Samningar við EB um fiskveiðimál

69. fundur
Fimmtudaginn 03. desember 1992, kl. 18:45:32 (2982)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hæstv. utanrrh. reyndi að hrekja það hér áðan að lýsing mín á þessum fjórum atriðum hefði verið rétt. Ég vil fara yfir þetta aftur. Hæstv. utanrrh. viðurkennir að það hafi ekki náðst fríverslun með sjávarafurðir. Það er hins vegar rétt hjá honum að það var vitað á seinni hluta valdatíma síðustu ríkisstjórnar. Það er líka rétt hjá honum að við ákváðum í síðustu ríkisstjórn að láta reyna á hinar grundvallarkröfurnar þótt þessi næði ekki fram. En það breytir því ekki að þessi náðist ekki fram. Ráðherrann viðurkennir það svo líka hér að grundvallarreglan um tollfrelsi með sjávarafurðir náðist ekki fram sem grundvallarregla. Hann getur svo farið í prósentureikning um það hvernig eigi að meta þessa tolla eins og hann vill. En það breytir því ekki að þegar við ætlum að fara með nýjar sjávarafurðir, aðrar aflategundir, inn á markað Evrópubandalagsins þá þarf að semja um það sérstaklega af því að við náðum ekki fram grundvallarreglunni um tollfrelsi. Í þriðja lagi er Halldór Ásgrímsson búinn að hrekja hér mjög rækilega fullyrðingar ráðherrans um fullgildar veiðiheimildir. Og það dugir ekkert fyrir ráðherrann að hæla Halldóri Ásgrímssyni þegar það hentar honum í skaki við mig en segja svo þegar Halldór Ásgrímsson er að hrekja ummæli ráðherrans: Það er bara fjarstæða. Ef utanrrh. hæstv. tekur svona mikið mark á Halldóri Ásgrímssyni þá ætti hann að viðurkenna það mat sem Halldór Ásgrímsson hefur sett hér fram varðandi þetta þriðja atriði.
    Varðandi fjórða atriðið þá benti ég á það að Evrópubandalagið telur sig hafa náð fram veiðiheimildum fyrir tollalækkanir. Og utanrrh. hefur ekki hrakið það hér í ræðustólnum.
    Að lokum vil ég spyrja hæstv. utanrrh. af því að hann kaus að víkja að engu að merkilegum yfirlýsingum hæstv. sjútvrh. Hæstv. sjútvrh. sagði að utanrrh. hefði farið með mótsagnarkenndar yfirlýsingar varðandi höfuðdeiluatriði. Og hæstv. sjútvrh. dró inn í umræðurnar yfirýsingar utanrrh. frá 10. júní sem hæstv. sjútvrh. benti á að stönguðust á við yfirlýsingar utanrrh. frá 1. des. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. utanrrh.: Hvort á að taka mark á yfirlýsingum hans 10. júní eða 1. des.? Fyrst ráðherrann segir hér hvað eftir annað: það á að virða staðreyndir, þá viljum við fá að vita hvor yfirýsingin er rétt, sú frá 10. júní eða sú frá 1. des.