tonn. Þetta er svona eins og afli tveggja góðra vertíðarbáta.``
    Í þessu viðtali kemur fram þrenns konar verðmætamat. 2.600 tonn að mati Evrópubandalagsins, 1.560 tonn að mati sjútvrn. og 200 millj. að mati útvegsmanna. Væntanlega hefur það verið Kristján Ragnarsson, sem ég heyri að hæstv. utanrrh. hefur miklar mætur á. Ef þetta væri metið loðnumegin, þá eru það 1.500 tonn að mati ráðuneytisins. Ég gæti trúað að það væru 120 millj. í dag að mati útvegsmanna, í mesta lagi 90 millj. eftir áramót, og hugsanlega væri talan af hálfu Efnahagsbandalagsins yfir þessa loðnu ekki

meira en 1 þús. tonn. Að vísu eru þeirra útreikningur mjög skrýtnir að því er varðar það mál.
    Ég er, hæstv. utanrrh., eingöngu að benda á ákveðnar staðreyndir. Í þessum samningum átti ekki að líta á verðmætamat samkvæmt þessum stuðlum sem einhvern heilagan sannleik eins og ég heyri að hæstv. utanrrh. hefur gert því að hann hefur einfaldlega reiknað þetta út, græddi 20% og sagði við þá í Brussel: Ég fór eiginlega nokkuð illa með ykkur því að ég græddi 20% og þið töpuðuð 20% og gefur þetta út í fréttatilkynningu. Þetta er náttúrlega fráleitur málflutningur.