Samningar við EB um fiskveiðimál

69. fundur
Fimmtudaginn 03. desember 1992, kl. 18:50:20 (2985)


     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég bar fram einfalda spurningu við hæstv. sjútvrh.: Hvort á að taka mark á yfirlýsingu hans 10. júní sem hæstv. sjútvrh. las hér upp í ræðustólnum, það var ekki ég sem las hana, það var hæstv. sjútvrh. sem las hana, eða á að taka mark á yfirlýsingunum 1. des.? Hæstv. utanrrh. treystir sér ekki til að svara þessari spurningu. Það er auðvitað mjög athyglisvert. Hæstv. utanrrh. treystir sér ekki til þess. Það eru svo merkileg örlög mín hér í þessum umræðum að þessir tveir ráðherrar kjósa að senda spjótalögin hvor á annan í gegnum mig og þykjast vera að mótmæla mér í ræðustólnum þegar þeir eru í reynd að ráðast á hinn. Því að þetta svar hæstv. utanrrh. þegar hann fór að lesa upp úr viðtalinu við mig í sjónvarpinu var auðvitað bara enn ein árásin á hæstv. sjútvrh. og ekkert annað. Ekkert annað en árás á hæstv. sjútvrh.
    Ég endurtek þess vegna ósk mína, hæstv. utanrrh.: Sjútvrh. hefur sagt að yfirlýsingar þínar stangist á, þær geti ekki báðar verið marktækar. Það er það sem sjútvrh. hefur sagt í þessum umræðum og við hér í þingsalnum viljum fá að vita það hvor yfirlýsingin er rétt. Því að það er sjútvrh. en ekki við sem segir að þú sért ómarktækur í þessum yfirlýsingum.